Fetlar er eyja á Hjaltlandseyjum og heyrir undir Skotland. Hún tilheyrir þeim hluta eyjanna sem eru kallaðar Norðureyjar og er að flatarmáli sú þriðja stærsta, eða um 41 ferkílómetri. Íbúar eru um 60 talsins og búa flestir í smáþorpinu Hubie á suðurströndinni.

Í Hubie er Fetlar Interpretive Centre, sem er safn um sögu eyjarinnar. Árið 2000 fékk safnið verðlaun fyrir sýningu helgaða minningu Sir William Watson Cheyne (1852-1932), læknis sem var brautryðjandi í kviðarholsaðgerðum og í sóttvörnum við uppskurði, auk þess að gera viðamiklar rannsóknir á virkni túberkúlíns, fyrstur breskra lækna. Watson var aðlaður (barónet) árið 1908, var heiðurslandstjóri („lord lieutenant“) Bretakonungs á Orkneyjum og Hjaltlandseyjum frá 1919-1930 og eyddi ellinni á Fetlar.

Norðurhluti eyjarinnar er fuglafriðland í umsjá Konunglega fuglaverndunarfélagsins, en þar lifa meðal annars kjóar, spóar og óðinshanar, þeir síðastnefndu helst í grennd við Funzie-vatn, sem er mikilvægasti mökunarstaður óðinshana á Bretlandseyjum, og um tíma sá eini. Frá sjöunda áratugnum og fram á þann níunda hafðist par af snæuglum við á friðlandinu, en er horfið á braut.

Ferjur sigla frá Hamarsnesi á Fetlar til Gutcher á eyjunni Yell og til Belmont á eyjunni Únst.

Ekki er vitað hvað nafn eyjarinnar þýðir, en talið er að það gæti verið komið úr tungumáli Pikta.

Tenglar breyta