Lögsögumaður

æðsti og eini launaði starfsmaður Alþingis á þjóðveldisöld (930-1271)

Lögsögumaður var á þjóðveldisöld æðsti starfsmaður Alþingis og eini launaði veraldlegi embættismaður þess og raunar þjóðarinnar allrar. Hann hafði það hlutverk að stjórna fundum lögréttunnar og segja fram þriðjung laga í heyranda hljóði á hverju ári.

Lögrétta kaus sér lögsögumann og var kjörtímabilið þrjú ár en endurkjósa mátti sama manninn mörgum sinnum. Fyrsti lögsögumaðurinn var kosinn árið 930 þegar Alþingi var stofnað og var það Úlfljótur, sá sem sendur hafði verið til Noregs að kynna sér lög þar. Lögin voru ekki til skrifuð en lögsögumanninum bar að fara með þriðjung laganna fyrir þingheim á ári hverju þannig að þeir sem höfðu minni og námsgáfur til áttu að geta lært þau öll á þremur árum. Goðar og aðrir sem höfðu heyrt lögréttumenn fara með lögin margsinnis hafa vafalaust margir hverjir fest þau vel í minni og getað áminnt lögréttumenn ef þeir fóru ekki rétt með. Þannig geymdust lögin í minni manna í nærri tvær aldir, allt þar til veturinn 1117-1118, þegar skráning þeirra hófst á Breiðabólstað í Vesturhópi. Ekki er vitað til þess að sambærilegt embætti hafi verið til á norskum þingum.

Lögsögumannsembættið var við lýði til 1271 og eru nöfn allra lögsögumanna þekkt.

Úr lögsögumannsþætti Grágásar: „Svo er enn mælt að sá maður skal vera nokkur ávallt á landi voru er skyldur sé til þess að segja lög mönnum og heitir sá lögsögumaður...

Það er og mælt að lögsögumaður er skyldur til þess að segja upp lögþáttu alla á þremur sumrum hverjum en þingsköp hvert sumar. Lögsögumaður á upp að segja sýknuleyfi öll að lögbergi svo að meiri hlutur manna sé þar ef því um náir og misseristal og svo það ef menn skulu koma fyrr til alþingis en 10 vikur eru af sumri og tína imbrudagahald og föstuíganga og skal hann þetta allt mæla að þinglausnum. Það er og að lögsögumaður skal svo gerla þáttu alla upp segja að engi viti einna miklu gjörr. En ef honum vinnst eigi fróðleikur til þess þá skal hann eiga stefnu við 5 lögmenn hin næstu dægur áður eða fleiri þá er hann má helst geta af áður hann segi hvern þátt upp og verður hver maður útlægur 3 mörkum er ólofað gengur á mál þeirra og á lögsögumaður sök þá ...“ (Grágás I a, 208-09)

Heimild breyta

  • „Saga sýslumanna“.