Berengaría af Portúgal

Berengaría af Portúgal (um 11951221), kölluð Beingerður (Bengjerd) í Danmörku, var portúgölsk konungsdóttir og drottning Danmerkur frá 1214 til dauðadags.

Hárflétta Berengaríu drottningar.

Berengaría var tíunda í röðinni af ellefu börnum Sanchos 1., konungs Portúgals, og Dulce af Aragóníu. Hún kom til frönsku hirðarinnar ásamt bróður sínum, Ferrante, árið 1211 og kynntist þar Ingibjörgu drottningu, konu Filippusar 2. Frakkakonungs og systur Valdimars sigursæla Danakonungs, og kynnti hún Berengaríu fyrir Valdimar. Dagmar, fyrri kona hans, dó af barnsförum 1212 eða 1213 og í þjóðkvæði segir að hún hafi á banabeði beðið Valdimar að gifast annarri stúlku, ekki „fallega blóminu“ Berengaríu, en miklar sögur fara af fegurð hennar. Engar heimildir aðrar styðja frásagnir kvæðisins og Valdimar og Berengaría giftust 1214.

Dagmar hafði verið afar vinsæl meðal þegnanna. Berengaría var andstæða hennar, dökk yfirlitum og sögð harðlynd og drambsöm. Hún var því óvinsæl í Danmörku og margir kenndu henni um háa skatta sem Valdimar lagði á þegnana en þeir runnu þó aðallega til stríðsreksturs hans. Berengaría reyndi þó að afla sér vinsælda, meðal annars með því að gefa kirkjum og klaustrum gjafir.

Berengaría eignaðist fjögur börn sem upp komust á árunum 1216-1219 en dó svo af barnsförum árið 1221. Hún var móðir þriggja Danakonunga, Eiríks plógpenings, Abels og Kristófers 1., auk dótturinnar Soffíu, sem giftist Jóhanni markgreifa af Brandenburg. Hún er grafin í kirkju heilgas Bendts í Ringsted við hlið manns síns en Dagmar drottning hvílir við hina hlið hans. Gröf Berengaríu var opnuð 1855 og fannst þá meðal annars þykk og mikil hárflétta.

Heimildir breyta