Gyllinæð (hljómsveit)

íslensk dauðarokkhljómsveit

Gyllinæð er dauðapönkshljómsveit sem var stofnuð vorið 1999 af gítarleikaranum Danna (Daníel Ívar Jensson), söngvaranum Gústa (Ágúst Hróbjartur) og trommuleikaranum Magga (Magnús Magnússon). Þeir voru 14 - 15 ára. Hljómsveitin vakti strax mikla athygli.[heimild vantar] Kom reglulega fram í morgunþætti Sigurjóns Kjartanssonar og Jóns Gnarr á X-inu; Skjár 1 sýndi heimildarmynd um hljómsveitina.[heimild vantar] Sýningu á þættinum var frestað um nokkrar vikur eftir að hafa verið auglýstur grimmt. Ástæðan var sú að maður í næsta húsi við æfingaskúr hljómsveitarinnar hótaði Skjá 1 öllu illu ef eitthvað kæmi fram um hann í þættinum. Hljómsveitin eldaði grátt silfur saman við manninn og hafði samið um hann lagið "Djöflakallinn með sleggjuna". Maðurinn var hátt settur ríkisstarfsmaður og Skjár 1 klippti allt um hann úr þættinum og varð að vinna nýtt efni til að bæta inn í staðinn.

Gyllinæð deildi í sjónvarpsþætti við Snorra í Betil sem hélt því fram að rokkið sé músík djöfulsins. Þátturinn varð umtalaður og Gyllinæð spilaði eitt lag í þættinum á meðan Snorri hljóp út og hélt fyrir eyrun.

Einu hljómleikar Gyllinæðar á íslensku sviði utan útvarps- og sjónvarpsþátta var í versluninni Spútnik. Þar spilaði Gyllinæð með hljómsveitunum Mínus og Bisund.

Um haustið var Gyllinæð boðið að spila á 400 manna hljómleikum í Ammassalik á austurströnd Grænlands.[heimild vantar] Þar varð Gústa á að æla á sviðið pizzu sem hann hafði nýlega lokið við að borða hráa og frostna. Til að gera gott úr þessu hellti hann yfir sig kveikjaragasi og kveikti í sér. Danni mölbraut þá gítarinn sinn með því að marglemja honum í sviðið og magnara, Maggi sparkaði trommusettinu út í sal og í sameiningu rústaði tríóið sem uppi stóð af hljóðnemum, hátölurum og öðru.

Við þetta varð hlé á hljómleikunum á meðan bæjarbúar útveguðu ný hljóðfæri og græjur. Næstu daga var um fátt meira rætt í grænlenskum fjölmiðlum. Færeyskir fjölmiðlar sögðu einnig frá uppákomunni, sem og að sjálfsögðu íslenskir. Í kjölfarið hófust blaðadeilur um hljómsveitina og símatímar útvarpsstöðva loguðu. Þar var því meðal annars haldið fram að þessir 14 - 15 ára drengir væru dópistar og vond fyrirmynd. Tvö tímarit sem höfðu tekið viðtal við Gyllinæð hættu við að birta viðtölin vegna þessa málflutnings. Dagblöðin tóku þeim mun ítarlegri viðtöl við strákana.

Árið 2000 fór minna fyrir Gyllinæð. Lagið "Kristjana með gyllinæð" kom út á safnplötunni "Tyrkland" sem var gefin út til styrktar fórnarlömbum jarðskjálfta.[heimild vantar] Lagið fékk nokkra útvarpsspilun, bæði hérlendis og í Færeyjum og Grænlandi. Þá var hljómsveitinni boðið að spila á stærstu grænlensku rokkhátíðinni, Nipiaa Rock Festival í Aasiat á vesturströnd Grænlands.[heimild vantar] Einróma umsögn fjölmiðla var að Gyllinæð hafi algjörlega stolið senunni á rokkhátíðinni. Þarna spiluðu um 10 þungarokkshljómsveitir frá Kanada, Danmörku og Færeyjum. Gagnrýnendur sögðu að Gyllinæð hafi kennt þeim hvernig á að afgreiða alvöru þungt rokk. Bassaleikarinn Bjarni Móhíkani úr hljómsveitinni Sjálfsfróun var með í för til að þyngja hljóminn.

Þetta reyndist vera svanasöngur hljómsveitarinnar. Strákarnir lentu í slagsmálum hver við annan og tímabundnum vinslitum. Maggi fór að spila með hljómsveitinni Andláti og síðar Shadow Parade.

Tenglar breyta