Simon Wiesenthal

Austurrískur nasistaveiðari

Simon Wiesenthal (1. janúar 1909 – 20. september 2005) var austurrískur Gyðingur sem lifði af Helförina. Í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar varð Wiesenthal virkur nasistaveiðari sem vann að því að draga fremjendur Helfararinnar til ábyrgðar.

Simon Wiesenthal
Fæddur1. janúar 1909
Dáinn20. september 2005 (96 ára)
ÞjóðerniAusturrískur
MakiCyla Müller
Börn1

Æviágrip breyta

Simon Wiesenthal fæddist í kringum áramótin 1908-09 í bænum Buchach, sem þá tilheyrði Austurríki-Ungverjalandi. Ólíkt flestum öðrum byggðum í landinu voru Gyðingar meirihlutahópur þar.[1] Hann lauk námi í byggingarlist í Prag árið 1932 og opnaði síðan teiknistofu í Lemberg, sem þá var hluti af Póllandi. Hann varð að hætta rekstri stofunnar eftir að Sovétríkin hertóku þennan hluta Póllands árið 1939 samkvæmt samkomulagi þeirra við Þjóðverja. Stjúpfaðir og hálfbróðir Wiesenthals voru í kjölfarið drepnir í „hreinsunum“ sovéska hernámsliðsins.[2]

Í kjölfar Barbarossa-aðgerðarinnar tóku þýskir nasistar yfir þennan hluta Póllands. Wiesenthal var handtekinn og dvaldi að mestu í þrælkunarbúðum nasista frá 1941 til 1945. Honum tókst að flýja úr fangavistinni og var á flótta í nokkra mánuði en náðist síðan aftur. Alls 89 ættingjar Wiesenthals og konu hans voru drepin í Helförinni á styrjaldarárunum.[2]

Wiesenthal var staðsettur í Mauthausen-fangabúðunum í Austurríki þegar her Bandaríkjamanna frelsaði hann þann 5. maí 1945. Hann var þá illa haldinn vegna misþyrminga og sjúkdóma en strax og hann náði heilsu hóf hann að afla sönnungargagna um grimmdarverk nasista fyrir stríðsglæpadeild bandaríska hersins. Sönnunargögn Wiesenthals voru lögð fram í stríðsglæparéttarhöldum á hernámssvæðum Bandaríkjamanna eftir lok styrjaldarinnar.[2]

Wiesenthal lauk störfum hjá bandaríska hernum árið 1947 en stofnaði í kjölfarið Hið sögulega heimildasafn Gyðinga í Linz til þess að afla frekari gagna til notkunar við komandi réttarhöld gegn stríðsglæpamönnum. Áhugi bandamanna á því að rétta yfir nasistum minnkaði hins vegar þegar kalda stríðið hófst og því afhenti Wiesenthal skjalasafni í Ísrael flest skjöl heimildasafns síns.[2]

Wiesenthal hélt eftir gögnum sem tengdust Adolf Eichmann, einum helsta skipuleggjanda „lokalausnarinnar við Gyðingavandanum“.[2] Wiesenthal átti þátt í því að finna og handsama Adolf Eichmann þar sem hann faldi sig í Argentínu og afla sönnunargagna sem leiddu til þess að réttað var yfir Eichmann í Ísrael árið 1961 og hann tekinn af lífi.[3][4]

Eitt af áhersluefnum Wiesenthal var að handsama Fritz Stangl, sem hafði verið yfirmaður útrýmingarbúða nasista í Treblinka og Sobibor í Póllandi. Wiesenthal tókst eftir þriggja ára leynilega vinnu að hafa uppi á Stangl í Brasilíu og fá hann framseldan.[2]

Wiesenthal einbeitti sér jafnframt að því að finna Gestapo-foringjann sem hafði handtekið Önnu Frank og fjölskyldu hennar. Wiesenthal komst svo að orði að Dagbók Önnu Frank hefði haft meiri áhrif á mannkynið en Nürnberg-réttarhöldin. Honum var því mjög í mun að sporna við áróðri nýnasista, sem héldu því fram að dagbókin væri fölsuð og að Anna Frank hefði jafnvel aldrei verið til, með því að draga sögulegt vitni til ábyrgðar.[5] Wiesenthal varði fimm árum í að leita að manninum sem handtók Frank-fjölskylduna og hafði loks upp á honum árið 1963 þar sem hann vann hjá lögreglunni í Austurríki.[2]

Wiesenthal tók þátt í stofnun Simon Wiesenthal-miðstöðvarinnar í Los Angeles árið 1977.[6] Árið 1986 var reiknað með því að um 1.100 manns hefðu verið dæmdir fyrir stríðsglæpi fyrir tilstuðlan Wiesenthal.[2]

Eftir því sem lengra leið frá lokum styrjaldarinnar fór að bera nokkuð á mótlæti gegn starfi Wiesenthal þar sem margir eftirlifandi stríðsglæpamenn nasista voru komnir til ára sinna og glæpir þeirra sums staðar taldir fyrndir. Wiesenthal lagði engu að síður áherslu á að ef ekki væri refsað fyrir glæpi nasista yrðu það skilaboð til framtíðarinnar um að hægt væri að komast upp með sams konar glæpi.[5] Hann barðist gegn því að stríðsglæpamönnum úr röðum nasista yrði gefin sakaruppgjöf í Vestur-Þýskalandi.[7]

Á áttunda áratugnum átti Wiesenthal í deilum við Bruno Kreisky, kanslara Austurríkis, vegna fyrirhugaðs samstarfs Kreisky við Friedrich Peter, leiðtoga Frelsisflokksins, sem Wiesenthal benti á að hefði átt feril innan SS-sveitanna á stríðsárunum. Wiesenthal sakaði Peter um að hafa tekið þátt í morðum á óbreyttum borgurum á bak við víglínurnar í stríðinu en Kreisky (sem var sjálfur einnig Gyðingur) brást ókvæða við og sakaði Wiesenthal um að vera „spæjara“ sem beitti „mafíuaðferðum“. Ummæli Kreisky leiddu til þess að Wiesenthal fór í mál gegn honum fyrir meiðyrði.[8]

Wiesenthal hlaut riddaranafnbót í Bretlandi fyrir störf sín árið 2004.[3] Hann lést þann 20. september næsta ár, 96 ára að aldri.[4]

Tilvísanir breyta

  1. „Hver er Simon Wiesenthal?“. Morgunblaðið. bls. 54-55.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 2,4 2,5 2,6 2,7 Sveinn Ásgeirsson (22. mars 1986). „Simon Wiesenthal“. Lesbók Morgunblaðsins. bls. 10-11.
  3. 3,0 3,1 „Simon Wiesenthal sleginn til riddara“. mbl.is. 20. febrúar 2004. Sótt 28. maí 2023.
  4. 4,0 4,1 „Nasistaveiðarinn mikli fallinn frá“. Vísir. 20. september 2005. Sótt 28. maí 2023.
  5. 5,0 5,1 Egill Helgason (15. apríl 1987). „Ég leita uppi glæpamenn, ekki lygara“. Helgarpósturinn. bls. 18-20.
  6. „„Hann var samviska heimsins". Morgunblaðið. 21. september 2005. bls. 14.
  7. Magnús Guðmundsson (18. apríl 1979). „„Okkur dreymir um að ná í Mengele". Vísir. bls. 9.
  8. „Nasistaveiðarinn og kanslarinn“. Vísir. 25. nóvember 1975. bls. 8.