Steinunn Refsdóttir

Steinunn Refsdóttir var íslensk skáldkona undir lok 10. aldar. Hún er einkum þekkt fyrir að hafa reynt að boða Þangbrandi, sendimanni Ólafs Tryggvasonar Noregskonungs, heiðni þegar hann reyndi að kristna Íslendinga og er sagt frá því í Njálu.

Steinunn var dóttir Refs mikla, sem Landnáma segir að hafi búið í Brynjudal, og konu hans Finnu Skaftadóttur, sonardóttur landnámsmannsins Þórðar gnúpu. Maður Steinunnar var Gestur Björnsson, Helgasonar Hrólfssonar goða í Hofgörðum, sonar Hrólfs digra Eyvindarsonar landnámsmanns. Sonur þeirra var Hofgarða-Refur eða Skáld-Refur Gestsson.

Þegar trúboðinn Þangbrandur var á ferð um Vesturland kom Steinunn á móti honum, boðaði honum heiðni og talaði lengi yfir honum en hann tók svo til andsvara og „sneri því öllu er hún hafði mælt í villu“. Steinunn spurði hvort hann hefði heyrt að Þór hefði skorað Krist á hólm en Kristur ekki þorað að berjast. Þangbrandur svaraði að hann hefði heyrt að Þór væri ekki nema mold og aska. Steinunn spurði hvort Þangbrandur vissi hver brotið hefði skip hans og fór síðan með tvær vísur þar sem hún sagði Þór hafa valdið skipbrotinu. Eftir það skildu þau og fór Þangbrandur vestur á Barðaströnd með fylgdarliði sínu. Vísur Steinunnar eru nær eina dæmið um kveðskap heiðinnar konu sem varðveist hefur.

Heimildir breyta

  • „Brennu-Njáls saga“. Snerpa. Sótt 16. janúar 2012.
  • „Landnámabók“. Snerpa. Sótt 16. janúar 2012.

Ytri tenglar breyta