Soldánsdæmið Mataram

Soldánsdæmið Mataram var síðasta sjálfstæða konungsríkið á Jövu áður en Hollendingar lögðu eyjuna undir sig. Höfuðborg ríkisins var í Kota Gede þar sem nú er Yogyakarta nálægt þeim stað þar sem Konungdæmið Mataram reis á 8. öld.

Kort sem sýnir Mataram þegar það var sem stærst undir stjórn Agung soldáns 1613-1645

Fyrsti soldáninn var Sutawijaya sem ríkti frá 1584. Upphaflega var Kota Gede lén frá Jaka Tingkir, fyrsta konungi hins skammlífa konungdæmis Pajang. Sutawijaya lagði síðar Pajang undir sig. Hann hélt uppi hefðbundnum trúarbrögðum Jövubúa en gerði um leið Íslam að ríkistrú. Mesti soldán Mataram var barnabarn Sutawijaya, Agung mikli, sem lagði undir sig stærstan hluta eyjarinnar, þar á meðal helsta andstæðing Mataram, Surabaya. Í vestri var Soldánsdæmið Banten þar sem evrópskir kaupmenn höfðu lengi verslað og þar reistu Hollendingar borgina Batavíu. Árið 1628 leiddi Agung umsátrið um Batavíu sem mistókst og skaddaði orðstír hans. Síðari hluti ríkisára hans einkenndist því af uppreisnum. Uppreisnirnar leiddu til þess að soldánarnir leituðu hjálpar frá Hollenska Austur-Indíafélaginu og veittu þeim verslunarleyfi í staðinn. Áhrif Hollendinga urðu mjög mikil í kjölfarið en soldánarnir leituðu leiða til að auka sjálfstæði sitt. Þegar Jövustríðið (1741-1743) braust út milli Hollendinga og kínverskra verkamanna í Batavíu gerðu undirmenn soldánsins bandalag við uppreisnarmenn en Hollendingar náðu brátt stjórn á ástandinu aftur. Í kjölfar stríðsins flutti soldáninn Pakubuwana 2. soldánshöllina til Surakarta en frændur hans voru enn í uppreisn. Bróðir soldánsins, Mangkubumi, vann sigur á prinsinum Raden Mas Said árið 1746 en soldáninn sveik loforð um verðlaun handa þeim sem tækist að bæla uppreisnina niður. Mangkubumi gerði þá uppreisn frá Yogyakarta. Afleiðing þessa varð sú að ríkinu var formlega skipt í tvennt: Soldánsdæmið Yogyakarta og Sunandæmið Surakarta árið 1755 með samningi milli Hollenska Austur-Indíafélagsins og Mangkubuni.