Breda er borg í héraðinu Norður-Brabant í Hollandi og er með 180 þúsund íbúa.

Fáni Skjaldarmerki
Upplýsingar
Hérað: Norður-Brabant
Flatarmál: 129,15 km²
Mannfjöldi: ca 180.000 (2017)
Þéttleiki byggðar: 1.351/km²
Vefsíða: www.breda.nl[óvirkur tengill]
Lega
Staðsetning Eindhoven í Hollandi

Lega og lýsing breyta

Breda liggur mjög sunnarlega í Hollandi og aðeins steinsnar fyrir norðan belgísku landamærin. Næstu borgir eru Tilburg til austurs (20 km), Rotterdam til norðurs (50 km) og Antwerpen í Belgíu til suðvesturs (55 km).

Fáni og skjaldarmerki breyta

 
Fljótahöfnin í Breda

Fáni Breda samanstendur af þremur hvítum krossum á rauðum grunni. Hér er um Andrésarkrossa að ræða en borgin tók merkin upp frá belgísku borginni Schoten á 12. öld. Fáninn var þó ekki formlega tekinn upp fyrr en 1952. Skjaldarmerki Breda sýnir fánann með Andrésarkrossana en þeir eru elstu hlutar merkisins. Ljónin, engillinn og borgin eru síðari tíma viðbætur.

Orðsifjar breyta

Breda stendur við samflæði ánna Aa og Mark, og er Aa ívið breiðari. Breda merkir hin breiða Aa (bred = breiður, a = Aa).

Saga Breda breyta

Upphaf breyta

1125 kom borgin Breda fyrst við skjöl og var þá bær. Á 11. öld var Breda lén þýska ríkisins, en hlaut borgarréttindi 1252. Eftir það var hafist handa við að reisa varnarmúra umhverfis borgina, enda var borgin á mikilvægum verslunarleiðum. Í upphafi 15. aldar komst borgin í eigu Nassau-ættarinnar. Því varð það svo að greifinn frá Breda var jafnframt landstjóri Hollands, Sjálands og Utrecht, sem og leiðtogi hollensku uppreisnarinnar gegn Spáni.

Frelsisstríðið breyta

 
Uppgjöf Breda 1625. Til hægri tekur Spinola við uppgjafaskjalinu. Málverk eftir Diego Velázquez.

1534 braust út eldur í borginni sem varð að miklum borgarbruna. Um 90% allra húsa í Breda eyðilögðust, þar á meðal kirkjur og ráðhúsið, en þar voru tæplega 1300 hús. Aðeins 150 hús stóðu eftir uppi. 16. febrúar 1566 undirrituðu 16 greifar og heldri menn í borginni Breda bænaskjal til Filippusar II Spánarkonungs um meira trúfrelsi og afnám rannsóknarréttarins. Skjal þetta markar upphafið að sjálfstæðisstríði Niðurlanda gegn Spáni. 1575 var undirritaður friðarsamningur milli Niðurlanda og Spánar í Breda. Samningur þessi hélt aðeins í nokkur ár en 1581 hertóku Spánverjar borgina eftir stutt umsátur. Borgarráð samþykkti að gefast upp með því skilyrði að borgarbúum yrði hlíft. Þrátt fyrir að Spánverjar samþykktu þetta, gaf fyrirliðið þeirra, Claude de Berlaymont, herliði sínu leyfi til að ræna og rupla í borginni. Þegar uppi var staðið var búið að drepa 500 íbúa og borgarbúar rændir eigum sínum. Máritz frá Óraníu náði að endurheimta borgina úr höndum Spánverja árið 1590. Til þess notaði hann þá aðferð að fela 70 hermenn í báti, hlaðinn torfi, en undir því földust mennirnir. Báturinn flaut niður ána Aa og inn í borgina. Þar spruttu mennirnir fram og opnuðu borgarhliðin fyrir meginherinn. 1625 sátu Spánverjar undir stjórn Ambrosio Spinola aftur um borgina í 30 ára stríðinu. Umsátur þetta stóð yfir í níu mánuði, en borgin féll 2. júní. Friðrik frá Óraníu endurheimti borgina 1637 eftir ellefu vikna umsátur. Þar með varð Breda endanlega hollensk.

Borg Karls II breyta

 
Breda árið 1653. Fyrir miðju má sjá í ána Aa sem rennur í gegnum borgina.

Á sjötta áratug 17. aldar var var enski konungurinn Karl II í útlegð í Breda. Hann og faðir hans höfðu flúið undan Oliver Cromwell, sem lést 1658. Árið 1660 samdi Karl II yfirlýsingu, kölluð Breda-yfirlýsingin, en þar setti hann fram þau skilyrði fyrir endurkomu sína til Englands en þangað fór hann á sama ári. Í kjölfarið hófst sjó- og verslunarstríð milli Englands og Hollands, sem lauk með friðarsamningunum í Breda 1667. Árið 1746 fóru fram friðarumleitanir Hollendinga, Frakka og Englendinga meðan austurríska erfðastríðið geysaði. Þær báru þó lítinn árangur, friður var ekki saminn fyrr en 1748 í Frakklandi.

Frakkar breyta

1793 hertók franski byltingarherinn borgina í nokkra mánuði. Franski herinn var undir stjórn Dumouriez og gafst borgin upp nær átakalaust 25. febrúar. Frakkar voru þó aðeins í tæpan mánuð í borginni, því þeir yfirgáfu hana aftur 18. mars. Árið 1795 hertóku Frakkar allt héraðið Brabant, þar með talið borgina Breda. 1809 sótti konungur Niðurlanda, Loðvík Bonaparte (bróðir Napoleons), borgina Breda heim. Napoleon setti bróður sinn af ári síðar og innlimaði Niðurlönd. Breda var hersetin allt til 1813 en í desember það ár nálgaðist rússnesk hersveit eftir ósigur Napoleons í Rússlandi. Frakkar fóru út borginni til að berjast við Rússa á sléttunum fyrir utan, en þetta notfærðu sér borgarbúar. Þeir lokuðu borgarhliðunum og tóku alla Frakka sem eftir voru innan borgarinnar höndum. 20. og 21. desember reyndi franski herinn að taka borgina aftur en árangurslaust.

20. öldin breyta

10. maí 1940 réðust Þjóðverjar inn í Holland. Franskur her undir stjórn Henri Giraud fór til Breda til að hjálpa til við varnir borgarinnar, en allt kom fyrir ekki. Breda féll strax sama dag og var hersetin næstu fjögur árin. 29. október 1944 náði pólsk skriðdrekasveit að frelsa borgina úr höndum nasista og voru allir meðlimir sveitarinnar gerðir að heiðursborgurum Breda í kjölfarið. Strax í stríðslok var eina stríðsglæpafangelsi Hollands sett upp í Breda. Þar voru fjórir fangar vistaðir (allt Þjóðverjar) og voru tveir síðustu þeirra látnir lausir 1989 eftir 40 ára vist.

Viðburðir breyta

 
Rauðhært fólk streymir til Breda í september ár hvert

Hátíð hinna rauðhærðu (Roodharigendag) er haldin í Breda fyrstu helgina í september ár hvert. Hátíðinni var hleypt af stokkunum 2005 í bænum Asten með 150 rauðhærðu fólki, en hefur verið haldin árlega í Breda síðan. Í dag er viðburðurinn orðinn alþjóðlegur.

Íþróttir breyta

Aðalknattspyrnulið borgarinnar er NAC Breda, sem varð hollenskur meistari 1921 og bikarmeistari 1973. Frjálsíþróttafélagið A.V. Sprint frá Breda er stærsta slíka í Hollandi. Aðrar íþróttir sem stundaðar eru í borginni eru hokkí, sund, blak, golf og hestaíþróttir.

Frægustu börn borgarinnar breyta

Byggingar og kennileiti breyta

  • Frúarkirkjan (Grote of Onze-Lieve-Vrouwekerk) er aðalkirkjan í miðborginni og hæsta bygging Breda með 97 metra. Hún kom fyrst við skjöl 1269 og var þá kaþólsk. Turn kirkjunnar hrundi 1457 og var endurreistur fram yfir aldamótin 1500. Í leiðinni voru aðrar breytingar og viðbætur gerðar. 1566 ruddist fólk inn í kirkjuna til að eyðileggja helgigripi og helgimyndir. Kirkjan varð þó ekki að mótmælendakirkju fyrr en 1637. Síðast var hún gerð upp 993-98. Í kirkjunni er grafhvelfing þar sem nokkrir forfeður hollensku konungsfjölskyldunnar hvíla. Kirkjan er aðeins stöku sinnum notuð fyrir guðsþjónustur í dag en oftar er hún notuð fyrir veraldlega viðburði.
  • Begínuhverfið (Begijnhof) er gamalt hverfi begína frá miðöldum. Hér er um 29 hús, oftast í raðhúsformi, að ræða, ásamt kirkju. Hverfið var reist 1535 og voru íbúar bæði kvenkyns og karlkyns. Begínurnar eru löngu horfnar í dag. Húsunum hefur verið breytt í safn.
  • Kastalinn í Breda var trúlega reistur á 12. öld. Þar bjuggu greifarnir af Breda en frá og með 15. öld var hann í eigu Nassau-ættarinnar. Vilhjálmur af Óraníu notaði kastalann sem virki gegn Spánverjum í frelsisstríðinu. Í byggingunni fóru fram friðarsamningarnir milli Hollendinga og Englendinga 1667 en þessar þjóðir áttu í verslunarstríði um þessar mundir. Á franska tímanum snemma á 19. öld var kastalinn notaður sem herstöð og herspítali. Í dag er þar starfandi herskóli.
  • Kasteel Bouvigne er kastali í Breda. Hann kom fyrst við skjöl 1554 og er því eitthvað eldri. Kastalinn kom lítið við sögu í stríðsrekstri borgarinnar í gegnum aldirnar. Garðarnir í kringum bygginguna eru opnir almenningi.

Heimildir breyta