Strákagöng

veggöng á Norðurlandi eystra

Strákagöng eru jarðgöng sem gerð voru í gegnum fjallið Stráka nyrst á Tröllaskaga, vestan Siglufjarðar. Um þau er ekið til að komast til Siglufjarðar úr vestri og voru þau lengi eini akvegurinn til Siglufjarðar sem fær var allt árið.

Op Strákaganga Siglufjarðarmegin árið 1975.

Hugmyndin um gerð jarðganga til Siglufjarðar kom fyrst fram snemma á 20. öld en þá var enginn akvegur þangað og fóru allir flutningar fram sjóleiðina eða um háa og ógreiða fjallvegi sem vart voru hestfærir. Bílvegur var þó lagður yfir Siglufjarðarskarð 1946 en hann var yfirleitt ekki fær nema fjóra til fimm mánuði á ári og dugði því alls ekki til að leysa samgönguvandræði Siglfirðinga.

Árið 1954 var rætt um á Alþingi að leggja veg fyrir Stráka, meðfram sjónum, eða gera göng úr botni Siglufjarðar til Fljóta, og hefðu þau þá orðið um fimm kílómetrar að lengd og mjög dýr. Síðar kom fram sú hugmynd að leggja veg úr Fljótum út með ströndinni að Strákum og gera mun styttri og ódýrari göng þar í gegn til Siglufjarðar. Varð sú leið ofan á og hófst vegagerðin sumarið 1956. Hún gekk þó fremur hægt, bæði vegna fjárskorts og vegna erfiðra aðstæðna en vegurinn liggur víða utan í bröttum fjallshlíðum.

Gerð Strákaganga hófst 1959 og voru þá grafnir um 30 metrar en kraftur var ekki settur í framkvæmdir fyrr en sumarið 1965. Síðasta haftið var sprengt 17. september 1966 og göngin voru svo opnuð 10. nóvember 1967. Voru þau önnur í röð jarðganga fyrir bílaumferð á Íslandi eftir aðeins hinum 30 metra löngu "göngum" gegnum Arnardalshamar milli Skutulsfjarðar og Álftafjarðar. Göngin eru 793 metrar á lengd. Upphaflega áttu þau að vera tvíbreið en frá því var horfið og eru þau einbreið með útskotum.

Heimildir breyta

  • „„Síðasta sprengingin í nótt?" Vísir, 17. september 1966“.
  • „„Einangrun Siglufjarðar rofin." Á www.siglfirdingur.is. Skoðað 18. júlí 2011“.

Tenglar breyta