Silkiháfur (fræðiheiti: Carcharhinus falciformis) er stór háffiskur sem dregur nafn sitt af silkimjúkri áferð skrápsins. Hann heldur sig í heitum sjó víða um heiminn og finnst oftast á 50-500 metra dýpi en hefur þó fundist á allt að 4000 metra dýpi.

Silkiháfur
Silkiháfur frá Kúbu
Silkiháfur frá Kúbu
Ástand stofns
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Flokkur: Brjóskfiskar (Chondrichthyes)
Undirflokkur: Fasttálknar (Elasmobranchii)
Yfirættbálkur: Háffiskar (Selachimorpha)
Ættbálkur: Botnháfar (Carcharhiniformes)
Ætt: Mannætuháfar (Carcharhinidae)
Ættkvísl: Carcharhinus
Tegund:
C. falciformis

Tvínefni
Carcharhinus falciformis

(J. P. Müller & Henle, 1839)

Útbreiðsla silkiháfs
Útbreiðsla silkiháfs

Silkiháfurinn er venjulega um 2,5 metrar að lengd fullvaxinn. Hægt er að aðgreina hann frá öðrum hákörlum út frá því hve einkennandi bakugga hann hefur. Hann er ekki verðmætur á mörkuðum, þar sem vinnan við að verka hann er mikil miðað við afurðir sem hann gefur af sér.

Fæða og ungviði breyta

Fæða á svæðunum sem silkiháfurinn heldur sig á (djúpsjór) er oft af skornum skammti sem gerir það að verkum að hann er snöggur, forvitinn og snjall ránfiskur. Fæðan samanstendur aðallega af sardínum, makríl, túnfiskum, kröbbum, smokkfiskum, og einstaka hræ af hvölum og öðrum sjávarlífverum. Þegar sagt er að silkiháfurinn sé snjall ránfiskur þá er átt við sem dæmi að hann á það til að smala fiskum í torfur. Hann ræðst svo til atlögu á torfuna með opinn munninn til að ná sem mestum fiski í einu, og skilur ekki mikið eftir.

Silkiháfurinn gengur með afkvæmi sín og eggin klekjast út innan líkama móðurinnar (innri frjóvgun). Ein hrygna fæðir venjulega 6-14 unga á hverju ári eða annað hvert ár, eftir staðsetningu. Þegar ungarnir fæðast eru þeir 75-80 cm að lengd. Þeir halda sig í skjóli frá stærri fiskum sem gæti stafað ógn af, við rif á ytra landgrunni, þar til þeir hafa náð nægilegri stærð til að synda út í úthafið.

Silkiháfar verða kynþroska við 6-10 ára aldur sem skapar því mikla hættu á ofveiði og þar með útrýmingu á stofninum. Vöxtur silkiháfa er hefðbundinn miðað við aðrar tegundir brjóskfiska og nokkuð jafn milli kynja, þó það sé vissulega munur á milli einstaklinga.

Einkenni breyta

 
Ógnandi atferli hákarla.

Silkiháfur getur verið árásargjarn við kafara og ber að varast að nálgast hann. Þó árásir séu sjaldgæfar þá er betra að hafa varann á. Þegar silkiháfinum finnst sér vera ógnað þá kreppir hann upp á bakið, lyftir höfðinu og setur halann niður, myndar „S“ með líkamanum og reynir að vera alltaf á hlið við ógnina.

 
Teikning sem sýnir uggana.

Það sem greinir silkiháfinn frá öðrum háfum er að:

  1. Aftari bakugginn er með lausum odd sem er venjulega meira en tvöföld hæð uggans.
  2. Fremri bakugginn, sem nefnist óðuggi, er með sveigðan topp.
  3. Óðugginn er staðsettur fyrir aftan eyruggana.

Útbreiðsla breyta

Silkiháfurinn finnst víða um heiminn í sjó sem eru heitari en 23° C. Eins og sjá má á útbreiðslukortinu að ofan þá heldur hann sig helst í sjónum hjá Suður-Ameríku, en finnst líka í Ástralíu og alla leið að Asíu. Það má segja að þetta sé flökkustofn þar sem silkiháfurinn er alltaf á hreyfingu til þess að fá súrefni, leita sér að fæðu og ferðast úr djúpsjó yfir á landgrunnið til þess að fæða ungviði. Algengt er að finna silkiháfa við landgrunnið og yfir djúpsjávarrifjum þar sem mikil fæða finnst. Þeir eiga það til að ferðast saman ef þeir eru af sömu stærð sem bendir til þess að stærðaraðgreining sé til staðar innan tegundarinnar.

Rannsókn sem gerð var á staðsetningu silkiháfa í Austur-Kyrrahafi og norður af Mexíkóflóa sýndi að þeir eyða 99% af tímanum sínum þegar þeir eru að ferðast í rólegheitum frá degi til dags á innan við 50 m dýpi og 80-85% í sjó sem er 26-30 °C. Rakningargögn hafa sýnt að þeir ferðast allt að 60 km á dag og í sumum tilfellum allt að 1.339 km. Þeir silkiháfar sem voru stærri hreyfðu sig meira en þeir litlu.

Veiðar breyta

Silkiháfur er aðallega veiddur fyrir uggana. Þeir eru verðmætari en aðrar afurðir eins og kjöt, skinn og kjálkar, þó þessir hlutir séu vissulega nýttir í einstökum tilfellum þar sem eftirspurn eftir sjávarfangi er mikil. Skinnið hefur verið notað við framleiðslu á förðunarvörum

Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökin skráðu silkiháfa í hættu árið 2017 þar sem þeir eru veiddir í miklu magni utan skráningar víða um heiminn. Þegar hann kemur um borð í skip sem stunda túnfisksveiðar, sem meðafli, þá eru uggarnir sem eru verðmætastir oft skornir af og afgangnum hent.

Heimildir breyta

  • „Carcharhinus falciformis“. Florida Museum of Natural History, University of Florida. 2024.
  • Tricas, Timothy C., Deacon, Kevin, Last, Peter, McCosker, John E., Walker, Terence I., Taylor, Leighton. (1997). Sharks and rays. Harper Collins Publishers.