Kvikmyndagerð á Íslandi

Kvikmyndagerð á Íslandi einkenndist lengi vel (og jafnvel enn) af frumkvöðlastarfsemi og gerð ódýrra kvikmynda. Vísir að sjálfstæðum kvikmyndaiðnaði fór ekki að myndast fyrr en undir lok 20. aldar en fram að því var kvikmyndagerð nátengd annarri starfsemi, svo sem ljósmyndun, íslensku leikhúsunum og Ríkissjónvarpinu eftir að það tók til starfa árið 1966. Aðsókn að kvikmyndahúsum hefur verið tiltölulega mikil en fjöldi áhorfenda takmarkaður miðað við þann kostnað sem felst í kvikmyndagerð.

Kvikmyndagerð á Íslandi
Listi yfir íslenskar kvikmyndir

Gjarnan er talað um að stofnun Kvikmyndasjóðs 1978 marki upphaf samfelldrar kvikmyndagerðar á Íslandi og er þannig talað um fyrstu kvikmyndina sem kom út og gerð var með styrk úr sjóðnum, Land og syni, sem fyrstu „alvöru“ íslensku kvikmyndina. Ekki má þó gleyma því að á 5. og 6. áratugnum stóð kvikmyndagerð með nokkrum blóma á Íslandi og stórmyndir á borð við 79 af stöðinni sem gerðar voru á 7. áratugnum voru að hluta til framleiddar af Íslendingum og með íslenskum leikurum í aðalhlutverkum.

Síðustu ár hefur aftur færst í vöxt að íslensk kvikmyndafyrirtæki taki að sér að vera innlendur samstarfsaðili fyrir erlenda framleiðendur sem hafa hug á að taka kvikmyndir á Íslandi. Nýlegt dæmi um slíkt samstarf er kvikmynd Clints Eastwood, Flags of Our Fathers, sem tekin var að hluta nálægt Krýsuvík í samstarfi við íslenska fyrirtækið Truenorth Productions.

Kvikmyndamiðstöð Íslands [1] var stofnuð árið 2001 og hefur umsjón með styrkjum til kvikmyndagerðar og gerðar leikins sjónvarpsefnis auk sjö manna kvikmyndaráðs sem menntamálaráðherra skipar samkvæmt tilnefningum frá fagsamtökum kvikmyndagerðarfólks. Kvikmyndasjóður veitti árið 2006 um 300 milljónir króna í styrki.

Edduverðlaunin eru verðlaun Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar fyrir kvikmyndir og sjónvarpsefni. Þau hafa verið veitt árlega frá 1999. Akademían sér einnig um val á framlagi Íslands til forvals Óskarsverðlaunanna.

Saga kvikmyndagerðar á Íslandi breyta

Fyrstu kvikmyndirnar breyta

 
Hadda Padda var tekin á Íslandi 1923.

Kvikmyndagerð á Íslandi má segja að hafi hafist þegar danskt tökulið ferðaðist til Íslands árið 1919 til þess að kvikmynda Sögu Borgarættarinnar eftir sögu Gunnars Gunnarssonar á vegum Nordisk Film. Sett var upp „kvikmyndaver“ í Reykjavík og nokkrir íslenskir leikarar léku aukahlutverk auk Guðmundar Thorsteinssonar (Muggs) sem lék eitt af aðalhlutverkunum. Kvikmyndin tengist frumkvöðlum í íslenskri kvikmyndagerð beint vegna þess að þar kynntist Óskar Gíslason, sem síðar varð afkastamikill kvikmyndagerðarmaður, filmuvinnu í fyrsta skipti.

1923 kom aftur tökulið til Íslands frá Danmörku til að taka upp Höddu Pöddu eftir handriti Guðmundar Kamban þar sem titilhlutverkið var leikið af dönsku stórstjörnunni Clöru Pontoppidan, en það sama ár var líka frumsýnd fyrsta kvikmyndin sem var leikstýrð og framleidd af Íslendingi, gamanmynd Lofts Guðmundssonar, Ævintýri Jóns og Gvendar, sem var stutt og sýnd sem aukamynd í Nýja Bíói. Myndin hlaut misjafnar viðtökur en Loftur hélt áfram og sendi frá sér Ísland í lifandi myndum 1925 sem var löng Íslandslýsing sem Loftur hafði tekið víða á Íslandi sumarið áður. Loftur hélt áfram að taka kvikmyndir, yfirleitt stuttar heimildarmyndir en 1949 sendi hann frá sér Milli fjalls og fjöru, fyrstu leiknu íslensku kvikmyndina í fullri lengd sem jafnframt var fyrsta íslenska talmyndin.

Fyrsti Íslendingurinn til að læra kvikmyndagerð við skóla, svo vitað sé, var Sigurður Norðdahl, forstöðumaður Útlendingaeftirlitsins, sem lærði við kvikmyndatökudeild New York háskóla á árunum 1943-1944.[1] Þekktast verka hans er sennilega safn myndskeiða frá mótmælunum á Austurvelli við inngöngu Íslands í NATO, 1949.

Á síðari hluta 5. áratugarins kom út töluverður fjöldi af heimildarmyndum og ber þar líklega hæst Björgunarafrekið við Látrabjarg sem Óskar Gíslason gerði 1949.

Fyrsta íslenska „kvikmyndavorið“ breyta

 
79 af stöðinni var leikstýrt af einum þekktasta kvikmyndaleikstjóra Dana, Erik Balling.

Kvikmynd Lofts Guðmundssonar, Milli fjalls og fjöru, er fyrsta leikna íslenska kvikmyndin í fullri lengd. Hún var frumsýnd 1949. Tveimur árum síðar fylgdi hann henni eftir með Niðursetningnum en hann var þá orðinn veikur og lést árið eftir, eða 1952. 1950 kom út önnur leikna íslenska kvikmyndin, barnamyndin Síðasti bærinn í dalnum, eftir Óskar Gíslason með vísunum í íslenska þjóðsagnahefð. Árið eftir gerði Óskar svo gamanmyndina Reykjavíkurævintýri Bakkabræðra. Hann var gríðarlega afkastamikill allan 6. áratuginn með kvikmyndum eins og Ágirnd 1952, sem hann framleiddi og kvikmyndaði, en var í leikstjórn Svölu Hannesdóttur sem varð fyrsta konan til að leikstýra íslenskri kvikmynd. Myndin var gerð eftir leikþætti sem hún hafði samið. Á þessum tíma gerði Óskar Nýtt hlutverk 1954. Árið áður kom út stuttmyndin Tunglið, tunglið, taktu mig eftir Ásgeir Long og Valgarð Runólfsson. Þeir gerðu síðan Gilitrutt sem var frumsýnd árið 1957. Það sama ár stofnaði Óskar Gíslason kvikmyndaverið Íslenzkar kvikmyndir h.f. sem varð fljótlega gjaldþrota. Eftir það liðu heil tuttugu ár þar til næsta leikna íslenska kvikmyndin í fullri lengd, sem alfarið var framleidd á Íslandi, leit dagsins ljós, Morðsaga Reynis Oddssonar 1977.

Erlent samstarf breyta

19. ágúst 1949, sama ár og fyrsta leikna íslenska kvikmyndin í fullri lengd var frumsýnd, var fyrirtækið Edda-Film stofnað í Reykjavík í þeim tilgangi að vera samstarfsaðili fransks framleiðenda sem ætlaði sér að kvikmynda Fjalla-Eyvind Jóhanns Sigurjónssonar á Íslandi. Ekkert varð úr þeirri framleiðslu en fyrirtækið hélt áfram og tók þátt árið 1954 í framleiðslu Sölku Völku í leikstjórn sænska leikstjórans Arne Mattsson. Næsta verkefni sem fyrirtækið réðst í var gerð 79 af stöðinni (1962) sem var framleidd í samstarfi við Nordisk Film og í leikstjórn danska leikstjórans Erik Balling, en fjármögnuð af Íslendingum (meðal annars styrk frá menntamálaráði) og með íslenskum leikurum.

Forsvarsmenn fyrirtækisins beittu sér fyrir ríkisstyrkjum til kvikmyndagerðar en þær hugmyndir fengu lítinn hljómgrunn framan af og fyrirtækið réðist ekki beint í framleiðslu annarra kvikmynda þótt það tæki þátt í gerð myndar Gabriels Axels, Rauðu skikkjunnar, 1967. Fyrirtækið lognaðist út af undir lok 8. áratugarins.

Sjónvarpið og kvikmyndaskólakynslóðin breyta

 
Morðsaga frá 1977 var fyrsta alíslenska leikna kvikmyndin í fullri lengd frá því Gilitrutt kom út 1957.

Tveir atburðir árið 1966 mörkuðu tímamót í íslenskri kvikmyndagerð. Það ár var Félag kvikmyndagerðarmanna stofnað og 30. september hóf Sjónvarpið útsendingar. Stofnun ríkissjónvarps varð til þess að skapa vettvang fyrir gerð sjónvarpsmynda og sjónvarpsleikrita. Þar hlaut margt tæknifólk í kvikmyndagerð sína menntun og fyrstu menntuðu kvikmyndaleikstjórarnir á borð við Hrafn Gunnlaugsson, Þorstein Jónsson og Þráinn Bertelsson fengu þar starf þegar þeir sneru heim úr námi. Jökull Jakobsson skrifaði mörg sjónvarpsleikrit, eins og fyrsta eiginlega sjónvarpsleikritið Romm handa Rósalind (1968), Keramik (1976) og Vandarhögg sem Hrafn Gunnlaugsson gerði að sjónvarpsmynd árið 1980. Nína Björk Árnadóttir og Svava Jakobsdóttir skrifuðu líka verk fyrir sjónvarpið. Fyrsta stóra sjónvarpsmyndin sem ráðist var í var Brekkukotsannáll í samstarfi við hinar norrænu ríkisstöðvarnar og NDR í Þýskalandi 1973 eftir sögu Halldórs Laxnes og á eftir fylgdu t.d. heimildarmyndin Fiskur undir steini eftir Þorstein Jónsson og Ólaf Hauk Símonarson (1975) og Blóðrautt sólarlag eftir Hrafn Gunnlaugsson (1976).

Fremur lítið fór fyrir annarri kvikmyndagerð frá 1966 þar til kvikmyndasjóður var stofnaður. Ásgeir Long hélt áfram gerð heimildamynda og Þorgeir Þorgeirson gerði Maður og verksmiðja í anda evrópsku framúrstefnunnar 1968, fyrstu íslensku kvikmyndina sem hlaut verðlaun á alþjóðlegri kvikmyndahátíð. Þó nokkuð kvað að Reyni Oddssyni sem hafði kynnst kvikmyndagerð í leiklistarnámi í Bandaríkjunum. Hann gerði meðal annars stuttu heimildarmyndina Umbarum-bamba með Hljómum 1965 og sendi frá sér tvær heimildarmyndir í fullri lengd um hernámsárin 1967 og 1969. 1977 gerði hann svo fyrstu alíslensku leiknu kvikmyndina eftir Gilitrutt 1957, Morðsögu, með Guðrúnu Ásmundsdóttur og Steindór Hjörleifssyni í aðalhlutverkum. Framleiðsla myndarinnar einkenndist af fjárskorti sem gerði það að verkum að ekki var hægt að kvikmynda hluta handritsins og hljóðvinnsla var nánast engin. Árið eftir var Kvikmyndasjóður Íslands loks stofnaður og aðstæður í íslenskri kvikmyndagerð breyttust verulega.

Kvikmyndasjóður og „kvikmyndavorið“ 1980 breyta

 
Punktur punktur komma strik eftir Þorstein Jónsson var frumsýnd árið 1980

Sumarið 1978 var haldin fyrsta kvikmyndahátíðin á Íslandi, Kvikmyndahátíð í Reykjavík, í tengslum við Listahátíð í Reykjavík það ár. Hátíðin stóð í tíu daga og veitt voru verðlaun fyrir bestu kvikmyndina. Mikill áhugi reyndist vera fyrir hendi hjá almenningi, Þorsteinn Jónsson hlaut verðlaun fyrir heimildarmyndina Bóndi og Hrafn Gunnlaugsson önnur verðlaun fyrir stuttmyndina Lilju, eftir smásögu Halldórs Laxness. Ágúst Guðmundsson fékk við sama tækifæri styrk úr Menningarsjóði fyrir handrit að stuttmyndinni Lítil þúfa. Þá lá þegar fyrir að af stofnun Kvikmyndasjóðs yrði það ár. Fyrsta úthlutun sjóðsins fór fram 29. mars 1979 þegar 30 milljónir (gamlar) krónur voru veittar í styrk til níu verkefna. Þrjú verkefnanna voru leiknar kvikmyndir sem sýndar voru 1980 og 1981; Land og synir eftir Ágúst Guðmundsson, Veiðiferðin eftir Andrés Indriðason og Óðal feðranna eftir Hrafn Gunnlaugsson. Fjórar heimildarmyndir fengu styrk, þar á meðal Sjómaður eftir Þorstein Jónsson, Mörg eru dags augu eftir Óla Örn Andreassen og Guðmund Pál Ólafsson og teiknimyndin Þrymskviða eftir Sigurð Örn Brynjólfsson.

Árið 1980 bar sú nýlunda við að þrjár leiknar íslenskar kvikmyndir voru frumsýndar á Íslandi, Land og synir Ágústar Guðmundssonar, Punktur punktur komma strik Þorsteins Jónssonar, og Veiðiferðin eftir Andrés Indriðason. Árið 1980 markar upphaf samfelldrar kvikmyndagerðar á Íslandi því eftir það hefur ekki liðið ár án þess að frumsýnd hafi verið leikin íslensk kvikmynd. Með tilkomu kvikmyndasjóðs opnaðist sá möguleiki að leikstjórar gætu fjármagnað gerð kvikmynda í fullri lengd þótt íslenskar kvikmyndir bæru þess áfram glögg merki að vera gerðar fyrir mjög lítið fé.

Níundi áratugurinn breyta

Framanaf níunda áratugnum komu út að jafnaði 3-5 íslenskar kvikmyndir í fullri lengd sem frumsýndar voru í kvikmyndahúsum. Aðsókn á margar þessara mynda var fádæma góð svo lá við að „allir“ hefðu séð sumar þeirra í bíó. Á þessum árum komu sem dæmi út gamanmyndir Þráins Bertelsonar um Þór og Danna, tvær víkingamyndir eftir Hrafn Gunnlaugsson og Með allt á hreinu eftir Ágúst Guðmundsson og Stuðmenn sem lengi var talin vinsælasta íslenska kvikmynd allra tíma. Hrafn, Ágúst, Þorsteinn og Þráinn voru mjög virkir á þessum árum og nýir leikstjórar eins og Kristín Jóhannesdóttir, Friðrik Þór Friðriksson, Hilmar Oddsson og Guðný Halldórsdóttir bættust við. Upp úr miðjum áratugnum tók þó nokkuð að draga úr aðsókn af ýmsum ástæðum. Myndbandstækið var komið á nánast hvert heimili og Stöð 2 hóf útsendingar árið 1986. Þótt úthlutunarfé Kvikmyndasjóðs ykist töluvert þá dugði það alls ekki eitt og sér og því tók að gæta fjárhagsörðugleika og trúin á framtíð íslenskrar kvikmyndagerðar fór minnkandi. Kröfur bæði áhorfenda og kvikmyndagerðarfólks til tæknilegrar úrvinnslu og forms höfðu líka aukist og frumkvöðlabragurinn þótti ekki eins viðeigandi og áður. Frá 1985 til 1992 fækkaði þeim myndum sem frumsýndar voru og voru leiknar kvikmyndir í fullri lengd að jafnaði aðeins tvær á ári.

Íslenska kvikmyndasamsteypan var stofnuð um miðjan áratuginn af Friðriki Þór og var áberandi í framleiðslu íslenskra kvikmynda næstu árin, eða þar til hún varð gjaldþrota árið 2004.

Þriðja „kvikmyndavorið“ 1992 breyta

 
Börn náttúrunnar er eina íslenska kvikmyndin í fullri lengd sem hefur verið tilnefnd til Óskarsins.

Árið 1992 fjölgaði skyndilega frumsýndum leiknum íslenskum kvikmyndum til mikilla muna. Tvær myndir komu út 1991; Börn náttúrunnar eftir Friðrik Þór og Hvíti víkingurinn eftir Hrafn, en 1992 voru þær skyndilega sex, þar af þrjár eftir lítt þekkta leikstjóra; Ingaló eftir Ásdísi Thoroddsen, Sódóma Reykjavík eftir Óskar Jónasson og Veggfóður eftir Júlíus Kemp. Sama ár voru Stuttmyndadagar í Reykjavík haldnir í fyrsta skipti. Ýmsum fannst því ástæða til að tala um nýtt „kvikmyndavor“ í upphafi tíunda áratugarins. Ýmsar ástæður voru fyrir þessari aukningu. Nýir leikstjórar voru að koma fram og aðgengileg stafræn tækni gerði myndatöku og úrvinnslu margfalt ódýrari og einfaldari en áður. Velgengni Barna náttúrunnar sem hlaut tilnefningu til Óskarsverðlauna jók einnig tiltrú fólks á íslenskri kvikmyndagerð almennt. Á heildina litið var þó fjöldi frumsýninga á 10. áratugnum lítið meiri en áratuginn á undan og hin raunverulega sprenging í íslenskri kvikmyndagerð varð ekki fyrr en árið 2000.

Árið 1999 voru fyrstu Edduverðlaunin veitt fyrir kvikmyndagerð og sjónvarpsefni. Framanaf voru verðlaunin meðal annars gagnrýnd fyrir það að vera óáhugaverð, þar sem nánast engin samkeppni væri vegna þess hve lítið er framleitt á einu ári og var jafnvel stungið upp á því að halda þau aðeins annað hvert ár. Minna hefur farið fyrir þessari gagnrýni síðan þá, enda hefur framleiðslan í íslenskri kvikmyndagerð margfaldast frá aldamótunum.

Frá aldamótunum breyta

Árið 1999 voru í fyrsta sinn sett lög um endurgreiðslu hluta kostnaðar vegna kvikmyndaframleiðslu á Íslandi. Lögunum var ætlað að laða að erlenda kvikmyndaframleiðendur.[2]

Frá 2000 til 2005 komu út fleiri leiknar íslenskar kvikmyndir en allan áratuginn á undan. Margfalt fleiri kvikmyndir eru framleiddar árlega á Íslandi og af íslensku kvikmyndagerðarfólki nú en á 9. og 10. áratugnum. Framleiðsla með dreifingu erlendis sem markmið er nú nánast regla fremur en undantekning og fjárhagslegt gengi kvikmyndanna því ekki eins háð aðsókn í kvikmyndahúsum á Íslandi. Markaðssetning og dreifing íslenskra kvikmynda á DVD er orðin snar þáttur í sölunni og átak hefur verið gert í endurútgáfu eldri íslenskra kvikmynda fyrir myndbandamarkaðinn.

Samtíminn breyta

Mikil gróska hefur verið í íslenskri kvikmyndagerð síðustu ár. Haustið 2006 samþykkti borgarráð Reykjavíkurborgar að hefja kynningarátak til þess að vekja athygli erlendra kvikmyndagerðarmanna á því að koma til Íslands og stunda iðju sína. Skipuð var nefnd með fulltrúum Reykjavíkurborgar, innlendra kvikmyndafyrirtækja, Kvikmyndamiðstöðvar og Kvikmyndahátíðarinnar í Reykjavík innanborðs og ber henni að skila tillögum sínum um leiðir í þá áttina ekki seinna en í júlí 2007.[3] Um miðjan nóvember 2006 skrifaði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, undir samkomulag milli ríkisins og samtaka í íslenskri kvikmyndagerð. Áætlun þessi setur íslenskri kvikmyndagerð það markmið að fjórar íslenskar kvikmyndir séu gerðar á ári hverju. Styrkir Kvikmyndasjóðs munu hækka úr 40% í 50% og samanlagt munu framlög ríkisins hækka úr 372 milljónum árið 2006 í 700 milljónir árið 2010.[4][5]

Tengt efni breyta

Tilvísanir breyta

  1. Vísir, 11. ágúst 1945, bls. 2.
  2. Stefán Ásgrímsson (27. mars 1999). „Eiga að laða að erlenda kvikmyndagerð“. DV.
  3. „Reykjavík verði kvikmyndaborg“. Sótt 27. febrúar 2007.
  4. „Stefnt að því að árlega verði gerðar 4 kvikmyndir hér í fullri lengd“. Sótt 27. febrúar 2007.
  5. „Samkomulag um stefnumörkun til að efla íslenska kvikmyndagerð“. Sótt 27. febrúar 2007.

Heimildir breyta

Tenglar breyta