Henry Hudson (12. september 1571-1580 - 1611) var enskur landkönnuður. Hann fæddist í London og talið er að hann hafi unnið sig upp í stöðu skipstjóra en lítið er vitað um ævi hans til ársins 1607 þegar hann var ráðinn af Moskvufélaginu í Englandi til að finna norðausturleiðina til Kína. Hann sigldi í norður allt að 577 sjómílur sunnan við norðurpólinn þar sem hann sneri við og hélt aftur heim. Sumir telja að hann hafi uppgötvað Jan Mayen en engar heimildir eru til sem benda til þess. 1608 fór hann í aðra ferð og reyndi að sigla norður fyrir Rússland. Hann náði til Novaja Semlja en neyddist til að snúa við.

Last voyage of Henry Hudson eftir John Collier (1850-1934).

Fyrir Hollenska Austur-Indíafélagið breyta

Árið 1609 var Hudson ráðinn af Hollenska Austur-Indíafélaginu til að finna austurleið til Asíu á skipi félagsins Halve Maen. Í þetta sinn varð hann að snúa við vegna hafíss áður en hann komst til Novaja Semlja. Hann hafði heyrt orðróm um siglingaleið í gegnum meginland Norður-Ameríku frá Jamestown og John Smith og ákvað því að freista þess að finna suðvesturleið. Hann náði Nýfundnalandi í byrjun júlí og kannaði meðal annars Chesapeake-flóa og Delaware-flóa á austurströndinni í leit að siglingaleið til Kyrrahafsins. Þá sigldi hann inn í flóann þar sem nú er höfnin í New York og sigldi upp Hudsonfljót inn í landið allt að Albany þar sem áin mjókkar. Á leiðinni verslaði hann við innfædda og átti þannig upphafið að hinni blómlegu skinnaverslun milli Hollendinga og indíána þar sem Nýja Amsterdam var síðar stofnuð.

Fyrir Breska Austur-Indíafélagið breyta

1610 fékk Hudson fjármagn frá Virginíufélaginu og Breska Austur-Indíafélaginu til að leggja upp í nýja ferð á skipinu Discovery til að leita að norðvesturleið til Kína. Í þetta skipti sigldi hann norðar og kom til Íslands 11. maí og suðurodda Grænlands 4. júní. 25. júní kom skipið í Hudsonsund við norðurodda Labrador og 2. ágúst komu þeir í Hudsonflóa. Þar festist skipið í ís og áhöfnin bjó um sig í landi. Þegar ísa leysti um vorið hugðist Hudson halda áfram landkönnun en áhöfnin vildi snúa heim. Þetta leiddi til uppreisnar sem lyktaði með því að Hudson var, ásamt syni sínum og sjö öðrum, skilinn eftir á opnum báti á Hudsonflóa. Ekkert spurðist til þeirra eftir það.