Heiðursvörður Billa Barnunga

Heiðursvörður Billa barnunga (franska: L'Escorte) eftir Maurice de Bevere (Morris) og René Goscinny er 28. bókin í bókaflokknum um Lukku Láka. Bókin kom út árið 1966, en sagan sem hún hefur að geyma birtist fyrst í teiknimyndablaðinu Sval (f. Le Journal de Spirou) á árunum 1964-65.

Kápa hollensku útgáfu bókarinnar.

Söguþráður breyta

Billi barnungi situr í fangelsi í Texas þar sem hann á eftir að afplána 1245 ár af refsidómi fyrir ýmis afbrot. Þegar dómstóll í Bykkjugili í Nýju Mexíkó fer fram á að Billi verði sendur þangað til að mæta fyrir rétti vegna annarra afbrota er Lukku Láki fenginn til að fylgja Billa. Ferðin á þó eftir að reynast viðburðarík þar sem Billi notar hvert tækifæri til að strjúka úr gæslunni. Ekki bætir úr skák að smábófinn Berti Bulla fylgir í humátt á eftir og ætlar sér að frelsa Billa úr klóm réttvísinnar í von um ágóðahlut.

Fróðleiksmolar breyta

  • Heiðursvörður Billa barnunga er önnur Lukku Láka bókin þar sem byssubófinn með barnsandlitið er í aðalhlutverki. Sú fyrri, Billi Barnungi, kom út fjórum árum fyrr.
  • Í byrjun bókarinnar kemur fulltrúi hraðpóstþjónustunnar Fljúgandi Fákanna Fótfráu (e. Pony Express) með hraðbréf til Lukku Láka. Eins og lýst er í bókinni Söngvírnum var hraðpóstþjónustunni komið á fót árið 1860, en hún lagði upp laupana rúmu ári síðar þegar ritsíminn varð að veruleika. Hinn raunverulegi Billi barnungi var þá aðeins tveggja ára, en hann fæddist árið 1859.

Íslensk þýðing breyta

Heiðursvörður Billa barnunga var gefin út af Fjölva árið 1979 í íslenskri þýðingu Þorsteins Thorarensen. Þetta er 19. bókin í íslensku ritröðinni.