Mechthilde af Holtsetalandi

Mechthilde (1220 eða 12251288) eða Matthildur var greifadóttir frá Holtsetalandi, drottning Danmerkur 1250-1252 og síðan ríkisstjórafrú í Svíþjóð.

Sködduð mynd Mechthilde á grafhýsi Birgis jarls og fjölskyldu hans í Varnhem í Svíþjóð.

Mechthilde var dóttir Adólfs 4. greifa af Holtsetalandi og Heiðveigar af Lippe. Hún giftist Abel, syni Valdimars sigursæla Danakonungs, í Slésvík 25. apríl 1237. Abel varð konungur Danmerkur árið 1250, eftir morðið á Eiríki plógpeningi bróður hans, og þau voru krýnd í Hróarskeldu 1. nóvember sama ár. Þau áttu eina dóttur, Soffíu, og þrjá syni, Valdimar hertoga af Slésvík, Eirík hertoga af Slésvík og Abel, sem fæddist eftir lát föður síns.

Abel var myrtur 1252 og Mechthilde var þá gert að yfirgefa Danmörku og ganga í klaustur. Henni tókst að ná Valdimar syni sínum úr höndum erkibiskupsins af Köln, sem hafði haft hann í varðhaldi, og barðist fyrir því að synir hennar erfðu hertogadæmið Slésvík. Hún gerði bandalag við Jakob Erlandsen, erkibiskup í Lundi, og árið 1261 rauf hún klausturheit sín og giftist sænska ríkisstjóranum, Birgi jarli. Þau áttu engin börn saman. Hann dó 1266 og Mechthilde flutti þá til Kílar, þar sem hún dvaldi til æviloka.

Mechthilde var óvinsæl í Danmörku, ekki síst vegna þess að fyrir tilstilli hennar komust bræður hennar, greifarnir af Holstein, yfir víðar lendur á Suður-Jótlandi. Hún var meðal annars kölluð dóttir Djöfulsins og sökuð um að hafa eyðilagt bréf frá páfanum og keisaranum til Valdimars sigursæla tengdaföður síns.

Heimildir breyta