Veðmál Óðins (danska: Odins Væddemål) er þriðja bókin í bókaflokknum um Goðheima. Hún kom út árið 1982. Teiknari hennar var listamaðurinn Peter Madsen, en auk hans komu þeir Hans Rancke-Madsen, Per Vadmand og Henning Kure að gerð handritsins. Öfugt við flestar aðrar bækur í ritröðinni er söguþráðurinn ekki sóttur í neina tiltekna goðsögu, heldur spinna höfundarnir upp sjálfstæða sögu sem hefur að geyma minni héðan og þaðan úr goðafræðinni og fornaldarsögum Norðurlanda.

Söguþráður breyta

Í upphafi sögunnar er Óðinn orðinn langþreyttur á lélegri nýliðun einherja í Valhöll og kennir valkyrjum um. Þær svara fullum hálsi með þeim afleiðingum að Óðinn veðjar að hann geti sjálfur og án galdra fundið þrjár kempur í Miðgarði sem stæðu framar hinum nýju einherjum. Í kjölfarið hefst langt ferðalag þar sem Óðinn kynnist mörgum persónum sem koma fyrir í ritum Saxa málspaka, Ynglingasögu o.fl. Leitin gengur illa, þótt Óðinn rekist á ýmsa garpa á ferðum sínum, þar á meðal Ragnar loðbrók.

Fjarvera Óðins gerir það að verkum að bræður hans Vili og taka við stjórnartaumunum í Valhöll. Valdið stígur þeim til höfuðs. Þeir sofa hjá Frigg, færa gjallarhorn Heimdallar til Valhallar, setja af sem hershöfðingja en fela jötnum varnir Ásgarðs, svo nokkuð sé nefnt. Baldur, Loki og Þór ákveða að fá Óðinn aftur heim með blekkingum, þar sem þeir þykjast vera garpar í mannheimum. Þegar Óðinn snýr aftur heim hrekur hann jötnana á brott, úthýsir bræðrum sínum og hrósar sigri í veðmálinu við valkyrjur, þrátt fyrir að hafa augljóslega ekki staðið við stóru orðin um að finna þrjár mennskar kempur.

Fróðleiksmolar breyta

  • Mannabörnin Þjálfi og Röskva koma nánast ekkert fyrir í bókinni, en þau eru í veigamiklum hlutverkum í velflestum hinna sagnanna.
  • Höfundar Goðheimasagnanna voru í fyrstu efins um að goðsögurnar yrðu nægur efniviður í heilan bókaflokk. Því sáu þeir fyrir sér að um það bil önnur hver bók myndi byggja á kunnum goðsögnum en á móti kæmu sjálfstæð, frumsamin ævintýri sem gerast myndu í sama söguheimi. Veðmál Óðins fellur í seinni flokkinn. Frá þessari hugmynd var horfið að mestu.
  • Fyrstu þrjár sögurnar í bókaflokknum komu út á fjögurra ára tímabili frá 1979 til 1982. Nokkuð bil varð milli þriðju og fjórðu sögunnar og breyttist teikni- og frásagnarstíllinn talsvert á þeim tíma. Fyrstu þrjár bækurnar eru því nokkuð frábrugðnar þeim verkum sem á eftir komu í útliti.

Íslensk útgáfa breyta

Veðmál Óðins kom út hjá Iðunni árið 1982, sama ár og á frummálinu. Þýðandi var Guðni Kolbeinsson. Hún var endurútgefin árið 2012 með nýrri forsíðu.