Þreytistríð eru langvinn vopnuð átök þar sem annar aðilinn, oftast sá sem á í vök að verjast, reynir að lengja átökin sem mest í þeim tilgangi að þreyta óvininn þ.a. baráttuþrek hans þverri eða að gera honum væntnlegan sigur dýrkeyptan (pyrrosarsigur). Niðurstaða þreytistríðs er yfirleitt mikið mannfall á báða bóga, gífurleg eyðileggining mannvirkja og lands, pólitísk upplausn og jafnvel efnahagshrun. „Sigur“ í þreytistríði er því dýru verði keyptur og deila má um hvað hugtakið sigur merkir í þeim skilningi. Umsátur er ein tegund þreytistríðs, en þekktast er líklega umsátur rómverja um Masadavirkið í Júdeu (nú Ísrael) árið 72, sem lauk með því að um 1000 virkisverja sviptu sig lífi.

Nútímaher forðast þreytistríð því hann er illa búinn efnahagslega og politískt undir langvinn átök. Því er reynt af fremsta megni að ná skjótum hernaðarsigri á vígvelli og knýja þannig óvininn til að leggja niður vopn. Hætt er við að þegar átökum formlegra herja lýkur með uppgjöf annars hersins taki við skæruhernaður, sem getur breytt átökum í þreytistríð.

Dæmi um stríð sem á ákveðnu tímabili má flokka sem þreytistríð: Fyrri heimsstyrjöldin, Víetnamstríðið, stríð Íraks og Írans og hugsanlega stríðið í Írak.