Norfolkeyja (norfuk: Norf'k Ailen) er eyja í Kyrrahafi á milli Ástralíu, Nýja-Sjálands og Nýju-Kaledóníu. Hún er 1.412 km austan við Evans Head í Ástralíu og 900 km frá Eyju Howes. Hún myndar sérstakt yfirráðasvæði undir Ástralíu ásamt nágrannaeyjunum Phillips-eyju og Nepeanseyju. Íbúar voru 1.748 talsins samkvæmt manntali 2016 og stærð landsins er um 35 km².

Territory of Norfolk Island
Fáni Norfolkeyju Skjaldarmerki Norfolkeyju
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Inasmuch
Þjóðsöngur:
Come ye Blessed (óopinber)
Staðsetning Norfolkeyju
Höfuðborg Kingston
Opinbert tungumál enska, norfuk
Stjórnarfar Hluti Ástralíu

Stjórnarfulltrúi Eric Hutchinson
Útlenda Ástralíu
 • Heimastjórn 1979 
 • Sveitarstjórn 14. maí 2015 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)

34,6 km²
0%
Mannfjöldi
 • Samtals (2016)
 • Þéttleiki byggðar

1.748
61,9/km²
VÞL (2008) 0.958
Gjaldmiðill ástralskur dalur (AUD)
Tímabelti UTC + 11
Þjóðarlén .nf
Landsnúmer +672

Eyjan var fyrst numin af Pólýnesum en þeir höfðu horfið þaðan áður en Englendingar hófu landnám þar. Breski skipstjórinn James Cook sá eyjuna fyrst og lenti þar árið 1774 og Bretar stofnuðu þar fanganýlendu árið 1788. Rekstur nýlendunnar gekk illa vegna þess hversu afskekkt eyjan er sem gerði alla aðflutninga erfiða. Var fanganýlendan á endanum lögð niður eftir tvær tilraunir árið 1855. Árið 1856 kom hópur flóttafólks frá Pitcairn, afkomendur uppreisnarmanna af Bounty og settist að á eyjunni. Árið 1867 var stofnuð þar melanesísk trúboðsstöð og kirkja var reist 1882. Bretland afhenti Ástralíu yfirráð yfir eyjunni árið 1914. Eyjan hafði eigið löggjafarþing frá 1979 til 2015 þegar heimastjórn var afnumin og eyjan gerð að sveitarfélagi innan Nýju Suður-Wales.

Eyjan er þekkt fyrir Araucaria heterophylla, barrtrjátegund sem einkennir hana og er á fána hennar. Tréð er ein helsta útflutningsafurð eyjarinnar þar sem það er vinsæl skrautplanta í Ástralíu og víðar.

Heiti breyta

Eyjan var óbyggð þegar Evrópubúar komu þangað á 18. öld, en ummerki um eldri byggð Pólýnesa voru greinileg. James Cook, sem tók þar land í annarri ferð sinni til Kyrrahafsins 10. október 1774, nefndi eyjuna Norfolkeyju eftir Mary Howard af Norfolk.[1] Hún hafði áður beðið hann að nefna eyju í höfuðið á sér. Hún lést árið 1773 en Cook vissi það ekki þegar hann nefndi eyjuna.

Efnahagslíf breyta

 
Hlutfall útflutningsafurða 2019.

Stærsti geirinn í atvinnulífi Norfolkeyjar er ferðaþjónusta sem hefur vaxið jafnt og þétt. Innflutningur á ferskum ávöxtum og grænmeti er bannaður, svo flestar matjurtir eru ræktaðar innanlands. Kjöt er bæði framleitt innanlands og influtt. Ein víngerð, Two Chimneys Wines, er á eyjunni.[2]

Ástralska ríkið ræður yfir efnahagslögsögu Norfolkeyju sem nær 200 sjómílur út frá eyjunni og er um 428.000 km2. Margir eyjarskeggjar telja að hluti af tekjunum af hagnýtingu efnahagslögsögunnar ætti að fara í uppbyggingu opinberrar þjónustu og innviða á eyjunni, líkt og Norðursvæðið í Ástralíu hefur fengið hlut af tekjum af námagreftri.[3] Eyjarskeggjar veiða fisk innan efnahagslögsögunnar sem er helsta náttúruauðlind eyjarinnar. Íbúar Norfolkeyju hafa engin bein yfirráð yfir hafsvæðum en eru með samkomulag við ástralska ríkið um veiðar „í afþreyingarskyni“ á litlum hluta lögsögunnar sem íbúar kalla „kassann“. Ýmsar hugmyndir hafa verið uppi um olíu- og gaslindir en þær hafa ekki fundist enn.[4] Ekkert stórt ræktarland eða varanleg tún eru á eyjunni, en um fjórðungur hennar er afréttur. Ekkert land er með áveitu. Gjaldmiðill á eyjunni er ástralíudalur.

Árið 2015 fékk fyrirtæki á Norfolkeyju leyfi til að flytja út kannabis sem læknislyf.[5] Framleiðsla á kannabis til lyfjanotkunar hefur verið nefnd sem leið til að efla efnahagslíf eyjunnar. Ríkisstjórn Ástralíu sneri ákvörðuninni við þegar landstjórinn afturkallaði leyfi til að rækta kannabis.[6]

Íbúar breyta

Íbúar Norfolkeyju voru 1.748 í manntalinu 2016.[7] Þeim hafði fækkað frá 2.601 árið 2001.

Árið 2011 voru íbúar 78% af manntalinu en hin 22% voru gestir. 16% íbúa voru yngri en 14 ára, 54% voru 15 til 64 ára og 24% voru 65 ára og eldri. Tölurnar benda til þess að eyjarskeggjar séu að eldast og að margir íbúar á aldrinum frá 20 til 34 hafi flust frá eyjunni.[8]

Flestir eyjarskeggjar eru af áströlskum eða evrópskum uppruna (aðallega breskum) eða af blönduðum evrópskum og tahítískum uppruna. Margir eru afkomendur uppreisnarmanna á Bounty og tahítískra eiginkvenna þeirra. Um helmingur eyjarskeggja rekur ættir sínar til Pitcairn.[4]

Þessi arfleifð birtist í takmörkuðum fjölda eftirnafna meðal íbúa, sem verður til þess að í símaskránni eru birt auknefni margra notenda, eins og Cane Toad, Dar Bizziebee, Lettuce Leaf, Goof, Paw Paw, Diddles, Rubber Duck, Carrots, og Tarzan.[4][9]

Tilvísanir breyta

  1. Channers On Norfolk Island Info Geymt 22 desember 2015 í Wayback Machine. Channersonnorfolk.com (15 March 2013). Retrieved 16 July 2013.
  2. „Norfolk Island Wine“. Wine-Searcher.com website. Wine-Searcher.com. Afrit af upprunalegu geymt þann 1. mars 2014. Sótt 5. desember 2013.
  3. „Norfolk Island dies while Australian Government thieves and thrives“. Tasmanian Times. Afrit af uppruna á 26. september 2015.
  4. 4,0 4,1 4,2 „Battle for Norfolk Island“. BBC. 18. maí 2007. Afrit af uppruna á 24. nóvember 2006.
  5. „Norfolk Island decision sparks calls to legalise medical cannabis“. ABC News. Afrit af uppruna á 5. janúar 2016. Sótt 27. desember 2015.
  6. „Campaign to legalise medicinal marijuana gains momentum“. The Age – Victoria. Afrit af uppruna á 3. maí 2016.
  7. Australian Bureau of Statistics (27. júní 2017). "Norfolk Island (State Suburb)". 2016 Census QuickStats“. Sótt 22. október 2017.
  8. „Norfolk Island Census of Population and Housing: Census Description, Analysis and Basic Tables“ (PDF). 9. ágúst 2011. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 24. mars 2012. Sótt 3. mars 2012.
  9. „Norfolk Island Phone Book“. Afrit af uppruna á 24. janúar 2010. Sótt 4. júlí 2010.
   Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.