Karl 5. Frakkakonungur

Karl 5. (21. janúar 133816. september 1380), kallaður Karl vitri, var konungur Frakklands frá 1364 til dauðadags en stýrði þó í raun landinu að mestu frá 1356. Á valdatíma hans nutu Frakkar velgengni í Hundrað ára stríðinu og tókst að vinna aftur mikið af því landi sem þeir höfðu þurft að afsala sér til Englendinga með Brétigny-sáttmálanum.

Stytta Karls 5.

Krónprins og ríkisstjóri breyta

Karl var af Valois-ætt, sonur Jóhanns konungs 2. og fyrri konu hans, Bonne af Lúxemborg. Hann var með föður sínum í bardaganum við Poitiers í september 1356, þar sem Jóhann konungur var tekinn höndum, en[Karl og menn hans hörfuðu undan og flúðu snemma í bardaganum, að því er hann sagði sjálfur að skipan konungs.

Hann hélt svo til Parísar, tók við stjórn ríkisins þar sem faðir hans var fangi, og kallaði saman þing til að afla fjár til að styrkja varnir Frakklands. Þegar þingið vildi ekki verða við óskum hans leysti hann það upp og hófst nú mikil barátta um völd. Helsti andstæðingur prinsins var Etienne Marcel, sem var nokkurs konar borgarstjóri Parísar. Karl neyddist til að kalla þingið saman að nýju og láta undan kröfum þess en þegar Jóhanni konungi bárust tíðindi af því þar sem hann var fangi Játvarðar svarta prins í Bordeaux neitaði hann að samþykkja og var síðan fluttur til Englands.

Karl prins hraktist frá París en fór um landið sumarið 1357 og aflaði sér stuðnings og síðsumars 1358 náði hann aftur völdum í París og styrkti stöðu sína svo að þegar faðir hans skrifaði undir samning við Englendinga sem var Frökkum ákaflega óhagstæður neitaði Karl að samþykkja hann og hafði til þess stuðning ráðgjafa sinna og þingsins. Játvarður réðist þá aftur inn í Frakkland og sótti að París en varnir borgarinnar höfðu verið styrktar og Karl hélt svo áfram því starfi og lét reisa virkið Bastilluna.

Játvarður rændi og ruplaði í sveitunum kringum París en gat ekki fengið Karl til að leggja í stórorrustu og gafst á endanum upp á þófinu og dró úr kröfum sínum. Með Brétigny-sáttmálanum, sem undirritaður var 8. maí 1360, fengu Englendingar þriðjung Vestur-Frakklands, aðallega í Gaskóníu og Akvitaníu, og lausnargjaldið fyrir Jóhann konung var lækkað en var þó enn svimhátt. Konungur var látinn laus í október og Loðvík af Anjou, næstelsti sonur hans, varð gísl í hans stað. En þegar Loðvík slapp úr haldi Englendinga og sneri aftur til Frakklands taldi Jóhann konungur það varða heiður sinn og gaf sig sjálfur Englendingum á vald að nýju í janúar 1364. Hann veiktist skömmu síðar og dó í apríl og Karl erfði ríkið.

Konungur Frakklands breyta

 
Franki sleginn árið 1365.

Karl var krýndur í Reims 19. maí 1364 og hélt áfram baráttunni við Englendinga. Hann beitti þeirri baráttuaðferð að stunda skæruhernað en forðast stærri orrustur go bar það góðan árangur. Helsti liðsmaður hans var Bretóninn Bertrand du Guesclin, sem var snjall skæruliðaforingi. Þessar skærur bárust meðal annars til Kastilíu, þar sem Pétur konungur grimmi og Hinrik, óskilgetinn hálfbróðir hans, börðust um völdin og studdu Frakkar Hinrik en Englendingar Pétur. Englendingum veitti framan af betur en mannfall var mikið í liði þeirra og eftir að Svarti prinsinn dró sig í hlé, sjúkur af blóðkreppusótt, náðu Frakkar yfirhöndinni og fór svo að Hinrik drap hálfbróður sinn og varð konungur Kastilíu.

Styrkur Englendinga hafði veikst til muna í Kastilíustríðinu og það notfærði Karl konungur sér og naut nú stuðnings Kastilíumanna. Floti Frakklands og Kastilíu gjörsigraði enska flotann við La Rochelle 1372 og du Guesclin, sem Hinrik hafði gert að yfirhershöfðingja alls franska hersins, gerði strandhögg víða á Englandsströndum og vann sigur í mörgum smærri orrustum. Flestir foringjar enska hersins féllu og Svarti prinsinn flúði heim til Englands og dó þar 1371. Árið 1374 hafði Karli tekist að vinna aftur allar lendur Englendinga á meginlandinu nema Akvitaníu og Calais.

Karl reyndi að gera friðarsamninga við Englendinga til að tryggja varanlegan frið en varð ekki ágengt og óánægja í Frakklandi fór vaxandi vegna hárra skatta sem hann hafði neyðst til að leggja á til að standa undir stríðsrekstrinum. Heilsa hans fór líka versnandi en hún hafði lengi verið slæm, hann var meðal annars með gigt í hægri hendi og graftarkýli á vinstri handlegg sem talið hefur verið hugsanlegt að rekja megi til alvarlegra veikinda (hugsanlega arsenikeitrunar) sem hrjáðu hann 1359 en hann missti þá meðal annars allt hárið og neglur duttu af fingrum hans. Hann dó 16. september 1380 og Karl, tólf ára sonur hans, tók við en föðurbræður hans stýrðu ríkinu fyrstu árin.

Karl 5. var bráðvel gefinn, mjög bókhneigður og átti afar gott bókasafn sem hann efldi stöðugt. Hann lét einnig reisa eða endurbæta fjölda bygginga, þar á meðal Louvre-höll og Bastilluna. Hann þótti fámáll, dulur og alvörugefinn en virðist þó hafa verið mjög tilfinninganæmur og syrgði eiginkonu sína opinskátt, svo og þau börn þeirra sem dóu ung.

Fjölskylda breyta

Karl giftist frænku sinni Jóhönnu af Bourbon, dóttur Péturs 1. hertoga af Bourbon og Ísabellu af Valois, 8. apríl 1350 þegar þau voru bæði tólf ára að aldri. Hjónaband þeirra er sagt hafa verið sterkt og gott en Jóhanna var tæp á geðsmunum eins og ýmsir ættingjar hennar. Þau eignuðust saman níu börn en aðeins synirnir Karl 6. og Loðvík hertogi af Orléans náðu fullorðinsaldri.

Heimild breyta


Fyrirrennari:
Jóhann 2.
Konungur Frakklands
(13641380)
Eftirmaður:
Karl 6.