Frelsarakirkjan (danska: Vor Frelsers Kirke) er barokkkirkja í Kristjánshöfn í Kaupmannahöfn. Hún er einna helst þekkt fyrir turnspíru sína en hún er spírallaga og er utan á henni stigi svo hægt er að klífa hana upp í topp. Þaðan er stórfenglegt útsýni yfir miðborg Kaupmannahafnar. Kirkjan er einnig þekkt fyrir klukknaspil sitt en það er það stærsta í Norður-Evrópu og leikur það lög á heila tímanum frá átta á morgnana til miðnættis.

Frelsarakirkjan í Kaupmannahöfn

Saga breyta

Þegar Kristján 4. skipulagði Kristjánshafnarsvæðið árið 1617 var Kristjánshöfn ætlað að vera sjálfstæður kaupstaður á eyjunni Amager og því þurfti að byggja þar kirkju. Árið 1639 var vígð kirkja í Kristjánshöfn en henni var einungis ætlað að standa til bráðabirgða. Bygging Frelsarakirkjunnar hófst ekki fyrr en árið 1682 en hún er hönnuð af Lambert von Haven. Kirkjan var vígð þrettán árum síðar, árið 1695, en þá var einungis bráðabirgðaaltari í kirkjunni og turnspíran hafði ekki enn verið byggð. Árið 1732 var komið fyrir endanlegu altari í kirkjunni en ekki var farið að huga að byggingu turnspírunnar fyrr en árið 1747 þegar Friðrik 5. hafði tekið við krúnunni. Arkitektinn Laurids de Thurah tók við verkinu af Lambert van Haven og breytti hann upprunalegri hönnun van Haven og setti fram sína eigin útgáfu af turnspírunni sem var samþykkt af konungi árið 1749. Þremur árum síðar lauk byggingu turnspírunnar og þann 28. ágúst 1752 kleif konungurinn turninn í mikilli athöfn.

Arkitektúr breyta

 
Altaristaflan í Frelsarakirkjunni

Kirkjan er byggð í hollenskum barokkstíl og er grunnhönnun hennar eins og grískur kross, það er að segja með fjóra armana jafn langa. Grunnur kirkjunnar er úr granít og veggirnir úr rauðum og gulum tígulsteinum en þeir mynda óreglulegt mynstur sem er ólíkt því sem tíðkaðist í byggingum Kristjáns 4. en þá voru tígulsteinunum raðað í ákveðna röð. Á enda hvers arms krossins er inngangur nema í austur arminum en þar er skrúðshús kirkjunnar. Aðal inngangurinn er í vestur arminum en það er fyrir neðan turninn.

Altaristaflan breyta

Altaristafla kirkjunnar er verk Nicodemus Tessins og er álitið vera meistaraverk. Hún sýnir mynd úr Lúkasarguðspjalli 22:39-46 þar sem Jesús er í Getsemane. Á milli tveggja súlna er engill að hughreysta Jesú og annar engill hangir í lausu lofti við hlið þeirra með gullinn bikar eða kaleika. Til beggja hliða eru tvær fígúrur af Pietas og Justitias sem tákna einkunnarorð konungsins.

 
Orgelið í Frelsarakirkjunni

Orgelið breyta

Orgelið var byggt á árunum 16981700 af Botzen bræðrunum og er með gylltu fangamarki Kristjáns 5. Orgelið er upp við vegg og er eins og standi ofan á tveimur fílum. Hljóðfærið hefur yfir fjögur þúsund pípur og framleiðir sama hljóð og heyrðist í kirkjunni fyrir yfir 300 árum. Í kirkjunni eru haldnir 15-20 tónleikar árlega ásamt vikulegum guðþjónustum á sunnudögum. Síðasta endurbygging orgelsins átti sér stað 1965 og voru eldri pípur endurnýttar. Á framhlið orgelsins er margbrotinn og flókinn útskurður með brjóstmynd Kristjáns 5. í miðjunni.

Kirkjuturninn breyta

Kirkjuturninn og turnspíran er eitt af aðaleinkennum kirkjunnar. Sjálfur kirkjuturninn er þrjár hæðir og eru þær aðgreindar með múrbrún sem verður stærri eftir því sem hærra er litið. Á öllum fjórum hliðum hverrar hæðar eru bogadregnir gluggar og á efstu múrbrúninni hefur verið komið fyrir giltri klukku á hverri hlið. Vísarnir klukknanna eru svo tengdir gangverki inni í turninum.

Turnspíran breyta

Ofan á kirkjuturninn hefur verið reist svört og gyllt turnspíra sem nær upp í 90 metra hæð. Spíran er byggður úr timbur ramma. Í grunninn er spíran átthyrningslaga og skreyttur mörgum gylltum gluggum. Í kringum grunninn, á fjórum hornum kirkjuturnsins standa fjórar styttur af guðspjallamönnunum. Á ofanverðum grunninum er lítill hringlaga pallur sem er girtur með gylltu grindverki. Frá þessum palli verður stigi kirkjuturnsins utanáliggjandi, en hann liggur rangsælis utan á spírunni líkt og á fyrirmynd hönnunarinnar sem kemur frá spíral turni Sant'lvo alla Sapienza sem einnig snýr rangsælis. Að toppi spírunnar eru fjögur hundruð þrep og þar af eru 150 þeirra að utanverðu.

Á toppi spírunnar er rúmlega fjögurra metra hár gyltur skúlptúr eftir koparsmiðinn Jacob Høvinghof. Skúlptúrinn hefur það vafasama orðspor að vera ljótasti skúlptúr Kaupmannahafnar en hlutföll skúlptúrsins voru vísvitandi ýkt þar sem verkið átti bara að sjást úr fjarska.

 
Turnspíra Frelsarakirkjunnar

Mýtan breyta

Það hefur verið langlíf mýta að arkitektinn sem hannaði turnspíruna, Laurids de Thurah, hafi fyrirfarið sér með því að hoppa af toppi spírunnar þegar hann hafði uppgötvað að hann snerist í ranga átt eða rangsælis. Það er alls ekki sannleikanum samkvæmt þar sem það er skráð að Thurah lést í kjölfar veikinda sjö árum eftir byggingu spírunnar. Það eru ekki til nein sagnfræðileg gögn sem styðja það að hann né Friðrik 5. danakonungur hafi verið óánægðir með verkið.

Klukknaspil breyta

Í turni kirkjunnar má finna forlátt klukknaspil sem upphaflega var komið þar fyrir á árunum 1928-32. Fyrst voru settar upp 33 minni kirkjuklukkur og svo seinna bætt við ellefu stærri klukkum. Stærst þeirra er sögð vera um 3600 kíló, sú minnsta 10 kíló og samanlögð þyngd alls verksins um sextán tonn. Árið 1953 var nokkrum af smærri klukkunum skipt út fyrir 15 nýjar þannig að samanlagður fjöldi varð 47. Allt klukknaverkið var svo endurnýjað árið 1981 með 48 klukkum frá Petit & Fritsen í Hollandi. Klukknaspilið hefur tónsvið fjórar áttundir, sem gerir það að stærsta klukknaspili í Norður-Evrópu. Það spilar sjálfvirkt á heila tímanum frá klukkan átta að morgni til klukkan 12 að miðnætti.

Byggingarsaga breyta

Kirkjan var vígð árið 1695. Það tók fjórtán ár að byggja hana. Allt svæðið undir henni er uppfylling úr sjónum og því tók langan tíma að byggja grunninn. Af dönskum sið er kirkjan griðalega stór. Hæðinn upp að þaksperrunni eru 36 metrar. Veggirnir og fjórar stoðir eru grafnar í skurði langt niður í jörðu.

Krikjan var hönnuð af Lambert von Haven. Fyrst var aðeins komið fyrir bráðabirgða altari en nýtt altari kom ekki fyrr en árið 1732. Orgelið var byggt árin 1698 – 1700 af Botzon bræðrum. Orgelið hefur reglulega verið endurbyggt síðan en sú síðasta átti sér stað 1965. Turninn var byggður á þremur hæðum með klukku á öllum fjórum hliðum.

Árið 1749 var turnspíran byggð af Laurids de Thurah sem tók við hönnun Lambert og gerði að sínu. Hún var vígð árið 1752 með mikilli athöfn eða um 50 árum eftir að kirkjan var tekin í notkun. Milli 1922 til 1933 voru framlög gefin bæðir fá borgurum og Calsberg Foundatina til að setja upp 33 bjöllur í spíruna. Seinna voru þeim fjölgað í 48 bjöllur.

Enn í dag er verið að laga og bæta kirkjuna. Árið 2009 var henni lokað í nokkurn tíma og gerðar miklar endurbætur. Það var lagað gólfið sem hafði aldrei almennilegan grunn. Sett upp sérstaka glugga sem að gefa fá sér sérstakt ljós og einnig var lagað rafmagnið og hita. Alltaf er verið að endurbyggja þar sem eru greinileg slit, aðallega þar sem almenningur hefur aðgang að.

Heimildir breyta

Fyrirmynd greinarinnar var „Church of Our Saviour, Copenhagen“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 18. apríl 2012.