Mary Paley Marshall

Mary Paley Marshall (fædd Paley) (24. október 185019. mars 1944) var breskur hagfræðingur og var ein af fyrstu konunum til að stunda nám við Cambridge háskóla. Hún lauk öllum nauðsynlegum prófum (e. Tripos examination) í siðfræði en þrátt fékk ekki formlega gráðu, sökum þess að hún var kona. Mary Paley Marshall starfaði meðal annars sem kennari í hagfræði við Newnham college og Girton college, kvennaskóla Cambridge háskóla.[1] Hún skrifaði einnig bókina The Economics of Industry ásamt eiginmanni sínum, Alfred Marshall.

Ævi, menntun og starf breyta

Mary Paley Marshall ólst upp í Ufford, Lincolshire. Hún var komin af efnuðu, menntuðu og trúræknu fólki. Faðir hennar, Thomas Paley, var háskólamenntaður og prestur í Ufford sókn, sem þótti mjög eftirsóknarverð. Hún var langafa-barn fræðimannsins og heimspeksingsins, William Paley, eins af mikilvægustu heimspekingum upplýsingaraldarinnar í Englandi. Hún fékk því góða menntun heima fyrir. Árið 1871 varð hún ein af fimm konum sem fékk skólastyrk til að sækja nýstofnaðan kvennaskóla við Cambridge háskóla, Newnham college.

Árið 1875 varð Paley Marshall fyrst kvenna til að starfa sem fyrirlesari í hagfræði við Newnham háskóla.[2] Hún starfaði þar í tæplega ár, eða þar til hún trúlofaðist hagfræðingnum Alfred Marshall, sem hafði verið leiðbeinandi hennar. Á þeim tíma var hann mikil stuðningsmaður menntunar kvenna. Þau fluttu til Bristol og stofnuðu þar hagfræðideildina við University College, Bristol, sem í dag er betur þekktur sem University of Bristol. Þau fluttu til Oxford árið 1883 og síðar aftur til Cambridge, þar sem Paley Marshall starfaði við Newnhavn og Girton háskóla til ársins 1916.[2]

Framlög til hagfræðinnar og seinni ár breyta

Mary Paley Marshall var beðin um að skrifa bók byggða á fyrirlestrum sínum í hagfræði, og í kjölfarið ákvað hún og eiginmaður hennar, Alfred Marshall, að skrifa saman The Economics of Industry sem gefin var út árið 1879. Alfred Marshall var ekki hrifinn af bókinni, og eftir útkomu hennar snéri hann einnig við blaðinu í afstöðu sinni til háskólamenntunar kvenna. Á næstu árum beitti hann sér gegn því að konur fengju að sækja Cambridge, og skrifað um það bæði bæklinga og bréf til háskólayfirvalda. Afrakstur þessa var að háskólinn breytti reglum sínum á þann veg að konur gætu ekki fengið gráður frá Cambridge. Ekki er vitað hvaða hug Mary Paley bar til baráttu eiginmanns síns gegn rétti kvenna til háskólanáms.[2]

Mary Paley var virk í fræðalífi kvenna við Cambridge háskóla, og umgekkst eiginkonur annarra prófessora við skólann, sem allar áttu það sameiginlegt að trúa því að konur hefðu mikið að leggja, ekki aðeins til samfélagsins heldur æðri menntunar. Barátta fyrir kosningarétti kvenna og rétti til menntunar voru þeim hugleikin. Auk kennslu við Newnham og Girton aðstoðai Mary Paley eiginmanni sinn við skrif og rannsóknir, meðal annars við höfuðrit Marshall, Principles of Economics, sem út kom 1890. John Maynard Keynes lýsti Mary Paley sem einum af mikilvægustu hagfræðingum síns tíma, því án hennar framlags hefðu verk Alfred Marshall aldrei litið dagsins ljós.[3][4] Ekki er hins vegar vitað með nokkurri vissu hve mikið, ef nokkuð, framlag hennar var til ritsins.[5]

Framlög hennar til hagfræðinnar fólust ekki síður í hlutverki hennar við að byggja upp Marshall Library of Economics við Cambridge. Bókasafnið, sem átti eftir að verða stærsta hagfræðibókasafn heims, varð til árið 1885 þegar Alfred Marshall og Henry Sidgwick sameinuðu bókasöfn sín. Eftir að Alfred Marshall lést árið 1924 var Mary Paley skipuð yfirbókavörður bókasafnsins. Hún sinnti því starfi næstu tuttugu árin og gaf bókasafninu meðal annars greinar og bækur sem maðurinn hennar hafði átt, ásamt því að hún styrkti bókasafnið fjárhagslega á hverju ári.[6] Hún hætti að vinna 87 ára gömul og árið 1944 lést hún heimili þeirra, Balliol Croft (í dag þekkt sem "Marshall house") þá 93 ára.

Heimildaskrá breyta

  1. Bristol, University of (1. janúar 2000), Professor Sarah Smith with Mary Paley Marshall, sótt 8. september 2023
  2. 2,0 2,1 2,2 Wilcox-Lee, Naomi (20. október 2016). „Mary Paley Marshall“ (enska). Sótt 8. september 2023.
  3. John Maynard Keynes (1933). Essays in Biography (PDF). bls. 324-348.
  4. „13 women who transformed the world of economics“. World Economic Forum (enska). 17. nóvember 2015. Sótt 8. september 2023.
  5. „Mary Paley Marshall“. www.hetwebsite.net. Sótt 28. september 2023.
  6. Frost, Simon (12. nóvember 2011). „History of the Marshall Library“. www.marshall.econ.cam.ac.uk (enska). Sótt 8. september 2023.