Ungbarnadauði er dauði barns á fyrsta aldursári. Tíðni ungbarnadauða er skilgreind sem fjöldi látinna barna 12 mánaða og yngri á hver 1.000 börn sem fæðast lifandi.[1] Vöggudauði, óútskýrt skyndilegt andlát barns undir 12 mánaða aldri, er ein orsök ungbarnadauða. Barnadauði er dauði barna undir fimm ára aldri,[2] og burðarmálsdauði er dauði fósturs eða nýbura, eftir 22 vikna meðgöngu og áður en barnið er 28 daga gamalt.

Heimskort sem sýnir tíðni ungbarnadauða í ólíkum löndum.

Ástæður ungbarnadauða eru margvíslegar og tengjast meðal annars sjúkdómum, umhverfisþáttum og efnahagslegum þáttum. Algengar orsakir ungbarnadauða eru köfnun í fæðingu, lungnabólga, fæðingargallar, vandamál í meðgöngu eða við fæðingu, nýburasýking, niðurgangur, malaría, mislingar og vannæring.[3] Skortur á læknisþjónustu á meðgöngu, áfengisneysla, reykingar og eiturlyfjaneysla, eru meðal áhrifaþátta.[4] Tíðni ungbarnadauða tengist mörgum öðrum breytum eins og menntunarstigi móður, umhverfisaðstæðum, samfélagslegum innviðum og heilbrigðisþjónustu.[5] Aðgerðir eins og bætt hreinlætisaðstaða, aðgangur að hreinu drykkjarvatni, bólusetningar gegn algengum smitsjúkdómum og aðrar lýðheilsuráðstafanir draga úr tíðni ungbarnadauða.

Árið 1990 létust 8,8 milljón börn undir 12 mánaða aldri í heiminum.[6] Árið 2015 var þessi tala komin niður í 4,6 milljónir.[7] Tíðni ungbarnadauða minnkaði úr 65 í 29 andlát á 1.000 fæðingar á heimsvísu á sama tíma.[8] Árið 2017 létust 5,4 milljón börn fyrir fimm ára aldur,[9] en árið 1990 var þessi tala 12,6 milljónir.[7] Talið er að hægt væri að fyrirbyggja 60% þessara andláta með tiltölulega einföldum aðgerðum eins og samfelldri brjóstagjöf, bólusetningum og bættri næringu.[10]

Tíðni ungbarnadauða breyta

Samkvæmt Sameinuðu þjóðunum[11] voru eftirtalin fimm lönd með hæsta tíðni ungbarnadauða 2015-2020:

Land eða landsvæði Tíðni ungbarnadauða 2015-2020
  Mið-Afríkulýðveldið 81,90
  Síerra Leóne 80,77
  Tjad 74,50
  Sómalía 69,31
  Miðbaugs-Gínea 66,13

Samkvæmt sömu heimild voru eftirtalin fimm lönd með lægsta tíðni ungbarnadauða 2015-2020:

Land eða landsvæði Tíðni ungbarnadauða 2015-2020
  Ísland 1,25
  Hong Kong 1,32
  Singapúr 1,63
  Finnland 1,71
  Japan 1,76

Tilvísanir breyta

  1. Mathews TJ, MacDorman MF (janúar 2013). „Infant mortality statistics from the 2009 period linked birth/infant death data set“ (PDF). National Vital Statistics Reports. 61 (8): 1–27. PMID 24979974.
  2. „Under-Five Mortality“. UNICEF. Sótt 7. mars 2017.
  3. „Infant Mortality & Newborn Health“. Women and Children First. Sótt 25. apríl 2017.
  4. CDC (3. júní 2020). „Commit to Healthy Choices to Help Prevent Birth Defects | CDC“. Centers for Disease Control and Prevention (bandarísk enska). Sótt 30. júlí 2020.
  5. Genowska A, Jamiołkowski J, Szafraniec K, Stepaniak U, Szpak A, Pająk A (júlí 2015). „Environmental and socio-economic determinants of infant mortality in Poland: an ecological study“. Environmental Health. 14: 61. doi:10.1186/s12940-015-0048-1. PMC 4508882. PMID 26195213.
  6. „Infant Mortality“. World Health Organization. World Health Organization. 2020. Afrit af upprunalegu geymt þann 24. mars 2014. Sótt 22. október 2020.
  7. 7,0 7,1 Roser, Max (10. maí 2013). „Child Mortality“. Our World in Data.
  8. „Mortality rate, infant (per 1,000 live births) | Data“. data.worldbank.org. Sótt 24. mars 2019.
  9. „Children: reducing mortality“. www.who.int (enska). Sótt 31. júlí 2020.
  10. „WHO | Child mortality“. www.who.int. Afrit af upprunalegu geymt þann 14. mars 2011. Sótt 16. mars 2017.
  11. United Nations World Population Prospects