Saharaverslunin var mikilvæg verslunarleið milli Miðjarðarhafslandanna og Vestur-Afríku frá 8. öld fram á þá 16. Saharaeyðimörkin er illfært flæmi sem skilur hagkerfi Miðjarðarhafssvæðisins frá hagkerfi Vestur-Afríku, svo að rétt er að spyrja hvernig slík verslun hefur getað þrifist. Fernand Braudel benti á (í bókinni The Perspective of the World) að slík svæði (eins og t.d. Atlantshafið) eru ferðarinnar virði aðeins í undantekningartilvikum, eða þegar hagnaðurinn er meiri en tapið. En ólíkt Atlantshafinu var Saharaeyðimörkin alla tíð vettvangur viðskipta milli fólks í smærra samhengi.

Djenné var mikilvægur verslunarstaður. Borgin var stofnuð um 800 og er núna á heimsminjaskrá UNESCO

Verslunin byggðist á úlfaldalestum þar sem notaðir voru drómedarar. Dýrin voru fituð í nokkra mánuði á Magrebsvæðinu eða Sahelsvæðinu áður en lestin var mynduð. Samkvæmt landkönnuðinum Ibn Battuta, sem ferðaðist með úlfaldalest á 14. öld var meðalstærð slíkra lesta um þúsund dýr, en sumar náðu upp í 12.000 dýr. Fyrir úlfaldalestunum fóru vel launaðir leiðsögumenn af þjóð Berba sem þekktu eyðimörkina vel og gátu tryggt öryggi lestarinnar fyrir öðrum hirðingjum. Afkoma úlfaldalestanna var ótrygg og krafðist vandlegs skipulags. Hlauparar voru sendir á undan lestinni til vinjanna á leiðinni til að sækja vatn fyrir lestina meðan hún var enn nokkrar dagleiðir frá, þar sem ekki var hægt að flytja vatn sem dygði alla leiðina.

Elsta Saharaverslunin breyta

 
Úlfaldalest í Alsír

Styttri verslunarleiðir kringum Nílardal hafa verið í notkun frá fornu fari, en ferðalög yfir Sahara voru erfið áður en úlfaldar voru teknir í notkun sem burðardýr. Hlutir sem hafa fundist langt frá þeim stöðum þar sem þeir voru framleiddir gefa vísbendingu um verslun, einkum í vesturhluta eyðimerkurinnar þar sem hún er þrengst. Einnig eru merki um slík tengsl í bókmenntum frá klassíska tímanum. Hugsanlegt er að borgin Aoudaghost í Máritaníu hafi orðið til í tengslum við þessa fyrstu verslun á 5. öld.

Hellamyndir sunnan Sahara af hestum sem draga stríðsvagna hafa fengið menn til að álykta að hestar kunni að hafa verið notaðir, en engar svo gamlar beinagrindur af hestum hafa fundist. Stríðsvagnar eru auk þess ólíkleg flutningstæki vegna þess hversu litlir þeir voru.

Elstu merki um tamda úlfalda á svæðinu eru frá því á 3. öld. Þeir voru notaðir af Berbum og gáfu möguleika á reglulegum ferðum yfir Saharaeyðimörkina þvera, en reglulegar verslunarleiðir fóru ekki að þróast fyrr en með útbreiðslu Íslam í Norður-Afríku á 7. og 8. öld. Tvær aðalleiðir urðu til; Önnur lá um vesturhluta eyðimerkurinnar frá því svæði sem nú er MarokkóNígerfljóti. Hin leiðin lá frá svæði sem nú er í Túnis að svæðinu kringum Tjadvatn. Þessar leiðir voru tiltölulega stuttar og buðu upp á net lífsnauðsynlegra vatnsbóla sem mörkuðu leiðina ófrávíkjanlega. Lítt austar, í suðurhluta Líbíu var engin leið vegna skorts á vatnsbólum og hættu á sandstormum. Leið sem lá frá Nígerfljóti að Egyptalandi var í notkun fram á 10. öld þegar hún var lögð niður vegna þess hve hættuleg hún var.

Saharaverslunin á miðöldum breyta

Vöxtur Ganaveldisins á því svæði sem nú er í suðurhluta Máritaníu fylgdi vexti Saharaverslunarinnar. Miðjarðarhafssvæðið skorti gull en framleiddi salt, þar sem Vestur-Afríkulöndin áttu nóg af gulli en vantaði salt. Þrælaverslunin var líka mikilvæg þar sem fólk sunnan Sahara var selt sem húsþrælar norður og Vestur-Afríkuríkin keyptu þjálfaða hermenn að norðan. Margar verslunarleiðir urðu til, en þær mikilvægustu enduðu við Sijilmasa þar sem nú er Marokkó og Ifriqua þar sem nú er Túnis. Í þessum (og öðrum) borgum Norður-Afríku komust kaupmenn Berba í kynni við Íslam og snerust til þeirrar trúar. Þegar á 8. öld ferðuðust múslimar til Gana þar sem margir tóku Íslam og líklegt þykir að verslun við Ganaveldið hafi notið þess. Kringum 1050 hertók Ganaveldið Aoudaghost, en nýjar gullnámur við borgina Bure drógu úr verslun við þá borg en juku verslun við Sósóa sem síðar stofnuðu Malíveldið.

Líkt og Gana, var Malí múslímskt konungsveldi, og innan þess hélt gull-salt verslunin áfram. Önnur, minna mikilvæg verslunarvara voru þrælar, kólahnetur úr suðri, og þrælaperlur og pontur (kuðungar sem voru notaðir sem gjaldmiðill) úr norðri. Það var á tímum Malíveldisins sem stóru borgirnar við Nígerfljót, svo sem Gao og Djenné, blómstruðu og Timbúktú varð þekkt um alla Evrópu fyrir auðæfi sín. Í Vestur-Afríku urðu til mikilvægir verslunarstaðir á svæðinu mitt á milli skógarins og sléttunnar; Sem dæmi má nefna Begho og Bono Manso (þar sem nú heitir Gana) og Bondoukou (þar sem nú heitir Fílabeinsströndin). Borgir á vestari leiðunum voru áfram mikilvægar, svo sem Oudane, Oualata og Chinguetti þar sem nú heitir Máritanía, meðan Túaregabæirnir Assodé og Agades blómstruðu við eystri leiðina þar sem nú er Níger.

Eystri verslunarleiðin leiddi til þróunar hins langlífa Kanem-Bornuveldis á svæðinu kringum Tsjadvatn. Þessi verslunarleið var ekki eins ábatasöm og varð einungis mikilvæg þegar umrót var í vestri, eins og meðan á innrásum Almóhada stóð.

Hnignun Saharaverslunarinnar breyta

 
Saharaeyðimörkin

Siglingar Portúgala eftir vesturströnd Afríku opnuðu nýjar leiðir til verslunar milli Evrópu og Vestur-Afríku. Snemma á 16. öld höfðu Evrópubúar komið sér upp stöðvum á ströndinni og viðskipti við hina ríkari Evrópubúa urðu brátt mikilvægari en nokkuð annað fyrir íbúa Vestur-Afríku. Efnahagslegt og pólitískt mikilvægi Norður-Afríku minnkaði að sama skapi, meðan verslunarleiðin yfir Sahara var áfram löng og áhættusöm. En mesta áfallið sem verslunin varð fyrir var Marokkóstríðið 1591-2. Marokkó hélt með her yfir eyðimörkina og réðist á Timbúktú, Gao og aðra verslunarstaði, eyðilagði byggingar og rak velmegandi borgara í útlegð. Þessi truflun leiddi til snögglega minnkandi mikilvægis þessara borga og andúðar sem dró verulega úr viðskiptum.

Saharaverslunin hélt samt áfram í mjög smækkaðri mynd, en aðrar verslunarleiðir til strandar Vestur-Afríku urðu sífellt auðfarnari, sérstaklega eftir innrás Frakka á sahelsvæðið við lok 19. aldar og byggingu járnbrauta inn í landið sem fylgdi í kjölfarið. Lagt var á ráðin um járnbraut frá Dakar til Algeirsborgar um Níger, en hún var aldrei lögð. Þegar þjóðirnar á svæðinu fengu sjálfstæði eftir 1960 var norður-suðurleiðin skorin sundur af landamærum ríkja. Stjórnir ríkjanna voru andsnúnar þjóðernisvakningu túarega og gerðu þannig litla tilraun til að viðhalda eða endurvekja Saharaverslunina. Uppreisn túarega við lok 20. aldar og borgarastyrjöldin í Alsír ollu enn fremur truflunum á leiðunum og lokun margra vega.

Í dag eru nokkrir malbikaðir vegir sem liggja um eyðimörkina og fáir flutningabílar sjá um Saharaverslunina sem felst aðallega í viðskiptum með salt og eldsneyti. Hefðbundnar slóðir eru nú að mestu lausar við úlfalda, en styttri leiðir frá Agades til Bilma og Timbúktú til Taoudenni eru enn notaðar, sjaldan en reglulega. Einstaka túaregar nota enn hefðbundnu verslunarleiðirnar og ferðast með úlfalda allt að 1.500 kílómetra leið og sex mánuði ársins með salt úr eyðimörkinni sem þeir selja við jaðarinn.

Heimildir breyta

Fyrirmynd greinarinnar var „Trans-Saharan trade“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 14. júlí 2005.