Dómkirkjan í Coventry

Dómkirkjan í Coventry (e. Coventry Cathedral eða St. Michael‘s Cathedral) er helsta kennileitið í ensku borginni Coventry. Hún gjöreyðilagðist í loftárásum 1940. Aðeins turninn og ytri veggirnir stóðu eftir. Rústirnar eru friðaðar og er staðurinn nánast helgur í augum margra Breta. Dómkirkjan er í raun og veru þrjár kirkjur sem tóku við af hver annarri.

Dómkirkjan eyðilagðist í loftárásum 1940

Fyrsta kirkjan breyta

Það var Leofric, jarlinn af Mercia, og eiginkona hans, Lafði Godiva, sem stofnuðu munkaklaustur 1043 í Coventry. Þá var kirkja reist og helguð Maríu mey. Kirkja þessi varð að dómkirkju 1102 er biskupinn Robert de Limesey flutti biskupssetur sitt til Coventry. Kirkja þessi var rifinn er Hinrik VIII sagði sig úr sambandi við kaþólsku kirkjuna á 16. öld. Þetta var eina dómkirkjan í Englandi sem var rifin í sambandi við siðaskiptin þar í landi. Aðeins einn turnanna var látinn standa eftir og var hann notaður sem íbúðarhús og síðar sem skóli. Einnig sér í grunn þessarar kirkju, sem og í einn lítinn vegg. Eftir siðaskiptin fram til ársins 1918 var engin dómkirkja í Coventry.

Önnur kirkjan breyta

 
Járnkrossinn í rústunum

Önnur kirkjan sem þjónaði sem dómkirkja var reist síðla á 14. öld og snemma á þeirri 15. og var helguð heilögum Mikjáli (St. Michael). Kirkjan var ein allra stærsta sóknarkirkja Englands í nokkrar aldir. Turninn er 90 metra hár og er hæsta mannvirkið í borginni. Jafnframt er kirkjan þriðja hæsta kirkja Englands, á eftir dómkirkjunum í Salisbury og í Norwich. 1918 varð Coventry biskupssetur á ný og varð Mikjálskirkjan þá að dómkirkju. En í loftárásum Þjóðverja 14. nóvember 1940 brann kirkjan og eyðilagðist. Aðeins turninn og ytri veggirnir stóðu eftir. Rústir kirkjunnar fengu að standa uppréttar og líta margir Bretar á þær sem helg jörð. Turninn og rústirnar eru friðaðar í dag. Þau standa sem minnisvarði um hörmungar stríðsins. Innst í rústunum hefur járnkross verið settur upp. Eftir loftárásirnar sá steinsmiðurinn Jock Forbes tvo járnbúta liggja í kross og ákvað að binda þá saman. Afsteypa var gerð af þessum krossi og sett upp í kirkjurústunum sem minnismerki um stríðið.

Þriðja kirkjan breyta

 
Þriðja kirkjan. Myndin er tekin úr turni rústanna.

1950 var háð samkeppni um afdrif rústanna og byggingu nýrrar dómkirkju. Rúmlega 200 hugmyndir bárust og sigraði hugmynd Basil Spence og Arup-hópsins. Hugmyndin var sú að viðhalda rústunum sem minnisvarða um stríðið og að reisa nýja kirkju beint við hliðina. Hafist var handa við verkið 23. mars 1956 er Elísabet drottning lagði grunnsteininn. Nýja kirkjan var svo vígð 1962. Spíran var sett á turninn með aðstoð þyrlu. Spence var síðar aðlaður fyrir verkið. Kross var gerður úr þremur nöglum sem áður voru í þaki gömlu kirkjunnar við hliðina. Hann var settur á altari og er orðinn að tákni friðar og sætta í heiminum. Ýmsir aðrir merkisgripir eru í nýju kirkjunni. Má þar nefna skírnarfont úr óhöggnu grjóti frá Betlehem og stórt reifi af Jesú sem fyllir nær heilan vegg.

Fleiri naglakrossar breyta

Í dag eru rúmlega 160 krossar til sem gerðir voru úr nöglum bygginga sem sprengdar voru í stríðinu. Einn krossinn sem gerður var úr nöglum kirkjunnar í Coventry var gefinn til Kaiser-Wilhelm-Gedächtniskirche í Berlín, en rústir hennar eru einnig stríðsminnisvarði. Slíkir krossar voru einnig settir í öll bresk herskip sem báru heitið HMS Coventry. Einu slíku var sökkt í Falklandseyjastríðinu 1982. Kafarar björguðu krossinum og skipstjórinn, ásamt nokkrum áhafnarmeðlimum, afhenti hann dómkirkjunni í Coventry. Krossinn er nú í skipinu HMS Diamond, sem tengist borginni Coventry.

Heimildir breyta