Spatt (einnig nefnd hækilskemmd) er sjúkdómur í hestum sem einkennist af langvarandi bólgu, brjóskeyðingu og síðar kölkun í hækillið; stafar m.a. af mari á liðbrjóski, t.d. vegna ofreynslu eða af höggi á liðinn. Skiptar skoðanir eru þó um spattið. Talað er um að hestar séu spatthaltir (jafnvel spattaðir), eða að spatthelti þjái hest. Spatthnútur er beinhnútur sem myndast á hæklinum við spatt.

Uppruni og einkenni breyta

Spatt er slitgigt í flötu liðum hækilsins og einkennist af brjóskeyðingu og kölkun liða. Fyrstu sjúkdómseinkenni eru brjóskeyðing í smáliðunum þremur fyrir neðan hækillið. Venjulega eru breytingarnar í miðliðnum en stundum í þeim neðsta eða báðum neðri liðunum, sjaldan í efsta liðnum. Þessi smáliðir eru ekki hreyfiliðir en virka sem demparar. Hreyfing hækilsins verður milli völubeins og langleggs. Brjóskið eyðist smám saman upp og þegar svo er komið að bein liggur við bein byrjar liðurinn að kalka saman. Sýnt hefur verið fram á að spatt er arfgengt en tengist ekki notkun á hestum til reiðar enda byrjar brjóskeyðingin alla jafa fyrir tamningu. [1]

Sumir hestar heltast við spatt, aðrir ekki, jafnvel greinileg merki slitgigtar hafi komið fram á röntgenmyndum. Hægt er að framkalla svokallað beygjupróf til að finna út hvort hestur sé spattaður eða ei. Liðurinn er þá krepptur í 1 til 2 mínútur og hesturinn næst látinn hlaupa. Helti í spöttuðum hestum er mest þegar hann leggur af stað en lagast svo þegar líður á þjálfunina - hesturinn liðkast til. Sé spattið á háu stigi, þ.e. að liðirnir séu mikið skemmdir og brjóskið mikið eytt, þá versnar heltin með brúkun.

Spatt á Íslandi breyta

Spatt er mjög algengur sjúkdómur í íslenskum hestum. Merki um spatt hefur fundist í beinum hesta í kumlum frá landnámsöld. Tekist hefur að rækta spatt úr mörgum hestakynjum, en íslenskir hestaræktendur eiga langt í land.[heimild vantar] Á Ísland er ekki gefið upp hvaða stóðhestar hafa komið illa út úr spattrannsóknum, sem er mjög umdeilt. Allir 5 vetra stóðhestar sem koma til kynbótadóms skulu hafa verið röntgenmyndaðir til að sjá hvort skuggi (spatt á frumstigi) hafi myndast í hækilliðum.[2]

Neðanmálsgreinar breyta

  1. Sigríður Björnsdóttir. „Spatt í íslenskum hrossum; áhættuþættir, sjúkdómsferill og horfur“. Freyr. 99 (10) (2003): 57-62.
  2. „Hrossarækt - Kynbótasýningar“. Sótt 29. apríl 2007.

Nú árið 2011 eru ný lög um upplýsingaskyldu vegna kynbótahrossa á Íslandi og eru öll hross sem greinst hafa með spatt merkt með (S) í skýrslum sínum.

Heimild breyta

  • Helgi Sigurðsson (1989). Hestaheilsa. Eiðfaxi.