Batalhão de Operações Policiais Especiais („Séraðgerðalögreglusveitin“ á portúgölsku, best þekkt sem BOPE) er sérsveit innan brasilísku lögreglunnar sem brasilíska ríkistjórnin setti á laggirnar til að berjast gegn eiturlyfjagengjum. Uppruna BOPE má rekja aftur til 19. janúar 1978 en þá hét sveitin Núcleo da Companhia de Operações Especiais eða „Kjarni séraðgerðasveitarinnar“ (NuCOE). Sveitin var mynduð og sett undir stjórn æðstu starfsmanna herlögreglu ríkisins. Árið 1982 var nafninu breytt í Companhia de Operações Especiais eða „Séraðgerðasveitin“ (COE), tveimur árum síðar var því svo aftur breytt í NuCOE. Sveitin sérhæfir sig í að berjast á þéttbýlum svæðum og á stóran flota af vopnuðum ökutækjum.

Ökutækin kallast Pacificador eða „Friðarstillir“ og Caveirao eða „Stór hauskúpa“. Sveitin á einnig eina Huey-herþyrlu og gröfu sem riður burt vegatálmum og öðrum hindrunum. Sveitin notar þessi ökutæki við aðgerðir á þéttbýlissvæðum þar sem sveitin lendir í áköfum skotbardögum við eiturlyfjagengi. Comando Vermelho eða „Rauða valdið“ er það eiturlyfjagengi sem BOPE hefur þurft að beita sér mest gegn, en er það stærsta gengið í Brasilíu. BOPE og Comando Vermelho hafa lengi eldað grátt silfur.

Einkunnarorð BOPE er Faca na caveira eða „Hnífur í hauskápuna“ en einkennismerki sveitarinnar vísar einmitt í þessi orð. Merkið inniheldur hnífa sem hafa verið reknir í gegnum hauskúpu og tvær skammbyssur sem mynda kross en svipar þetta mikið til hinna gömlu sjóræningjafána. Hnífurinn og skammbyssurnar tákna grundvallarvopn lögreglunnar, hauskúpan táknar dauðann og í sameiningu táknar þetta sigur BOPE yfir dauðanum. BOPE liðar hafa hin ýmsu hlutverk og markmið. Meðal þessara markmiða eru að tryggja öryggi á sérstökum atburðum, brjóta niður vegatálma sem eiturlyfjagengi hafa komið fyrir, drepa glæpamenn sem almennum borgurum stafar lífshætta af, útrýma eiturlyfjasölu og stöðva uppreisnir í fangelsum.

Árið 2007 var frumsýnd brasilíska myndin Tropa de Elite sem náði gríðarlegum vinsældum í heimalandinu og um allan heim, en var jafnframt umdeild þar sem hún sýnir ofbeldisfullar aðgerðir BOPE sveitarinar í jákvæðu ljósi. Margir gagnrýnendur töldu hana jafnvel vera fasíska þar sem menn sem virtu mannréttindi að vettugi væru gerðir að hetjum. Tropa de Elite er þrátt fyrir það ein vinsælasta brasilíska mynd allra tíma.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.