Björgólfur Guðmundsson

Björgólfur Guðmundsson (fæddur 2. janúar 1941) er íslenskur viðskiptamaður og fyrrverandi formaður bankaráðs Landsbanka Íslands. Erlenda fjármálablaðið Financial Times lýsti honum sem áhrifamesta viðskiptamanni Íslands árið 2008.[1] Þann 31. júlí 2009 var Björgólfur úrskurðaður gjaldþrota í Héraðsdómi Reykjavíkur.[2]

Björgólfur Guðmundsson

Björgólfur er giftur (Margréti) Þóru Hallgrímsson, dóttur Hallgríms Fr. Hallgrímsson, forstjóra Skeljungs, og konu hans Margrétar Thors, og saman eiga þau Björgólf Thor Björgólfsson sem er ríkasti Íslendingurinn. Í fyrri hjónaböndum átti Þóra fjögur börn, eitt með Hauki Clausen og þrjú með George Lincoln Rockwell. Börn Rockwells urðu síðar kjörbörn Björgólfs og kenndu sig við hann. Eitt þeirra var Margrét Björgólfsdóttir, sem lést af slysförum 1989, og stofnuðu Björgólfur og Þóra minningarsjóð í nafni hennar. Sjóðurinn tapaði stórum hluta eigna sinna í bankahruninu á Íslandi árið 2008.

Ævi breyta

Björgólfur gekk í Verslunarskóla Íslands. Hann hóf nám í lögfræði við Háskóla Íslands en hætti eftir tvö ár. Hann sat í stjórn Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, árin 1965-68, og síðar formaður sjálfstæðisfélagsins Varðar. Hann var framkvæmdastjóri Dósaverksmiðjunnar í nokkur ár en árið 1977 var hann ráðinn framkvæmdastjóri Hafskips, íslensks flutningafyrirtækis sem varð gjaldþrota á níunda áratugnum. Óeðlileg viðskipti við Útvegsbankann voru gagnrýnd og Hafskipsmálið varð fyrirferðarmikið í umræðunni. Svo fór að Útvegsbankinn var lagður niður og eftir löng málaferli var Björgólfur dæmdur í eins árs skilorðsbundið fangelsi árið 1991.

Þá hélt Björgólfur út til St. Pétursborgar í Rússlandi, árið 1993 og stofnaði drykkjarvöruverksmiðjuna Bravo Brewery ásamt syni sínum Björgólfi Thor og Magnúsi Þorsteinssyni. Í febrúar 2002 seldu þeir Heineken verksmiðjuna fyrir 400 milljónir dollara.

Björgólfur sneri þá vellauðugur aftur til Íslands og var í forsvari svokallaðs Samson-hóps sem keypti 45,8% hlut í Landsbanka Íslands á 12,3 milljarða kr, en bankinn var einkavæddur í skrefum á árunum 1998-2003. Síðar kom þó í ljós að hluti kaupverðsins var fjármagnaður með láni frá Búnaðarbankanum. Björgúlfur sat í stjórn Landsbankans frá því í febrúar 2003 fram að bankahruninu. Hann eða þeir feðgar áttu hlut í fjölmörgum íslenskum fyrirtækjum og voru mjög umsvifamiklir, meðal annars við kaup á fasteignum og lóðum í miðborg Reykjavíkur og ýmsar stórframkvæmdir, svo sem byggingu tónlistarhússins Hörpu. Árið 2005 var Björgólfur sæmdur Riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag til viðskiptalífs og menningar.

Árið 2006 stóð Björgólfur á bak við kaup Eggerts Magnússonar á enska úrvalsdeildarfélaginu West Ham United F.C. og varð aðaleigandi þess. Í kjölfarið var Björgólfur skipaður heiðursformaður knattspyrnufélagsins.[3]

Eftir bankahrunið haustið 2008 hefur Björgólfur verið gagnrýndur fyrir starfsemi bankans og tengsl sín við skattaskjól. Hefur hann látið lítið fara fyrir sér síðan þá. Helstu félög hans eru gjaldþrota eða bíða þess að verða tekin til skipta.

Eignir Björgólfs voru metnar á $1.2 milljarða árið 2007, en 2008 féll hann af lista Forbes tímaritsins yfir helstu auðmenn veraldar. Þann 31. júlí 2009 var hann úrskurðaður gjaldþrota að eigin ósk.

Tilvísanir breyta

  1. „Iceland wealth fund is proposed“. Financial Times. 25. apríl 2008. Sótt 29. apríl 2008.
  2. Björgólfur Guðmundsson úrskurðaður gjaldþrota; af Vísi.is 31.07.2009
  3. „Búið að ganga frá kaupum Eggerts á West Ham“. Morgunblaðið. 21. nóvember 2006. Sótt 2. júlí 2007.

Tenglar breyta

   Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.