Paul Felix Lazarsfeld (13. febrúar 190130. ágúst 1976) var austurrískur félagsfræðingur sem varð einn af áhrifamestu félagsfræðingum Bandaríkjanna á 20. öld. Hann stofnaði félagsvísindastofnun Columbia-háskóla, Bureau of Applied Social Research. Hann kom að félagsvísindum úr stærðfræði og var frumkvöðull á sviði fjölmiðlarannsókna og í stærðfræðilegri félagsfræði með megindlegum rannsóknaraðferðum, einkum tölfræðikönnunum, sem snerust um skoðanamyndandi áhrif fjölmiðla.

Paul Lazarsfeld árið 1941.

Fjölmiðlakenningar Lazarsfelds falla í hóp kenninga um veik skammtímaáhrif fjölmiðla. Rannsóknir hans á 5. áratugnum á áhrifum fjölmiðla á kosningahegðun leiddu í ljós að fjölmiðlar höfðu ekki mælanleg áhrif í þá veru að breyta skoðun ákveðinna kjósenda og lítil áhrif á óákveðna kjósendur. Mestu áhrifin fólust í að styrkja ákveðna kjósendur í ákvörðun sinni. Hann er þekktastur fyrir fjölþrepakenningu sína um að áhrif fjölmiðla á skoðanir almennings séu óbein og fari í gegnum skoðanaleiðtoga sem almenningur lítur upp til, til dæmis álitsgjafa, menningarvita, áhrifamikla stjórnmálamenn eða jafnvel fólk sem við erum í persónulegum tengslum við. Slíkir skoðanaleiðtogar virka sem nokkurs konar skoðanaskiljur milli fjölmiðla og almennings.

Hann var forseti Bandarísku félagsfræðisamtakanna árið 1962.

  Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.