Karl Guðmundsson (knattspyrnuþjálfari)

Karl M. Guðmundsson (fæddur 28. janúar 1924, dáinn 24. júní 2012) var íslenskur knattspyrnumaður og frumkvöðull á sviði knattspyrnuþjálfunar.

Ferill breyta

Karl hóf ungur að leika knattspyrnu með Fram og varð Íslandsmeistari með félaginu árin 1946 og 1947. Hann var í fyrsta landsliðshópi Íslands árið 1946 og lék alls 10 landsleiki.

Hann útskrifaðist frá Íþróttakennaraskólanum að Laugarvatni árið 1944. Þar sem ekki var boðið upp á kennslu í knattspyrnuþjálfun við skólann hélt Karl til frekara náms erlendis, bæði í Englandi og Vestur-Þýskalandi og varð því fyrstur Íslendinga til að nema knattspyrnuþjálfun.[1]

Á Íslandi biðu Karls ýmis þjálfunarverkefni. Hann þjálfaði lið Skagamanna sumarið 1948, samhliða því að leika með Fram. Mun Karl þá hafa tekið að sér að kaupa treyjur fyrir Akranesliðið á ferðalagi sínu erlendis og hafi hann þá tekið ákvörðunina um gula félagslitinn.[2] Árið eftir mistókst Frömurum að fá erlendan þjálfara til liðs við sig og taldist félagið því þjálfaralaust þótt líta megi svo á að Karl hafi í raun sinnt þjálfuninni. Hann var svo spilandi þjálfari Fram frá 1952-54 og greip í stjórnartaumana árið 1956 og aftur frá 1966-68.

Karl var þjálfari Íþróttabandalags Hafnarfjarðar árið 1961 og stýrði liði KR sumarið 1964, þegar félagið lék sinn fyrsta Evrópuleik. Þá sinnti hann þjálfunarstörfum hjá Val, Keflavík og Þrótti. Árið 1959 fékk KSÍ Karl til að bjóða öllum liðum fyrstu deildar upp á vikulegar æfingar og sinnti hann því næstu árin.

Árið 1958 varð Karl fyrsti íslenski þjálfarinn til að starfa utan landsteinanna þegar hann tók að sér stjórnun norska liðsins Lillestrøm SK. Hann sneri aftur til Lillestrøm árið 1960 og 1962 stýrði hann Sandefjord BK.

Karl Guðmundsson lagði skóna á hilluna árið 1954, en það ár vann hann það afrek að vera leikmaður, fyrirliði og þjálfari landsliðsins í einum og sama leiknum. Hann gegndi stöðu landsliðsþjálfara með hléum til árins 1966. Hann lauk starfsferli sínum sem framkvæmdastjóri KSÍ á áttunda áratugnum.

Karl var bróðir Steins Guðmundssonar knattspyrnuþjálfara og formanns Fram.

Tilvísanir breyta

  1. „Karl Guðmundsson: minning, af vef KSÍ“.
  2. Björn Þór Björnsson: Knattspyrnubærinn - 100 ára saga knattspyrnunnar á Akranesi, s.88