Í skáldskaparfræði Aristótelesar eru kennsl (forngríska: ἀναγνώρισις, anagnōrisis) það þegar ein persóna harmleiks þekkist skyndilega, oft með geigvænlegum afleiðingum. Í riti sínu Um skáldskaparlistina skilgreindi Aristóteles hugtakið svo:

Kennsl eru, eins og nafnið ber með sér, í því fólgin að vanþekking víki fyrir þekkingu, og af því spretti vinátta eða óvinátta hjá fólki, sem á gæfu eða ógæfu í vændum.[1]

Aristóteles skipti kennslum í nokkra flokka eftir því hvernig þau koma til. Ólistrænust taldi hann vera þau sem koma til af ytri merkjum, til dæmis þannig að maður þekkist af spjóti sínu, hálsfesti eða sári. Kennsl geta einnig komið til af frásögn, minningu eða rökvillu en best er þegar þau eru „afleiðing af sjálfri atburðarásinni“.[2]

Þekkt dæmi um kennsl kemur fyrir í Oídípúsi konungi eftir Sófókles. Oídípús rannsakar morðmál og kemst á endanum að því að hann er sjálfur sá seki; hefur óafvitandi drepið föður sinn og gifst móður sinni. Þessi uppgötvun markar einnig hvörf í harmleiknum en algengt er að kennsl og hvörf fari saman.

Í seinni tíma leikritum eru kennsl ekki jafn-snar þáttur og í leikhúsi Forn-Grikkja en þó koma þau víða fyrir, til dæmis í verkum Shakespeares.

Tilvísanir breyta

  1. Um skáldskaparlistina bls. 62.
  2. Um skáldskaparlistina bls. 71-2.

Heimildir breyta

  • Aristóteles (1976) (Kristján Árnason þýddi og ritaði inngang). Um skáldskaparlistina. Hið íslenzka bókmenntafélag
  • Jón Viðar Jónsson (1985). Leikrit á bók. Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands.