Brimbrettarokk (Surf Rock(en)) er tegund vinsællar tónlistar sem tengist brimbrettamenningu, sem á aðallega rætur sínar að rekja til Orange sýslu og fleiri staða í Suður-Kaliforníu. Brimbrettarokk var sérstaklega vinsælt á árunum 1961-1966. Frumkvöðull þess var gítarleikarinn Dick Dale(en), en hann er af mörgum talinn hafa gefið út fyrsta brimbrettarokk lagið. Frægasta hljómsveitin sem fellur undir þessa tegund tónlistar er hljómsveitin The Beach Boys, sem er flestum kunnug. Brimbrettarokk skiptist í þrjá flokka en það getur ýmist verið spilað einungis á hljóðfæri (instrumental(en)), þ.e. með engum söng, eða með vel útsettum samhljóma röddum ásamt hljóðfærum og síðast en ekki síst er til svokallað „Hot rod“ rokk, sem fellur víst undir brimbrettarokkið. Aðaleinkenni brimbrettarokksins er þó rennblauta bergmál (reverb(en)) gítarhljómsins sem eiga að hljóma eins og öldur hafsins.[1] Brimbrettarokk hefur aldrei náð neinum hæðum á Íslandi og þekkist ekki til neinna íslenskra hljómsveita sem eru þekktar fyrir að spila einungis brimbrettarokk en eru þó til dæmi um sveitir sem eru undir einhverjum áhrifum þess.

Upphaf brimbrettarokks breyta

Dick Dale breyta

 
Dick Dale

Flestir telja Dick Dale(en) vera frumkvöðul brimbrettarokks en hann var oft kallaður „Konungur brimbrettagítarsins“. Hann fæddist í Boston Massachusetts árið 1937. Foreldarar hans voru frá Líbanon og Póllandi en Dale ólst upp við að hlusta á þjóðlagatónlist frá báðum þessum löndum sem hafði mikil áhrif á það hve melódískur hann var og einnig hvaða tækni hann beitti þegar hann spilaði á hljóðfæri. Snemma byrjaði hann sjálfur að læra á hljóðfæri og lærði fyrst að spila kántrý lög á ukulele en fræði sig fljótlega yfir á gítarinn.[2] Árið 1954 flutti hann ásamt fjölskyldu sinni til Suður-Kaliforníu. Þar kom hann fyrst fram á hæfileikakeppni þar sem hann spilaði „Rokkabillý“ lög. Eftir að hafa búið þarna í einhvern tíma fékk Dale(en) gríðarlega mikinn áhuga á brimbrettum og fannst fátt skemmtilegra en að skjótast út í sjóinn og brjóta öldur með brimbrettinu sínu. Að fara út í sjó á brimbretti var ekki nóg fyrir hann vegna þess að hann fór fljótlega að reyna herma eftir hljóðinu og tilfinningunni sem hann upplifði við að stunda þessa íþrótt á gítar. Dale náði að lokum að þróa sérkennandi hljóð og eftir að hafa spilað reglulega í sínum heimabæ fyrir þúsund manns í senn og öðlast örlitla frægð gaf hann út lagið „Let’s Go Trippi’n“, en það er talið vera fyrsta brimbrettalagið sem gefið var út.[3]

Lagið „Let’s Go Trippi’n“ sló rækilega í gegn í heimabæ Dales og náði fljótlega gríðarlegum vinsældum á landsvísu. Dale(en) lét ekki slag standa og gaf þá út fleiri lög en meðal þeirra var lagið „Surf Beat“. Árið 1962 gaf Dick Dale(en) út sína fyrstu plötu en hún bar nafnið „Surfer’s Choise“.[4] Platan seldist eins og heitar lummur í Suður-Kaliforníu og var að sjálfsögðu mikil bylting fyrir tónlistina á þessum tíma. Í kjölfar plötunnar fékk Dale(en) plötusamning við stórt plötufyrirtæki og gaf út þrjár plötur til viðbótar fram til ársins 1965.[5]

Sungið brimbrettarokk breyta

Sungið brimbrettarokk er vinsælasta form brimbrettarokks en það varð fyrst gríðarlega vinsælt árið 1962. Ólíkt tónlist Dick Dale(en), sem einungis var spiluð á hljóðfæri, var þetta form sungið og oftar en í ekki í flóknum samhljómum þriggja eða fleiri radda. Einhverjar hljómsveitir voru farnar að gefa út sungið brimbrettarokk en þær náðu aldrei jafn miklum vinsældum og hljómsveitin The Beach Boys, sem náði ótrúlegum vinsældum á stuttum tíma og er þekktasta brimmbrettarokks hljómsveit heims.[6]

 
The Beach Boys á tónleikum árið 2012

The Beach Boys breyta

Hljómsveitin The Beach Boys var stofnuð árið 1961 á Suður-Kaliforníu af bæðrunum Brian Wilson, Dennis Wilson og Carl Wilson. Þeir ólust upp aðeins nokkrum kílómetrum frá sjónum en þrátt fyrir það var það aðeins Dennis sem hafði áhuga á brimbrettum. Þeir bræður höfðu mikinn áhuga á söng og æfðu sig oft að syngja samhljóma þegar þeir voru ungir en Brian hafði brennandi áhuga á flóknum söngröddum líkt og var undir miklum áhrifum frá hljómsveitunum The Four Freshmen og The Hi-Lo’s. Wilson bræðurnir fengu frænda sinn, Mike Love, og vin sinn úr skólanum, Al Jardine, til liðs við sig og saman kölluðu þeir sig The Beach Boys.[7]

Sama ár og hljómsveitin var stofnuð gáfu þeir út sitt fyrsta lag sem hét „Surfin’“. Lagið fékk spilun í útvarpi sem orsakaði það að þeir fengu plötusamning við plötufyrirtækið Capitol og varð faðir Wilson bræðranna sjálfskipaður umboðsmaður hljómsveitarinnar. Ári síðar, eða um mitt árið 1962, gaf hljómsveitin frá sér sína fyrstu plötu, „Surfin’ Safari“.[8] Titillag plötunnar komst á topp 20 Billboard listann og varð til þess að brimbrettarokkið blómstraði enn meira á þeim slóðum. Í lok ársins 1963 var hljómsveitin búin að gefa út þrjár plötur, komast mörgum sinnum á topp 10 Billboard listann og halda tónleika víðsvegar. Einnig hafði Brian Wilson þroskast mikið sem lagahöfundur en hann var farinn að víkka sjóndeildarhringinn frá hefðbundnu og einföldu brimbrettarokki og útsetningar hans á söngröddum höfðu tekið miklum framförum.

Árið 1964 náði hljómsveitin í fyrsta skipti sæti númer eitt á Billboard listanum með laginu „I Get Around“ sem allir ættu að kannast við. Lagið er frægt fyrir flókna samhljóma söngradda en það var títtnefndur Brian Wilson sem sá um að útsetja þær.[9] Með laginu rauk upp sala á plötum sveitarinnar, en platan „Beach Boys Concert“ sat í fjórar vikur á toppi mest seldu platna í Bandaríkjunum.[10] Þessar vinsældir gáfu þeim tækifæri á að fara í tónleikaferð til Evrópu, enda orðnir frekar þekktir víðsvegar um heiminn, en í lok árs 1964 var pressan og álagið orðið of mikið fyrir forsprakkann Brian að hann ákvað að hætta að ferðast með hljómsveitinni sinni og fékk félaga sinn, Bruce Johnston, til þess að fara í staðinn fyrir sig í allar tónleikaferðir. Hljómsveitin átti síðan eftir að gefa út fullt af fleiri plötum [11]


„Hot Rod“ rokk breyta

„Hot Rod“ rokk er eitt forma brimbrettarokks og er keimlíkt venjulegu brimbrettarokki fyrir utan eitt atriði, þ.e. „Hot Rod“ rokk lög innihalda vélarhljóð úr bílum og ískrandi dekkjarhlóð, svo dæmi séu tekin. The Beach Boys og fleiri sungu alveg um bíla en það flokkaðist alls ekki undir „Hot Rod“ rokk. Þetta form brimbrettarokks varð aldrei vinsælt en var samt sem áður ákveðin költ byljga síns tíma þar sem ákveðinn hópur hélt upp á lögin. „Hot Rod“ rokk fjaraði fljótlega út en þegar geisladiskurinn var fundinn upp og tröllreið markaðnum var vinsælt hjá plötu unnendum að næla sér í nokkar „Hot Rod“ rokk plötur.[12]

Erlent brimbrettarokk breyta

Eskimóarnir breyta

Eins og fyrr varð brimbrettarokk til í Suður-Kaliforníu og varð mjög vinsælt í Bandaríkjunum og þá sérstaklega hljómsveitin The Beach Boys. Í Grænlandi árið 1964 var stofnuð brimbrettarokks hljómsveit en það telst mjög skrítið vegna þess að fáir staðir í heiminum eru jafn ólíkir Suður-Kaliforníu og Grænland og hvergi nærri eins mikil brimbrettamenning. Það voru fjórir skólabræður í Realskolen í Nuuk (hét þá Godthåb) sem stofnuðu hljómsveitina The Eskimo’s, eða Eskimóarnir, í byrjun árs 1964. Hljómsveitarmeðlimir voru þeir Barsilaj „Morpak“ Danielsen, sem spilaði á gítar og söng, Jakob „Arngo“ Petersen, sem spilaði einnig á gítar, Johannes „Orre“ Jonassen, bassaleikari, og Peter 0. Petersen sem sá um trommuslátt.

Frá stofnun sveitarinnar og til ársins 1966 tóku Eskimóarnir þátt í mörgum tónlistarkeppnum og urðu fljótlega ein helsta rokkhljómsveit Grænlendinga. Tveimur stofnendum sveitarinnar var þó skipt út með stuttu millibili en gítarleikarinn Arngo flutti til Danmerkur og var fenginn Jonas Berthelsen í staðinn en stuttu síðar var Orre rekinn úr sveitinni og bróðir Jonasar fenginn í staðinn, Jonathan Berthelsen. Eskimóarnir nutu það mikilla vinsælda að þeir voru fengnir til þess að spila fjórum sinnum í viku á barnum Alegamut í Nuuk ásamt því að þeir fóru tvisvar seinnum í tónleikaferð um Grænland á árunum 1964-1965. En í apríl 1968 hættu Eskimóarnir skyndilega en skildu þó eftir sig tvær ónefndar plötur. Trommari sveitarinnar, Peter Petersen, var sá eini sem hélt áfram í tónlistinni og hefur verið að flytja frumsamda þjóðlagatónlist við grænlenska texta og hefur meira að segja haldið tónleika á Íslandi.[13]

Tilvísanir breyta

  1. „Surf“. Sótt 2. mars 2013.
  2. „Dick Dale“. Sótt 3. mars 2013.
  3. „Let's Go Trippin'. Sótt 3. mars 2013.
  4. „Surfer's Choise“. Sótt 3. mars 2013.
  5. „Dick Dale“. Sótt 3. mars 2013.
  6. „Vocal Surf Pop“. Sótt 5. mars 2013.
  7. „The Beach Boys“. Sótt 5. mars 2013.
  8. „Surfin' Safari“. Sótt 17. mars 2013.
  9. „I Get Around“. Sótt 17. mars 2013.
  10. „Beach Boys Consert“. Sótt 17. mars 2013.
  11. „The Band“. Sótt 17. mars 2013.
  12. „Hot Rod Rock“. Sótt 11. mars 2013.
  13. „Eskimóarnir: Grænlenska brimbrettarokksveitin“. Sótt 1. mars 2013.

Heimildir breyta