Jóhanna halta, Frakklandsdrottning

Jóhanna af Búrgund (24. júní 129312. september 1348) eða Jóhanna halta (Jeanne la Boiteuse) var drottning Frakklands frá 1328 til dauðadags, fyrri kona Filippusar 6. Frakkakonungs. Hún stýrði ríkinu þegar maður hennar fór í herleiðangra í Hundrað ára stríðinu.

Jóhanna drottning.

Jóhanna var dóttir Róberts 2. hertoga af Búrgund og Agnesar af Frakklandi, yngstu dóttur Loðvíks konungs 9. Eldri systir hennar, Margrét af Búrgund, var fyrsta kona Loðvíks 10. og dó í dýflissu. Bræður hennar voru Húgó 5., hertogi af Búrgund, og Ottó 4., hertogi af Búrgund. Jóhanna giftist Filippusi af Valois í júlí 1313. Hann var af konungsættinni og eftir að allir synir Filippusar 4. voru látnir án þess að láta eftir sig syni varð hann óvænt konungur 1328.

Hundrað ára stríðið hófst nokkrum árum eftir að þau hjónin settust í hásæti og Filippus var oft langtímum saman fjarverandi að berjast við heri Játvarðar 3. Englandskonungs. Jóhanna stýrði ríkinu á meðan og reyndist hæfur leiðtogi en þótti hörð í horn að taka og það ásamt fötlun hennar varð til þess að hún var stundum kölluð la male royne boiteuse, „vonda halta drottningin“. Hún var sögð stjórna manni sínum, sem þótti fremur veikur leiðtogi. Hún var mjög bókhneigð og fyrirskipaði þýðingar á ýmsum verkum yfir á frönsku.

Jóhanna dó í Svarta dauða, 12. september 1328. Af þeim börnum sem hún ól komust tveir synir upp, Jóhann 2. Frakkakonungur og Filippus af Valois, hertogi af Orléans.

Þegar Filippus 1. af Búrgund, sonarsonur Ottós hertoga bróður Jóhönnu, lést ungur að árum 1362 dó karlleggur Búrgundarættar út. Ekki var ljóst hver væri réttmætur erfingi hans og gerðu bæði Jóhann 2., sonur Jóhönnu (og stjúpfaðir Filippusar hertoga), og Karl 2. Navarrakonungur, sem var dóttursonur Margrétar, eldri systur Jóhönnu, kröfu til hertogadæmisins. Jóhann náði sínu fram á þeirri forsendu að hann væri einum lið skyldari Filippusi.

Heimild breyta