Nautaat (spænska: corrida de toros) er athöfn sérræktaðra mannýgra nauta (bos taurus ibericus) og skrautklæddra nautabana (torero) í hringleikahúsi eða þar til gerðum leikvangi. Nautaat er þjóðaríþrótt Spánverja og hefur verið afar vinsælt á Spáni frá seinni hluta 17. aldar en á líklega uppruna sinn að rekja til Krítar. Nautaat er mest stundað á Spáni en líka í Mexíkó, Kólumbíu, Perú og Ekvador. Sömuleiðis í Suður-Frakklandi, en með dálítið öðrum hætti. Í Portúgal berst nautabaninn (rejoneador) við nautið á hestbaki, en þar er nautið aðeins skutlað með krókörvum en ekki drepið.

Nautabani feykir nautaveifu fyrir framan bola af kyni bos taurus ibericus
Francisco de Goya, "La muerte del picador", 1793

Margir fordæma nautaat, og líta á það sem illa meðferð á skepnum. Aðrir hafa haldið því fram að nautategund sú sem notuð er í atinu myndi deyja út ef nautaöt myndu leggjast af. Spánverjar líta einnig á nautaatið sem hluta af þjóðareðli sínu, og margir eru stoltir af þessum menningararfi. Andstæðan gegn nautaati eykst þó með hverju ári. [1]

Spænskt nautaat breyta

Nautaatið skiptist í þrennt og er hver þáttur afmarkaður með lúðrablæstri. Venjulega eru sex naut í hverju ati sem þrír nautabanar skipta jafnt á milli sín. Í fyrstu er nautið hleypt inn á nautaatssviðið (plaza de toros) og þar fylgist nautabaninn með hreyfingum þess, les í hvernig það athafnar sig og hvernig það leggur undir sig höfuðið þegar það ræðst til atlögu o.s.frv.. Nautabaninn berst síðan við nautið með litríka dulu (capote de brega) að vopni og æsir nautið til árásar með ýmsum aðferðum og hefur til þess aðstoðarmenn (cuadrilla). Aðstoðarmenn nautabanans eru oftast sex: þrír örvasveinar (banderilleros), tveir lensuknapar (picador) sem eru á hestum sem er huldir leður- eða viðarbrynju (peto) og svo einn sverðsveinn (mozo de espada). Örvasveinar er þeir sem hlaupa til og stökkva að nautinu og skutla það með 75 sentímetra löngum pappírsskreyttum krókörvum (banderillas) í herðarkambinn. Hlutverk lensuknapana er að veikja hálsvöðva nautsins með því að stinga þá með lensu. Nautabaninn forðast atlögur nautsins með því að sveifla dulunni til hliðar við sig og sýnir þannig kjark sinn og uppsker fögnuð áhorfenda. Lokahnykkurinn nautaatsins er þegar nautabaninn dregur fram sverðið og rauðu nautaveifuna (muleta) og gengur fram til náðarhöggsins (hora de verdad), stund sannleikans, sem er þegar hann stingur sverðinu niður milli herðablaðana og beint í hjartað. Það þykir mjög gott ef það tekst í fyrstu tilraun.

Nautaat hefur verið bannað í Katalóníu frá 2011. Einnig er það bannað á Kanaríeyjum.

 
Nautaat á Spáni. Rautt: Leyft.

Tilvísanir breyta

Tenglar breyta

  • „Hvernig fer nautaat fram?“. Vísindavefurinn.
  • Spánverjar uppgötva nautaat að nýju; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1965
  • Nautaat á Spáni; grein í Iðunni 1886