Leonora Dori, kölluð Galigaï (19. maí 15688. júlí 1617) var hirðmey Mariu de'Medici, fyrst meðan hún var hertogadóttir í Flórens og síðar drottning Frakklands. Fjölskylda hennar var þjónustufólk Medicifjölskyldunnar og móðir hennar var brjóstmóðir Mariu.

Aftaka Leonoru Dori.

Leonora og Maria voru æskuvinkonur og þegar Maria giftist Hinriki 4. og flutti til Parísar aldamótaárið 1600, fylgdi Leonora henni sem hirðmey. 1601 giftist Leonora ítalska ævintýramanninum Concino Concini, lágt settum aðalsmanni frá Arezzo sem einnig var við hirð Mariu.

Eftir að Maria varð landstjóri fyrir hönd sonar síns eftir morðið á Hinrik 1610 óx vegur Concinis hratt og hann varð Frakklandsmarskálkur og markgreifi af Ancre. Þau söfnuðu miklum auði og með sölu á titlum og stöðum við hirðina og með því að taka Ítali fram yfir franska aðalinn öfluðu þau sér fljótt valdamikilla óvina.

Brátt leiddi Charles de Luynes hallarbyltingu gegn Mariu og Concini og Loðvík 13., þá fimmtán ára, tók stjórnina í sínar hendur. Hann lét myrða Concini 26. apríl 1617 og í kjölfarið var Leonora handtekin og ásökuð um galdra. Eftir stutta dvöl í Bastillunni var hún hálshöggvin og lík hennar brennt.