Kvasir er einnig heiti skólablaðs Verzlunarskóla Íslands.

Kvasir var í norrænni goðafræði maður skapaður úr hráka ása og vana. Sáttagerð þeirra var að spýta í ker, en þar sem þeir vildu ekki láta hrákann týnast gerðu þeir úr honum mann, Kvasi, sem var svo vitur að hann vissi svör við öllu. Tveir dvergar, Fjalar og Galar, buðu honum heim, drápu hann og létu blóðið renna í tvö ker, Són og Boðn og einn ketil, Óðreri. Þeir blönduðu svo hunangi við blóðið og brugguðu af mjöð sem gaf hverjum sem hann drakk skáldskapargáfu.

Suttungur jötunn komst yfir mjöðinn og Óðinn drakk hann síðan allan eftir að hafa ginnt Gunnlöðu, dóttur Suttungs, til að leyfa sér að smakka. Þegar Óðinn hafði drukkið mjöðinn flaug hann á brott í arnarham og jötuninn á eftir, en þegar hann kom að veggjum Ásgarðs létu æsir út ker sem hann spýtti miðinum í og er það skáldskapargáfan sem menn hljóta, en sumt gekk aftur úr honum, sem er kallað skáldfíflahlutur, og hefur það hver sem vill.