Þjóðríki

Pólitískt hugtak fyrir ríki sem byggir á þjóð og er oftast á afmörkuðu landsvæði

Þjóðríki er ríki sem þjóð byggir, alla jafna á afmörkuðu landsvæði. Í þjóðríki er að meira eða minna leyti sátt um einingu þjóðar sem landið byggir, þar er yfirvald sem tekið er gilt, burtséð frá því hvernig stjórnarfari er háttað, og ríki sem fer með og er vettvangur fyrir ýmis sameiginleg mál þjóðarinnar.

Þjóðríkishugtakið breyta

Þjóðríkishugtakið á sér gullöld á nítjándu öld og þá áttu flestar sjálfstæðisbaráttur þjóða sér stað. Deilt er um hvort rætur þjóðríkisins séu í rómantík og þjóðernishyggju átjándu og nítjándu aldar, þegar hugmyndalegum stoðum var óumdeilanlega rennt undir þjóðríkishugtakið, eða aftur í ættbálkasamfélagi fyrri alda og eldri gerðum ríkja en þjóðríki skyldi ekki rugla saman við borgríki. Þjóðríki birtast í samtímanum sem stöðugar einingar sem hafa verið óbreyttar um langa hríð en eigi að síður eru stærri þjóðríki, svo sem Spánn og Frakkland, jafnan byggð á sameiningu margra smáríkja frá eldri tíð. Gagnrýnir umfjallendur þjóðríkishugtaksins álíta þjóðríkið menningarlegan tilbúning eða hugsmíð og telja hverfult en þjóðríkið hangir þó ekki eingöngu saman á hugmyndalegum grundvelli, svo sem á sameiningartáknum eða þjóðernishyggju, heldur eru í því auk þjóðarhefða stjórnsýslulegar og pólitískar stofnanir, lagaumgjörð, stjórnmálakerfi og yfirvöld og fáir telja þjóðríkið munu líða undir lok alveg í bráð.

Ríkislausar þjóðir breyta

Þjóðríki er ekki óhjákvæmilegur fylgifiskur þjóða því fjöldi þjóða er án ríkis. Þar nægir að nefna flökkuþjóðir á borð við sígauna og að einhverju leyti gyðinga (fyrir tilkomu Ísraelsríkis) og einnig Skota á Bretlandi og Katalóna á Spáni. Sumar þessara þjóða uppfylla skilgreiningu á þjóð, svo sem sameiginlegt tungumál og menningararfleifð, og sum berjast fyrir aukinni sjálfstjórn eða stofnun sjálfstæðs ríkis, svo sem Kúrdar. Aðrar þjóðir sækjast ekki eftir stofnun þjóðríkis, hvort sem er af efnahagsástæðum eða stjórnmálalegum.

Fullveldi breyta

Grundvallaratriði í allri umræðu um þjóðríkið er fullveldi og sjálfsákvörðunarréttur þjóða. Með tilkomu yfirþjóðlegra eininga á borð við Evrópusambandið afsala þjóðir sér hluta af fullveldi sínu eða að minnsta kosti sjálfstæði sínu, það er að segja þær samþykkja meðvitað að framselja hluta af ákvörðunarvaldi sínu í hendur stærri heildar.

Heimildir breyta

Guðmundur Hálfdanarson, Íslenska þjóðríkið: uppruni og endimörk (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, ReykjavíkurAkademían, 2001).

Tengt efni breyta

   Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.