Ríkharður 2. Englandskonungur

Ríkharður 2. (6. janúar 1367 – um 14. febrúar 1400) var konungur Englands, sá síðasti af aðalgrein Plantagenet-ættar, frá því að afi hans, Játvarður 3., dó árið 1377 og þar til hann var settur af 1399.

Ríkharður 2. Mynd frá síðasta áratug 14. aldar.

Heimildum ber saman um að Ríkharður hafi þótt óvenju fríður maður, hávaxinn, íþróttamannslegur, vel gefinn og vel menntaður. Hann var enginn stríðsmaður eins og faðir hans og afi höfðu verið og kaus friðarsaminga við Frakka fremur en stríð. Fyrri tíma fræðimenn töldu sumir að hann hefði verið sjúkur á geði en heimildir þykja þó frekar bera merki um að hann hafi þjáðst af ákveðnum persónuleikabrestum, einkum síðustu árin.

Uppvöxtur breyta

Ríkharður var sonur Játvarðar svarta prins, elsta sonar Játvarðar 3., og konu hans Jóhönnu af Kent. Svarti prinsinn dó 1376 og Ríkharður varð þá ríkisarfi þar sem eldri bróðir hans hafði dáið 1372. Hann var tíu ára gamall þegar hann varð konungur. Fyrstu árin voru völdin í höndum ríkisráðs en föðurbróðir konungs, John af Gaunt, hertogi af Lancaster, var þó mjög valdamikill.

 
Ríkharður 2. fylgist með drápi bændaleiðtogans.

Aukin skattheimta leiddi til mikillar óánægju landsmanna og bændur gerðu uppreisn árið 1381 og kröfðust þess að bændaánauð yrði lögð af. Ríkharður, sem var aðeins fjórtán ára, hélt ásamt ráðgjöfum sínum á fund leiðtoga uppreisnarmanna, sem höfðu safnast saman fyrir utan London, og reyndi að semja við þá. Hann samþykkti kröfur þeirra en þeir færðu sig þá upp á skaftið og settu fram fleiri kröfur og fór svo að átök brutust út og borgarstjóri Lundúnaborgar drap foringja bændanna. Konunginum unga tókst að róa múginn og koma í veg fyrir að átök yrðu.

Borgarstjórinn safnaði liði sem umkringdi bændaherinn en konungurinn gaf uppreisnarmönnum grið og leyfði þeim að snúa heim til sín. Konungurinn gekk þó á bak orða sinna og þegar óeirðir brutust út annars staðar fór hann með lið og kæfði þær niður. Hann þótti sýna mikið hugrekki og dirfsku þrátt fyrir ungan aldur. Sumir hafa þó haldið því fram að þetta hafi allt verið sjónarspil, sett á svið af ráðgjöfum konungs til að upphefja hann.

Stuttu síðar, 20. janúar 1382, giftist Ríkharður Önnu af Bæheimi, dóttur Karls 4. keisara. Hjúskapurinn átti að afla Englendingum bandamanna á meginlandi Evrópu. Það var ráðgjafinn Michael de la Pole sem stóð að baki samkomulaginu um hjónabandið en margir aðalsmenn voru mótfallnir því og töldu ávinninginn engan, sem reyndist rétt. Samband þeirra Ríkharðs mun hins vegar hafa verið gott og hann var harmi sleginn þegar hún dó 1394, eftir tólf ára hjónaband. Þau áttu engin börn.

Uppreisn aðalsmanna breyta

Ríkharður tók að hluta við stjórnartaumunum 1383 en var mjög háður nánustu ráðgjöfum sínum, einkum Michael de la Pole, sem hann gerði að kanslara (fjármálaráðherra) sínum og síðar jarli af Suffolk, og Robert de Vere, jarli af Oxford, sem gerður var hertogi af Írlandi. Það var ekki síst stríðið í Frakklandi sem olli deilum. Konungur og ráðgjafar hans vildu ganga til samninga en föðurbræður konungs, John af Gaunt og Thomas hertogi af Gloucester, vildu leggja í hernað til að verja lendur Englendinga í Frakklandi. Næstu ár einkenndust af togstreitu og deilum og samkomulag konungsins og föðurbræðra hans fór síversnandi.

Á meðan jókst stöðugt hættan á að Frakkar gerðu innrás í England. Michael de la Pole vildi fá að leggja á háan skatt til að efla varnir ríkisins en þingið neitaði að samþykkja það og krafðist þess á móti að de la Pole yrði látinn víkja. Konungur neyddist til að láta undan og nefnd var komið á fót sem átti að stýra fjármálum konungs næsta árið. Ríkharður fyrtist mjög við þetta. Hann gerði de Vere að kanslara og fór að reyna að styrkja stöðu sína.

John af Gaunt var kominn til Kastilíu, þar sem hann var að reyna að komast að hásætinu, en Gloucester og fleiri aðalsmannanna kröfðust þess að de la Pole, de Vere og fleiri ráðgjafar konungs yrðu ákærðir fyrir landráð. De Vere reyndi að safna liði en var yfirbugaður 20. desember 1387 og neyddist til að flýja land. De la Pole fór einnig úr landi. Ríkharður átti þá ekki annan kost en að láta undan kröfum aðalsmannanna og nokkrir ráðgjafar hans og vinir voru teknir af lífi. Á næstu mánuðum tókst honum þó að styrkja völd sín að nýju, meðal annars vegna þess að John af Gaunt var nú kominn aftur og gegndi stöðu sáttasemjara í enskum stjórnmálum. Ríkharður var líka orðinn fullmyndugur og tók að fullu við stjórninni 3. maí 1389.

Ríkharður ríkti í friði næstu átta árin en þó var ólga undir niðri. Hann fór að reyna að semja um varanlegan frið við Frakka en á endanum var samið um 28 ára vopnahlé árið 1396. Hluti af samkomulaginu var að Ríkharður, sem orðinn var ekkjumaður, skyldi ganga að eiga Ísabellu, dóttur Karls 6. Frakkakonungs. Ekki leist þó öllum vel á þá ráðstöfun þar sem brúðurin var aðeins sex ára að aldri og ljóst að langt yrði í að hún gæti séð Englandi fyrir ríkiserfingja.

Harðstjórnin breyta

Árið 1397 hófst tímabilið sem kallað hefur verið harðstjórn Ríkharðs 2. Hann lét þá handtaka frænda sinn, jarlinn af Gloucester, og fleiri aðalsmenn sem höfðu staðið gegn honum á árunum 1386-1388, og taka suma þeirra af lífi, en Gloucester lést áður en hann var leiddur fyrir rétt, hugsanlega drepinn í fangelsi að skipan Ríkharðs. John af Gaunt gerði ekkert til að koma í veg fyrir þetta og kann að hafa stutt konung. Hann var þó, ásamt syni sínum, Henry Bolingbroke, helsta ógnunin við Ríkharð, enda var Lancaster-fjölskyldan auðugasta fjölskylda Englands og mjög valdamikil.

 
Handtaka Ríkharðs 2.

Í desember lenti Bolingbroke í deilum við annan aðalsmann, Thomas de Mowbray, hertoga af Norfolk, og þeir ætluðu að heyja einvígi en konungurinn gerði þá þess í stað báða útlæga.

Afsögn og dauði breyta

John af Gaunt dó 3. febrúar 1399 en Ríkharður leyfði syni hans ekki að snúa heim, heldur gerði hann arflausan. Ríkharður hefur líklega ekki talið frænda sinn, sem var í París, neina ógnun og hélt í herleiðangur til Írlands í maí. En Bolingbroke sneri aftur til Englands í júnílok og menn flykktust þegar til hans, enda var Ríkharður orðinn mjög óvinsæll. Hann hélt því fyrst í stað fram að hann væri aðeins að vitja föðurarfs síns og tókst að styrkja stöðu sína svo að þegar Ríkharður sneri aftur frá Írlandi réði Bolingbroke lögum og lofum. Hann reyndi að semja við frænda sinn en gafst upp 19. ágúst og hét því að segja af sér ef hann fengi að halda lífi. Hann var svo hafður í haldi í Lundúnaturni.

Bolingbroke hafði nú einsett sér að verða konungur og hélt því fram að Ríkharður hefði fyrirgert rétti sínum til krúnunnar með harðstjórn sinni og óstjórn. Ríkharður sagði af sér 29. september, sennilega þvingaður til þess, og Hinrik 6. var krýndur 13. október.

Örlög Ríkharðs eftir það eru ekki vel ljós. Hann var fluttur í Pontefract-kastala fyrir áramót. Skömmu síðar kom í ljós að nokkrir stuðningsmenn hans höfðu lagt á ráðin um að myrða Hinrik og koma Ríkharði aftur til valda. Þar með var Hinrik ljóst að hann gat ekki hætt á að leyfa honum að lifa. Talið er að Ríkharður hafi verið sveltur til bana og dáið 14. febrúar 1400 eða þar um bil. Orðrómur um að hann væri enn á lífi fór öðru hverju á kreik næstu árin. Ísabella drottning, hin tíu ára gamla ekkja Ríkharðs, sneri aftur heim til Frakklands nokkru eftir lát hans.


Heimildir breyta


Fyrirrennari:
Játvarður 3.
Konungur Englands
(1377 – 1399)
Eftirmaður:
Hinrik 4.