Glysþungarokk er tónlistarstefna sem reis upp á seinni hluta áttunda áratugarins og fyrri hluta þess níunda í Bandaríkjunum og þá sérstaklega Los Angeles. Rætur stefnunnar liggja meðal annars í þungarokki, pönki og hörðu rokki. Glysþungarokk sameinaði áberandi litríkt útlit glysrokksins við þunga og framsækni þungarokksins. Stefnan hefur verið einkennandi sem þungarokksstefna með þeim hætti að hún er sú eina sem náð hefur inn á meginstraum tónlistar síns tímabils. Glysþungarokk náði miklum vinsældum á níunda áratugnum og byrjun þess tíunda en missti meginstraumsvelgengni með upprisu gruggtónlistar. Síðan þá hefur stefnan verið reist upp á ný í mörgum löndum, meðal annars á Íslandi.

Motley Crue voru eitt fyrstu glysþungarokksbandanna og meðal þeirra sem gengu lengst hvað varðar framkomu og útlit.

Uppruni breyta

Glysþungarokk sækir áhrif sín fyrst og fremst í rokkstjörnuútlit og hegðun hljómsveita eins og Aerosmith, Kiss og AC/DC en einnig í sjokkrokk framkomu persónu eins og Alice Cooper. Stefnan sækir einnig mikil áhrif í bárujárn sem varð til í Bretlandi á áttunda áratugnum með hljómsveitum eins og Judas Priest og Iron Maiden. Leðurklæðnaður og litríkar spandex buxur voru mjög einkennandi fyrir hljómsveitir frá þessari stefnu og glysþungarokksbönd tileinkuðu sér einnig þennan klæðnað.

Meðal fyrstu banda til þess að móta stefnuna voru Van Halen og Def Leppard. Með sviðsframkomu söngvarans David Lee Roth og spilatækni gítarleikarans Eddie Van Halen urðu Van Halen meðal fyrstu hljómsveita til þess að ryðja brautina fyrir upprisu stefnunnar.

Upphaf breyta

Í upphafi níunda áratugarins voru miklar vangaveltur í gangi um hvort þungarokk myndi lifa af sem tónlistarstefna. Með upprisu pönksins og orkunnar sem það innihélt virtist vera sem gamla þungarokkið var að verða úrelt.

Bárujárn eða „New wave of british heavy metal“ reis upp sem mótsvar þungarokksins við pönki og hljómsveitir eins og Iron Maiden, Motörhead og Judas Priest náðu fljótt velgengni í Bretlandi með nýrri, hraðari og kraftmeiri gerð af þungarokki.

Glysþungarokk varð til í Bandaríkjunum og þá sérstaklega í Los Angeles í gegnum Sunset strip senuna. Hljómsveitir eins og Mötley Crue, Twisted Sister og Ratt byrjuðu að blanda saman ýmsum stefnum eins og glysrokki, þungarokki og bárujárni og bjuggu þar með til nýja stefnu. Twisted Sister urðu fljótt þekktir fyrir að klæðast áberandi litríkum og óhefðbundnum fötum til viðbótar við ýmsar snyrtivörur og með sinni fyrstu plötu, Under The Blade (1982), urðu þeir meðal fremstu hljómsveita senunnar. Aðrar hljómsveitir stigu í þeirra spor og fljótt var þetta útlit orðið einkennandi fyrir stefnuna. Mötley Crue urðu fljótt þekktir fyrir að ganga lengra en önnur bönd og fyrir að ná fram sérstaklega öfgakenndum áhrifum með plötum eins og Too Fast For Love (1981) og Shout at the Devil (1983).

Hápunktur breyta

 
Platan Look What the Cat Dragged In með hljómsveitinni Poison var ein af vinsælustu glysþungarokksplötum níunda áratugarins.

Um miðjan níunda áratuginn hafði glysþungarokk náð gífurlegri velgengni um Bandaríkin og víðsvegar. MTV spilaði stóran part í að ryðja brautina fyrir velgengni stefnunnar þar sem stöðin spilaði lög sem útvarpsstöðvar vildu oft ekki spila. Til viðbótar við stóra tónleikaframkomu byrjuðu tónlistarmyndbönd að skipta miklu máli fyrir hljómsveitirnar líka. Hljómsveitin Poison náði miklum vinsældum með plötunni Look What the Cat Dragged In. Hljómsveitin varð mjög umdeild meðal margra fyrir útlit hljómsveitarmeðlima á plötuumslaginu en á því hafði hljómsveitin tekið glysútlitið skrefinu lengra og birst í kvenmannslíki með ögrandi andlitssvipbrigði. Árið 1984 komu Van Halen hljómborð inn í glyssenuna með lagi sínu Jump. Hljómborð áttu eftir að passa fullkomnlega inn í þann popprokksstöðu sem senan var að öðlast þar sem danstónlist sem snerist í kringum synthahljóð var mjög vinsæl á þessum tíma. Einnig átti hljómborðið eftir að leggja grunninn að ballöðunni sem varð vinsælasta tónlistarform síns tíma.

Sænska sveitin Europe náði miklum vinsældum með plötu sinni The Final Countdown og samnefnt lag náði fyrst sæti í sölulista 26 landa. Margar hljómsveitir héldu áfram velgengni sinni með nýjum plötum sem oft hölluðust enn frekar að popphljóði eins og Mötley Crue með Girls, girls, girls (1987) og Dr. Feelgood (1989). Hátindur tímabilsins fellur samt líklegast til útgáfu fyrstu plötu hljómsveitarinnar Guns N' Roses, Appetite for Destruction (1987). Sú plata gaf af sér þrjú lög sem náðu inn á topp tíu lista Bandaríkjanna.

Tónlistarform sem glysþungarokksbönd tileinkuðu sér sem fljótt varð vinsælasta lagaform heims síns tíma. Á þeim tíma þótti þungarokk sem naut meginstraumsvelgengni vera mjög formúlukennt og fyrirsjáanlegt. Ef hljómsveitir vildu að plata þeirra myndi njóti einhverra vinsælda urðu þeir nánast að hafa kraftballöðu á henni. Þetta olli því að mjög mörg formúlukennd bönd stigu upp á sjónarsviðið sem sköpuð voru af hljómplötuframleiðendum. Hápunktur velgengi senunnar var því einnig ástæðan fyrir hruni hennar.

Fall breyta

Undir lok níunda áratugarins var velgengni senunnar farin að líða undir lok. Glysþungarokkið var orðið mjög umdeilt vegna dópnotkunar og spillingar og áhorfendurnir voru farnir að vilja heyra eitthvað annað. þrassþungarokk og grungerokk höfðu notið vaxandi velgengni undir lok níunda áratugarins vegna andstöðu þeirra við ímynd glysþungarokksins. Í stað þess að hugsa ávallt um að ganga sífellt lengra og lengra í ímynd og sviðsframkomu var tónlistin komin aftur á byrjunarreit. Upp var komin meiri eftirsókn fyrir þýðingarfullri tónlist sem hafði meiri kraft í sér en glysþungarokkið.

Mörg glysbönd reyndu að fylgja þessu eftir með því að vera lágstemmdari, litríkir búningar og stórt hár varð sjaldséðara í og staðinn tók við einfaldari ímynd. Hljómsveitin Steelheart er gott dæmi um glysband sem reyndi að breyta ímynd sinni með hverri plötu sem kom. Platan Steelheart kom út árið 1990 og bar keim af mörgum öðrum glysplötum frá níunda áratuginum. Árið 1992 gáfu Steelheart út Tangled in reins sem hafði mun meira viðhorf í takt við Guns N' Roses. Árið 1996 kom síðan út platan Wait sem var mun dimmari en fyrri plötur og hafði í raun margt meira skylt við grunge tónlist en glys. Þrátt fyrir þetta féll glysþungarokkið niður og þegar hljómsveitin Nirvana gaf út plötuna Nevermind árið 1991 tók grunge-rokk við sem vinsælasta rokktónlistarstefna síns tíma.

Upprisa breyta

 
Steel Panther, ein af þeim hljómsveitum sem náður hefur hvað mestri velgengni með glysþungarokki frá aldamótunum.

Frá níunda áratuginum hefur glysþungarokkið notið nokkurra endurreisna. Bon Jovi tókst að ná góðri velgengni árið 2000 með laginu It’s my life. Vince Neil gekk aftur til liðs við Mötley Crue árið 1997 og gaf með þeim út plöturnar New Tattoo (2000) og Saints of Los Angeles (2008). Frá aldamótunum hafa mörg önnur bönd eins og Poison, Skid Row, Cinderella, Quiet Riot, Twisted Sister tekið aftur saman og byrjað að túra aftur um heiminn. Mötley Crue spilaði síðustu tónleika sína á áramótunum 2015/2016.

Tölvuleikir og kvikmyndir hafa ýtt undir endurkomu glysþungarokksins. Þar má meðal annars nefna tölvuleikinn Guitar Hero. Bíómyndin Hot Tub Time Machine endurvakti einnig áhuga fólks á glysþungarokkið. Eftir að myndin kom út jukust til að mynda vinsældir lagsins Home Sweet Home með Mötley Crue.

Í Svíþjóð hefur myndast neðanjarðarsena fyrir glysþungarokk þar sem mörg bönd hafa náð tiltölulegri frægð og spilað á þungarokkshátíðum um allan heim. Meðal þessara hljómsveita má nefna H.E.A.T., Crazy Lixx, Crash Diet, Hardcore Superstar og Vains of Jenna.

Hljómsveitin Steel Panther hefur náð miklum frægðum með því að spila glysþungarokk með textum uppfullum af svörtum húmor og með því að klæða sig upp sem ýkta paródíu af senunni.

Ísland hefur gefið af sér nokkur glysþungarokksbönd eftir aldamótin eins og Mystical Fist,Mystic Dragon og Diamond Thunder sem er sú eina sem enn er starfandi í dag. Enn sem komið er hefur ekkert þeirra þó náð svo langt að gefa frá sér plötu.

Listi yfir glysþungarokkshljómsveitir breyta