Anna af Bæheimi, Englandsdrottning

Anna af Bæheimi (11. maí 13667. júní 1394), kölluð Góða drottningin Anna, var drottning Englands frá 1382 til dauðadags, fyrri kona Ríkharðs 2. Englandskonungs.

Anna drottning. Mynd frá 14. öld.

Anna var elsta dóttir Karls 4. keisara hins Heilaga rómverska ríkis og Elísabetar af Pommern. Einn bræðra hennar var Sigmundur keisari. Faðir Önnu var voldugasti þjóðhöfðingi Evrópu á þeim tíma. Ríkharði hafði staðið til boða að giftast Katarínu Visconti, dóttur Bernabò Visconti í Mílanó, og fá með henni geysimikinn heimanmund, en ráðgjafar hans kusu fremur að semja við keisarann til að reyna að afla Englendingum bandamanna gegn Frökkum í Hundrað ára stríðinu, þótt enginn heimanmundur fylgdi Önnu - þvert á móti, Englendingar urðu að gjalda bróður hennar háa fjárhæð. Þessi ráðstöfun varð óvinsæl, ekki síst eftir að ljóst varð að Englendingar myndu lítið græða á tengslunum við keisarann. Mörgum aðalsmönnum líkaði því hjónabandið illa.

Anna kom til Englands 15 ára gömul, í desember 1381, og var illa tekið fyrst í stað en hún giftist þó Ríkharði konungi, sem var ári yngri, í Westminster Abbey 22. janúar 1382. Það var síðasta konunglega brúðkaupið í kirkjunni í 537 ár.

Anna virðist með tímanum hafa aflað sér vinsælda, einkum meðal almennings, enda er hún sögð hafa verið einstaklega góðlynd og hjartagóð og reyndi stöðugt að biðja um miskunn fyrir menn sem maður hennar hafði dæmt til dauða og aðra. Hún er líka kölluð Góða drottningin Anna í ýmsum heimildum.

Anna eignaðist engin börn og virðist aldrei hafa orðið þunguð þótt þau Ríkharður væru gift í tólf ár. Hún dó úr plágu 1394 og syrgði Ríkharður hana mjög, enda virðist samband þeirra hafa verið gott. Gröf hennar í Westminster Abbey var opnuð árið 1871 og kom þá í ljós að mörgum af beinum hennar hafði verið stolið gegnum gat á hlið kistunnar.

Heimildir breyta