Jeu de paume er ævagömul frönsk íþróttagrein, sem telja má forföður tennisíþróttarinnar. Keppt hefur verið í ólíkum afbrigðum hennar á Ólympíuleikum, bæði sem sýningargrein og fullgild keppnisgrein.

Jeu de paume-kappleikur frá 17. öld.

Reglur og uppruni breyta

Jeu de paume þróaðist á ofanverðum miðöldum úr boltaleikjum sem þá voru vinsælir. Til eru kenningar þess efnis að iðkun hennar hafi byrjað meðal munka í munkaklaustrum.

Í fyrstu gekk leikurinn út á að tveir keppendur slógu á milli sín knött með lófunum, fyrst berhentir en síðar í hönskum. Af því er dregið nafn greinarinnar (paume merkir lófi, svo orðrétt þýðing væri lófaknattleikur). Eftir miðja fimmtándu öld var hins vegar farið að slá knöttinn, harða korkkúlu, með spöðum.

 
Nútímakeppnisvöllur í Jeu de paume.

Fyrstu keppnisvellirnir hafa væntanlega verið hallargarðar eða klausturgarðar með veggi á allar hliðar. Net er strengt yfir miðjan völlinn sem keppendur reyna að slá yfir. Nota má veggina umhverfis sem batta, líkt og í skvassi, en á veggjunum geta verið ýmis konar útskot, þakskyggni eða annað sem gerir skopp knattarins óútreiknanlegra. Engir tveir keppnisvellir í Jeu de paume eru eins.

Stigatalning í Jeu de paume minnir mjög á tennis og eins og í tennis er keppt bæði í ein- og tvíliðaleik. Til er annað afbrigði af Jeu de paume sem leikið er utandyra á bersvæði og svipar það enn meira til nútímatennis. Vegna þessara líkinda tala enskumælandi þjóðir gjarnan um greinina sem „alvöru tennis“.

Jeu de paume í mannkynssögunni breyta

 
Tennisvallareiðurinn (f. Le Serment du Jeu de paume), málverk eftir Jacques-Louis David frá 1791.

Íþróttin þótti við hæfi fyrirfólks í árnýöld. Hinrik VIII Englandskonungur var ástríðufullur spilari. Talið er að önnur eiginkona hans, Anna Boleyn, hafi verið að horfa á keppni í Jeu de paume þegar hún var handtekinn og konungurinn hafi verið í miðjum leik þegar honum barst fregnin af aftöku hennar.

Karl VIII Frakklandskonungur lést að völdum höfuðhöggs sem hann fékk í kappleik árið 1498. Íþróttin varð öðrum frönskum konungi að aldurtila tæpum 200 árum fyrr. Loðvík X fékk lungnabólgu og lést eftir að hafa drukkið of mikið kælt rauðvín yfir óvenjulangri og spennandi viðureign.

Jeu de paume kom óbeint við sögu í frönsku byltingunni. Tennisvallareiðurinn svokallaði, þar sem fulltrúar þriðju stéttar risu upp gegn konungsvaldinu, var einmitt svarinn í einni hinna ótalmörgu keppnishalla Parísarborgar.

Elsta meistarakeppni í heimi breyta

Keppt hefur verið um heimsmeistaratitil í Jeu de paume óslitið frá árinu 1740 og getur engin önnur íþrótt státað af jafnlangri samfelldri sögu. Lengi vel gátu sitjandi heimsmeistarar neitað að keppa við áskorendur sína og eru dæmi um meistara á nítjándu öld sem héldu titlinum í þrjá áratugi.

Ólympíuíþrótt breyta

Keppt var í Jeu de paume á Ólympíuleikunum í Lundúnum árið 1908. Ellefu keppendur tóku þátt, allt Bretar og Bandaríkjamenn. Gullverðlaunahafinn kom frá Bandaríkjunum, Jay Gould II. Hann var barnabarn járnbrautakonungsins Jay Gould, sem var á sinni tíð einn ríkasti maður í heimi en þótti einkar ófyrirleitinn kaupsýslumaður.

Jeu de paume var aftur á dagskrá á Ólympíuleikunum 1924, en þá sem sýningargrein.

Lounge paume, utanhússafbrigði Jeu de paume var sýningargrein á Ólympíuleikunum 1900. Hún er iðkuð enn í dag, en útbreiðsla hennar er að mestu bundin við ákveðin héruð í Frakklandi.

Heimildir breyta

  • Ingimar Jónsson (1976). Alfræði Menningarsjóðs: Íþróttir a-j. Bókaútgáfa Menningarsjóðs og Þjóðvinafélagsins.
  • Fyrirmynd greinarinnar var „Jeu de paume“ á frönsku útgáfu Wikipedia. Sótt 22. júní 2010.