Dómkirkjan í Konstanz

Dómkirkjan í Konstanz (einnig kölluð Frúarkirkjan) er elsta bygging borgarinnar Konstanz í Þýskalandi sem enn er í notkun. Elstu hlutar hennar eru frá árinu 1000. Kirkjan var notuð sem aðalsalur kirkjuþingsins mikla 1414-1418.

Dómkirkjan í Konstanz var notuð fyrir kirkjuþingið mikla 1414-1418.

Saga dómkirkjunnar breyta

Forsaga breyta

Fyrirrennari dómkirkjunnar var sennilega reist 585-590. Sú kirkja var einnig dómkirkja og var mikilvæg miðstöð fyrir kristniboð meðal germana. Á fyrri hluta 9. aldar var sú kirkja rifin og var þá reist ný kirkja. Um 1000 var sú kirkja stækkuð og var þá meðal merkustu rómanskra kirkna í suðurhluta Þýskalands. En kirkja þessi hrundi 1052 af ókunnum ástæðum. Talað er um jarðskjálfta og galla í byggingu.

Byggingasaga breyta

Strax var hafist handa við að reisa nýja kirkju. Notaðir voru nokkrir gömlu múranna, en að öðru leyti var kirkjan nýbygging. Framkvæmdir gengu hægt fyrir sig, þar sem biskuparnir á þeim tíma voru uppteknir við staðarmálin í héraðinu. Kirkjan var vígð 1089 og helguð Maríu mey, heilögum Pelagíusi og heilögum Konrad frá Konstanz. Dómkirkjan var salarkirkja á þeim tíma og samanstóð af einu langskipi og tveimur þverskipum. Engir turnar voru á henni. Dómkirkjan var miðstöð lærdóms á miðöldum. Þangað streymdu munkar frá hinum ýmsu reglum til að stunda nám. Við hlið kirkjunnar var aðsetur biskupanna. Árið 1100 var hafist handa við að reisa turna. Þeir áttu að vera tveir, enda var það siður hjá dómkirkjum. Turnarnir voru því sem næst samvaxnir og ekki með þakkrónu. 1128 hrundi norðurturninn niður og varð því að reisa hann frá grunni. Enn gengu framkvæmdir hægt og voru turnarnir ekki fullgerðir fyrr en 1378. Báðir fengu þeir flöt blýþök.

Kirkjuþingið mikla breyta

1414 kallaði Sigismund keisari saman kirkjuþing kaþólsku kirkjunnar. Höfuðmálin voru tvenn. Í fyrsta lagi að jafna klofning kirkjunnar, en á þessum tíma voru þrír starfandi páfar samtímis. Í öðru máli að leysa úr Hússítastríðinu í Bæheimi. Til þessa þing mættu keisarinn sjálfur, Jóhannes XXIII páfi (hinir tveir neituðu að mæta), kardinálar, erkibiskupar og biskupar, ásamt trúfræðingum, verkafólki og þjónustuliði. Þetta voru þúsundir manna. Dómkirkjan var aðalfundarstaður, en í henni voru haldnir 45 aðskildir fundir eða ráðstefnur næstu fjögur árin. Í þeim voru haldnar um 200 trúarræður. Á einum fundinum var trúarleiðtoginn Jan Hus dæmdur til dauða sem trúníðingur. Hann var síðan brenndur á báli á torginu fyrir utan. Páfadeilan var leyst á fundi í kirkjunni með því að ríkjandi páfar voru settir af og ákveðið að velja nýjan páfa. Páfakjörið fór þó ekki fram í kirkjunni sjálfri, heldur í húsi einu nálægt höfninni og hefur síðan hlotið heitið Kirkjuþingshúsið (Konzilgebäude). Nýr páfi varð Oddo di Colonna frá Ítalíu, sem valdi sér heitið Martin V. Hann var síðan boðaður í dómkirkjuna, þar sem hann hlaut fyrst prestvígslu og síðan biskupavígslu. Páfavígslan fór síðan fram á torginu fyrir utan. Þetta er eina páfakjörið sem fram hefur farið norðan Alpa.

 
Dómkirkjan 1819. Miðturninn er ekki kominn.

Siðaskiptin breyta

1526 var biskupinn rekinn úr borginni vegna áhrifa af siðaskiptunum. Það voru endalok kirkjunnar sem dómkirkja. Siðaskiptin voru formlega framkvæmd ári síðar og var kirkjunni breytt í lúterska sóknarkirkju. Öll verðmæti hennar og listaverk voru tekin. Sum voru brædd, önnur seld og enn öðrum fleygt í Rínarfljót. Þannig glötuðust t.d. 60 ölturu úr kirkjunni fyrir fullt og allt. 1548 neytt Karl V keisari borgarbúa til að taka upp kaþólska trú á nýjan leik. Kirkjan var þá endurvígð sem kaþólsk kirkja og er hún það enn í dag.

Nýrri tímar breyta

1850 fékk kirkjan nýjan turn. Hann var settur á milli gömlu turnanna, sem báðir fengu lítið hvolfþak. Þannig hækkaði kirkjan talsvert og er nú 78 metra há.

 
Gröfin helga
 
Jesús á gulldiski

Listaverk og fróðleikur breyta

Mauritiuskapellan breyta

Mauritiuskapellan (Mauritiusrotunde) er lítil kapella sem upphaflega stóð fyrir aftan dómkirkjuna, en er samföst henni í dag. Það var biskupinn Konrad frá Konstanz sem lét reisa hana eftir seinni för sína til Jerúsalem árið 940. Kapellan öll er 11 metra í þvermál, en í miðju hennar er eftirmynd af gröf Jesú. Gröfin er einnig hringlótt. Hún er 2,43 metra í þvermál og 4,65 metra há. Hún var smíðuð um 1260 og var sennilega upphaflega úr gulli eða gullhúðuð. Mýmargar styttur eru á hringnum, m.a. af postulunum.

 
Abraham heldur á predikunarstólnum

Grafhvelfing breyta

Grafhvelfing dómkirkjunnar er elsti hluti byggingarinnar. Hún tilheyrði fyrirrennara dómkirkjunnar, sem hrundi 1052. Í hvelfingu hvílir þó aðeins heilagur Pelagíus, sem varð píslarvottur á 6. öld. Líkamsleifar hans voru sett í kirkjuna á 10. öld, jafnvel fyrr. Þær eru geymdar í steinkistu. Ef til voru leifar annarra í hvelfingunni fyrir siðaskiptin, áður en verðmæti og listaverk voru fjarlægð. Í grafhvlfingunni eru fjórir gullslegnir diskar frá miðöldum. Sá stærsti þeirra er 194 cm í þvermál og sýnir Jesú skegglausan. Hinir þrír diskarnir eru yngri og minni. Þeir eru frá 12. eða 13. öld og eru 90-94 cm í þvermál. Þeir eru til heiðurs dýrlingunum Konrad frá Konstanz og Pelagius, sem báðir voru biskupar í dómkirkjunni áður fyrr. Fjórði diskurinn er með örn, en hann er tákn Jóhannesar guðspjallamanns. Diskarnir voru allir fjarlægðir 1973 og settir á safn. Í grafhvelfingunni eru eingungis eftirmyndir.

Predikunarstóll breyta

Gamli predikunarstóllinn var eyðilagður í siðaskiptunum. Núverandi stóll er frá 1680 og er úr hnetuviði. Stór og klunnaleg stytta af Abraham heldur stólnum uppi. Á 18. öld héldu menn að þetta væri Jan Hus sem brenndur var á báli 1414 á kirkjuþinginu mikla. Sannleikurinn kom ekki í ljós fyrr en á fyrrihluta 19. aldar. Á fjórða áratug 19. aldar var styttan notuð fyrir auglýsingu um kirkjuþingið mikla. Eftir notkunina var hún, ásamt öðru dóti, urðuð. Hún fannst ekki fyrr en löngu seinna og var sett á sinn stað aftur undir predikunarstólinn 1986.

Kirkjuklukkur breyta

Samtals eru 19 bjöllur í turnum dómkirkjunnar. Þær vega samanlagt 35 tonn. Þar með eru þær næstþyngsta klukknaverkið í Þýskalandi, á eftir dómkirkjunni í Köln.

Heimildir breyta

Fyrirmynd greinarinnar var „Konstanzer Münster“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt janúar 2010.