John Samuel Waters (fæddur 22. apríl 1946) er bandarískur kvikmyndagerðarmaður, leikari, uppistandari, handrita- og rithöfundur, blaðamaður, listamaður og listaverkasafnari.

John Waters fæddist og ólst upp í Baltimore, Maryland, sonur Patricia Ann (fædd Whitaker) og John Samuel Waters. Hann fékk snemma áhuga á kvikmyndum og brúðuleik. Hann hefur sjálfur sagt frá því að kvikmyndin Lili frá 1953 hafi kveikt áhuga hans á brúðuleik þegar hann var sjö ára. Hann hóf þá uppsetningar á eigin brúðuleikritum í barnaafmælum, oft mjög ofbeldisfullum sögum. Hann mun líka hafa stolist til að horfa á hallærislegar kvikmyndir í bílabíóum, vopnaður kíki.

John Waters hóf ungur að gera kvikmyndir með vinum sínum. Í upphafi 8. áratugarins tók frægðarsól John Waters að rísa. Hann skapaði sér nafn á jaðri kvikmyndaiðnaðarins með verkum sem ögruðu venjulegum samfélagsstöðlum og dróg dár að þeim. Myndir þessar gerast allar í Baltimore og hefur hann haft þann háttinn á hingað til að láta þær allar gerast í fæðingarborg sinni.

Í upphafi ferils síns vann hann með hóp sem kallað sig The Dreamlanders. Sá samanstóð af vinum Waters frá Baltimore og innihélt meðal annarra Divine, David Lochary, Mary Vivian Pearce og Edith Massey. Af fyrri myndum Waters má nefna Pink Flamingos (1972), Female Trouble (1974) og Desperate Living (1977). Þær mætti flokka sem yfirgengilega óviðeigandi á meðvitaðan máta og sem dýrðaróð til misgjörða.

Árið 1988 gerði Waters kvikmyndina Hairspray. Hún gekk vel og færði Waters nær meginstraumi kvikmynda. Í næstu myndum fékk Waters til liðs við sig nafntogaða leikara. Efnistök mynda hans voru ekki eins róttæk og í upphafi ferilsins. Hann hélt þó áfram að vera málsvari utangarðamanna og boðar á eigin vísu jafnrétti og upplýst viðhorf með verkum sínum.

Waters býr enn og starfar í Baltimore og skartar enn sama örmjóa yfirvaraskegginu síðan í árdaga 8. áratugarins.

Heimild breyta