Keflavíkurgangan 1976

Keflavíkurgangan 1976, stundum einnig kölluð Keflavíkurgangan mikla var haldin af Samtökum herstöðvaandstæðinga þann 15. maí árið 1976. Þetta var sjötta Keflavíkurgangan og sú fyrsta sem haldin var í nafni þessara samtaka. Gangan fór fram í skugga harðvítugra átaka Íslendinga og Breta í landhelgisdeilunum.

Aðdragandi og skipulag breyta

Samtök herstöðvaandstæðinga voru stofnuð árið 1972, meðal annars til að tryggja að vinstri stjórnin 1971-74 stæði við loforð sín um að loka herstöðinni á Miðnesheiði.[1] Það mál gekk ekki eftir og voru samtökin því efld og spikulag þeirra endurskoðað frá grunni á ráðstefnu í Stapa árið 1975. Eitt fyrsta verkefni nýrrar miðnefndar var að undirbúa Keflavíkurgöngu.

Landhelgisdeilan við Breta var í algleymingi um þær mundir sem gangan var haldin og setti það mjög mark sitt á hana. Fjöldi fólks, sem lítil afskipti hafði haft af málstað herstöðvaandstæðinga tók þátt í göngunni og göngufólki bárust fjöldi kveðja frá áhöfnum fiskiskipa umhverfis landið. Um 1.300 manns mættu við herstöðvarhliðið og hlýddu á ræðu Karls Sigurbergssonar skipstjóra. Haldnir voru fundir í Hafnarfirði, Kópavogi og á Lækjartorgi, þar sem ræðufólk var: Hörður Zóphaníasson, Svava Jakobsdóttir, Árni Hjartarson og Sigrún Huld Þorgímsdóttir. Andri Ísaksson, formaður miðnefndar SHA, stýrði útifundinum í göngulok sem var gríðarfjölmennur.

Í málflutingi og slagorðum herstöðvaandstæðinga í tengslum við gönguna var óspart hamrað á því að bresku herskipin á Íslandsmiðum væru NATÓ-herskip og mátti sjá kröfuspjöld á borð við „Burt með Nató-freigáturnar“. Sérstakt merki göngunnar var hannað af Eddu Sigurðardóttur, sem starfaði á teiknistofu Gísla B. Björnssonar. Vakti það talsverða athygli og var í kjölfarið tekið upp sem einkennismerki samtakanna, lítillega breytt.

Tilvísanir breyta

  1. „Keflavíkurgöngur - sögusýning á Landsbókasafni“ (PDF).