Slow Food (eða hægfæði [1] (stundum nefnd hægfæðishreyfingin) eru alþjóðleg samtök áhugafólks um mat og umhverfisvernd sem stofnuð voru á Ítalíu árið 1986. Samtökin voru stofnuð til höfuðs skyndibitamenningunni og til verndar staðbundnum mat og matreiðsluvenjum, bragðgæðum og þeim dýrum og plöntum sem liggja þessu til grundvallar. Áherslan hefur einnig beinst að því að koma á samskiptum á milli allra sem vilja vinna að heilbrigðri matvælaframleiðslu og efla meðal annars tengsl neytenda á Vesturlöndum við smáframleiðendur í þriðja heiminum gegnum tengslanetið Terra Madre. Í samtökunum eru nú meira en 100.000 meðlimir í 132 löndum.

Snigillinn, auðkenni samtakanna, á vegg veitingastaðar á Santorini á Grikklandi.

Samtökin vinna að markmiðum sínum meðal annars með því að uppfræða almenning um mat, matarvenjur og matvælaframleiðslu, berjast gegn notkun skordýraeiturs, vinna að fjölbreytni í ræktun dýra og plantna og styðja við smáframleiðendur sem nota hefðbundnar aðferðir og lífræna ræktun. Samtökin reka einnig fræbanka.

Aðalskrifstofa samtakanna eru í bænum Bra, sem er nálægt Tórínó á Norður-Ítalíu. Annaðhvert ár standa samtökin að geysistórri alþjóðlegri matvælasýningu í Tórínó, Salone del Gusto[1] Geymt 10 apríl 2009 í Wayback Machine, þar sem áhersla er á að kynna framleiðslu smábænda og smáframleiðenda frá yfir 100 löndum en verksmiðjubúskap og fjöldaframleiðslu er úthýst. Jafnframt er umfangsmikil fræðslustarfsemi í tengslum við sýninguna og þar hefur meðal annars íslenskt skyr verið kynnt.

Ísland breyta

Slow Food hefur verið starfandi á Íslandi frá 2001, þegar deildin Slow Food Reykjavík Convivium var stofnað. Núverandi formaður (2009) er Dominique Plédel Jónsson. Samtökin hafa tilnefnt íslensku geitina á „bragðörk“ Slow Food sem dýrategund í útrýmingarhættu sem ber að vernda vegna þeirra afurða sem hún getur gefið af sér.

Rúnar Marvinsson er einn upphafsmaður að Slow Food eldamennsku á Íslandi. Hann eldaði í slow food stíl á gömlu Hótel Búðum og svo síðar á veitingastað sínum Við Tjörnina. Nokkrir íslenskir veitingastaðir hafa starfað í anda Slow Food, þar á meðal Lónkot í Skagafirði, Halastjarna í Öxnadal og Friðrik V á Akureyri. Friðrik V var þó eini íslenski veitingastaðurinn sem hafði, meðan hann starfaði, rétt til að kenna sig við Slow Food og nota auðkenni samtakanna, enda var veitingastaðurinn valinn á lista samtakanna yfir 100 áhugaverðustu svæðisbundnu veitingastaði í heimi árið 2006.

Tilvísanir breyta

  1. Hvað er hægfæði?; grein í Morgunblaðinu 2002

Tenglar breyta