Flatkaka [1]eða flatbrauð [2] er þunnt, kringlótt íslenskt brauð, áður alltaf bakað án lyftiefna og eingöngu úr rúgmjöli (þó stundum líka byggi) og vatni. Nú eru flatkökur yfirleitt bakaðar úr blöndu af rúgmjöli og heilhveiti eða heilhveiti eingöngu og stundum er einnig notast við haframjöl og lyftiduft. Sumir notast jafnvel við sykur í deigið.

Flatkökurnar eru oftast um 15 cm í þvermál og 2-3 mm á þykkt, brúnleitar með svörtum flekkjum. Upphaflega voru þær bakaðar á hlóðum, annaðhvort settar beint á glóðina eða bakaðar á járnplötu sem sett var ofan á glóðina. Seinna, þegar eldavélar komu til sögunnar, voru kökurnar bakaðar á eldavélarhellu og nú eru þær oft bakaðar á steypujárnspönnu og staflað upp heitum eða jafnvel snöggbleyttar í vatni svo að þær harðni ekki.

Flatkökur eru oftast skornar í tvo, fjóra eða sex hluta og borðaðar með smjöri og hangikjöti, kæfu, reyktum laxi, osti, saltsíld eða öðru áleggi. Fram um miðja 20. öld voru þær þó yfirleitt aðeins smurðar með einhverju viðbiti og hafðar með mat.

Hallgerður Gísladóttir segir frá því í bókinni Íslensk matarhefð að fram yfir aldamótin 1900 hafi á Vestfjörðum verið bakaðar fyrir jólin flatkökur sem voru 25-30 sentímetrar í þvermál og meira en einn sentímetri að þykkt og var jólamaturinn skammtaður á þær og þær notaðar sem diskur, eins og algengt var í Evrópu á miðöldum.

Tengt efni breyta

Tilvísanir breyta

  1. „Ritmálssafn Orðabókar Háskólans“. Afrit af upprunalegu geymt þann 12. apríl 2016. Sótt 17. janúar 2021.
  2. „Ritmálssafn Orðabókar Háskólans“. Afrit af upprunalegu geymt þann 12. apríl 2016. Sótt 17. janúar 2021.

Heimildir breyta

   Þessi Íslandsgrein sem tengist mat eða drykk er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.