Guðrún Þorgerður Larsen

íslenskur fræðimaður í eldfjallafræðum

Guðrún Þorgerður Larsen (f. 1. nóvember 1945)[1] er prófessor emeritus við Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands.[2]

Guðrún Þorgerður Larsen
Fædd1. nóvember 1945 (1945-11-01) (78 ára)
Glerárþorpi við Akureyri
StörfJarðfræðingur, emeritus vísindamaður við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands

Ferill breyta

Guðrún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri vorið 1964.[3] Hún lauk BS-prófi í jarðfræði 1975[4] og 4. árs prófi í gjóskulagafræði 1978. Framhaldsnám við Edinborgarháskóla að hluta 1998 til 2002. Sumarið 1974 vann Guðrún við rannsóknir á Heklugosi við Raunvísindastofnun Háskólans og sumarið eftir við rannsóknir á gossögu Kötlu. Veturinn 1975-1976 kenndi hún stærðfræði við Kvennaskólann í Reykjavík en í júní 1976 hóf hún störf á Norrænu eldfjallastöðinni þar sem hún vann til 1990, fyrst sem styrkþegi og síðar sem sérfræðingur með starfsaðstöðu. Frá 1990 til 2004 gegndi hún rannsóknastöðu á Jarðfræðistofu Raunvísindastofnunar Háskólans[5] og frá 2004 til 2015 á Jarðvísindastofnun Háskólans þar sem hún hefur nú aðstöðu sem vísindamaður á eftirlaunum.[6] Guðrún byggði ásamt öðrum upp kennslu í eldfjallafræði við Jarð- og landfræðiskor sem þá hét og kenndi að hluta 1988-2005. Hún hefur jafnframt leiðbeint jarðfræðinemum í BS-, MS- og doktorsverkefnum á sviði eldfjallafræði.

Rannsóknasvið breyta

Meginviðfangsefni rannsókna Guðrúnar hafa verið á sviði eldfjallafræði, einkum gjóskulagarannsóknir og gjóskutímatal, stór sprengigos og gossaga eldstöðvakerfa á Eystra gosbeltinu á Suðurlandi og eldstöðva undir Vatnajökli á nútíma. Markmiðið er að auka þekkingu á eldvirkni eftir að ísöld lauk, einkum á Eystra gosbeltinu sem er virkasta eldgosasvæði landsins, á umhverfisbreytingum af völdum eldvirkni og hættu af henni í framtíðinni.[4]

Guðrún er höfundur eða meðhöfundur að rúmlega 120 fræðigreinum og bókarköflum í erlendum og íslenskum tímaritum og bókum[4] og í vefriti um eldvirkni á Íslandi.[7] Hún er auk þess höfundur eða meðhöfundur að yfir 30 rannsóknarskýrslum og smáritum, um 300 fræðilegum ráðstefnuágripum og einnig meðhöfundur að nokkrum jarðfræðikortum. Auk ýmissa samvinnuverkefna innanlands og utan hefur hún tekið þátt í fjölþjóðlegum samvinnuverkefnum styrktum af Evrópusambandinu, t.d. HOLSMEER (Late HOLocene Shallow Marine Environments of EuRope 2000-2004, Fifth Framework Programme),[8] PACLIVA (PAtterns of CLImate Variability in the north Atlantic 2002-2006, Fifth Framework Programme)[9] og Millennium (European Climate of the last Millennium, 2006-2009, Sixth Framework Programme).[10]

Þegar tilefni hefur gefist hafa rannsóknir Guðrúnar tengst atvinnu- og þjóðlífi. Hún hefur unnið við hættumat á vegum Almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra vegna eldgosa í Mýrdalsjökli og Eyjafjallajökli,[11] setið fundi vísindanefndar almannavarna og kynnt niðurstöður þar og á almennum fundum eftir því sem þörf hefur krafið, flutt fræðsluerindi um eldvirkni, sprengigos, valdar eldstöðvar, einstök eldgos og afleiðingar gosa og gjóskufalls til upplýsingar fyrir almannavarnanefndir, almenning, og erlend og íslensk fagfélög og hópa.[4] Nýjasta verkefnið á þessu sviði var vefrit um eldvirkni á Íslandi, Catalogue of Icelandic Volcanoes, í samvinnu Veðurstofu Íslands, Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands og Almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra.[7]

Ýmis störf og verkefni breyta

Guðrún var einn af ritstjórum vefrits um eldvirkni á Íslandi, Catalogue of Icelandic Volcanoes, ásamt Evgeníu Ilyinskaya og Magnúsi T. Gudmundssyni.[12] Hún hefur verið gestaritstjóri tímarita og haft umsjón með ráðstefnuheftum, einnig komið að skipulagningu fjölþjóðlegra ráðstefna á Íslandi, síðast 30th Nordic Geological Winter Meeting í Reykjavík, janúar 2012.[13]

Viðurkenningar breyta

  • Árið 2016 hlaut Guðrún viðurkenningu Verðlaunasjóðs Ásu Guðmundsdóttur Wright sem er veitt íslenskum vísindamanni er hefur náð framúrskarandi árangri á sérsviði sínu í vísindum eða fræðum og miðlað þekkingu sinni til framfara í íslensku þjóðfélagi. Viðurkenninguna hlaut hún fyrir rannsóknir sínar á eldvirkni og gossögu íslenskra eldstöðva, einkum sprengigosum og gjóskulögum, meðal annars frá eldstöðvum undir Vatnajökli sem hún telur að muni sýna áframhaldandi virkni næstu ár eða ártugi.[5]
  • Árið 2018 var hún valin heiðursfélagi í INQUA’s International Focus Group on Tephrochronology and Volcanism (INTAV).[14]

Einkalíf breyta

Guðrún er gift Aðalsteini Eiríkssyni fyrrverandi skólameistara Kvennaskólans í Reykjavík. Þau eiga tvö börn og fimm barnabörn.[15]

Tilvísanir breyta

  1. Mbl.is. (2015, 31. nóvember). Til hamingju með daginn. Sótt 21. október 2019.
  2. Háskóli Íslands. Guðrún Þorgerður Larsen. Prófessor emeritus. Sótt 21. október 2019.
  3. Menntaskólinn á Akureyri. Stúdentar 1964 Geymt 21 október 2019 í Wayback Machine. Sótt 21. október 2019.
  4. 4,0 4,1 4,2 4,3 „Guðrún Þ. Larsen“. Sótt 21. október 2019.
  5. 5,0 5,1 „Háskóli Íslands. (2016). Guðrún Larsen hlýtur verðlaun Ásusjóðs“. Sótt 21. október 2019.
  6. Háskóli Íslands. Jarðvísindastofnun. Emerítusar Geymt 25 október 2019 í Wayback Machine. Sótt 21. október 2019.
  7. 7,0 7,1 „Catalogue of Icelandic Volcanoes“. Sótt 21. október 2019.
  8. Late Holocene and Shallow Marine Environments of Europe (HOLSMEER) Geymt 21 október 2019 í Wayback Machine. Sótt 21. október 2019.
  9. European Commission. Patterns of climate variability in the north atlantic Geymt 22 október 2019 í Wayback Machine. Sótt 21. október 2019.
  10. European Commission. European climate of the last millennium Geymt 21 október 2019 í Wayback Machine. Sótt 21. október 2019.
  11. Magnús T. Guðmundsson o.fl. 2005. Yfirlit um hættu vegna eldgosa og hlaupa frá vesturhluta Mýrdalsjökuls og Eyjafjallajökli Geymt 21 október 2019 í Wayback Machine. Í: Magnús T. Guðmundsson og Ágúst G. Gylfason (ritstj.): Hættumat vegna eldgosa og hlaupa frá vestanverðum Mýrdalsjökli og Eyjafjallajökli: 11-44. Ríkislögreglustjórinn, Háskólaútgáfan, Reykjavík. Sótt 21. október 2019.
  12. Catalogue of Icelandic Volcanoes. Contributors to the Catalogue of Icelandic Volcanoes. Editors[óvirkur tengill]. Sótt 21. október 2019.
  13. 30th Nordic Geological Winter Meeting Geymt 21 október 2019 í Wayback Machine. Reykjavík, Iceland 9–12 January 2012. Sótt 21. október 2019.
  14. INTAV. International Focus Group on Tephrochronology. Honorary life members. Sótt 21. október 2019.
  15. Mbl.is. (2015, 10. október). Skólamaður frá Núpi. Aðalsteinn Eiríksson, fyrrv. skólameistari - 75 ára. Sótt 21. október 2019.