Teketill Russells var líking sem kennd er við breska heimspekinginn Bertrand Russell. Líkingunni er ætlað að hrekja þá hugmynd að sönnunarbyrðin hvíli á herðum efasemdamannsins að hrekja fullyrðingar trúarbragðanna. Í grein með titlinum „Er guð til?“ („Is There a God?“), sem tímaritið Illustrated fékk Russell til að skrifa árið 1952 en birti aldrei, sagði Russell:

Gæsalappir

Ef ég legði til að milli jarðarinnar og Mars væri postulínsteketill á braut umhverfis sólina myndi enginn getað afsannað fullyrðingu mína svo lengi sem ég gætti þess að segja að teketillinn væri of lítill til þess að við gætum séð hann jafnvel með öflugustu sjónaukum okkar. En ef ég segði að auki að úr því að ekki er hægt að afsanna fullyrðingu mína sé það óþolandi hroki af hálfu mannlegrar skynsemi að draga hana í efa, þá mætti með réttu segja að ég væri að bulla. En ef tilvist slíks teketils er staðhæfð í gömlum bókum, kennd sem heilagur sannleikur á hverjum sunnudegi, innrætt börnum í skólum, þá myndi sá sem hikar við að trúa á tilvist ketilsins vera kallaður sérvitringur og geðlæknar myndu sjá um hann á upplýsingaröld eða rannsóknarrétturinn á fyrri tímum.“

— Bertrand Russell.

Í bók sinni A Devil's Chaplain þróar Richard Dawkins líkinguna áfram:

Gæsalappir

Ástæða þess að við ættum að vera andsnúin skipulögðum trúarbrögðum er sú að ólíkt tekatli Russells eru trúarbrögðin valdamikil, áhrifamikil, undanþegin skatti og skipulega og kerfisbundið kennd börnum sem eru of ung til að verja sig. Börn eru ekki neydd til þess að eyða uppvaxtarárum sínum í að leggja á minnið bækur um tekatla. Skólar, sem eru reknir fyrir almannafé, mismuna ekki börnum sem eiga foreldra sem kunna ekki að meta rétta lögun teketilsins. Þeir sem trúa á teketilinn grýta ekki þá sem trúa ekki á teketilinn til dauða, og þá sem standa gegn tekatlinum, teketilsvillutrúarmenn og teketilslastara. Mæður vara ekki syni sína við því að giftast teketils-shiksa sem á foreldra sem trúa á þrjá tekatla í stað eins. Fólk sem setur mjólkina í fyrst rekur ekki hnéð í kviðinn á þeim sem setja teið í fyrst.“

— Richard Dawkins.

Hugmyndin um teketil Russells hefur verið nýtt í gagnrýni á trúarbrögðin t.d. í ósýnilega bleika einhyrningnum og fljúgandi spagettískrímslinu.

Tenglar breyta

   Þessi heimspekigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.