South Central-býlið

South Central-býlið eða South Central-matjurtagarðarnir voru matjurtagarðar í þéttbýli við East 41st Street og South Alameda Street í atvinnuhverfi í borgarhlutanum Suður-Los Angeles (áður South Central) í Los Angeles í Kaliforníu. Svæðið var 5,6 hektarar að stærð og talið einn stærsti matjurtagarður í þéttbýli í öllum Bandaríkjunum.

Einn bændanna á South Central-býlinu.

Lóðin var tekin eignarnámi af borginni árið 1986 í þeim tilgangi að reisa þar sorpbrennsluvirkjun en hætt var við verkefnið vegna andstöðu íbúa borgarhlutans sem börðust fyrir fleiri almenningsgörðum í hverfinu. 1994 seldi borgin L.A. Harbor Department svæðið og þeir gáfu L.A. Regional Foodbank, sjálfseignarstofnun sem stóð fyrir dreifingu matvæla, leyfi til að nýta það undir matjurtagarða. Um 350 fjölskyldur nýttu garðana og ræktuðu þar nytjajurtir.

Árið 2001 hóf Ralph Horowitz, einn eigenda Alameda-Barbara-fjárfestingarfélagsins, sem hafði verið stærsti eigandi lóðarinnar fyrir eignarnámið, málsókn á hendur borginni fyrir samningsrof þar sem forsendur eignarnámsins höfðu brostið. Tveimur árum síðar var gerð dómsátt milli aðila þannig að Horowitz keypti landið fyrir lítið eitt hærri upphæð en borgin hafði greitt í bætur á sínum tíma. Skömmu síðar hætti L.A. Regional Foodbank verkefninu, en bændurnir sem staðið höfðu fyrir ræktuninni mynduðu þá með sér samtök og mótmæltu sölunni. Þeir hófu síðan að sækja málið fyrir dómstólum þegar Horowitz sendi þeim lokunartilkynningu árið 2004.

Í kjölfarið fylgdu mótmæli sem vöktu mikla athygli. Bændurnir töpuðu málinu fyrir dómstólum sem dæmdu eignarhald Horowitz löglegt. Sumarið 2006 voru mótmælendur reknir burt af lóðinni og öryggisvörður settur um hana um leið og vinnuvélar hófust handa við að ryðja svæðið.