Ábrystir eru spónamatur sem búinn er til úr broddmjólk úr kúm en áður var sauðamjólk einnig notuð.

Ábrystir með kanilsykri og bláberjasósu.

Broddmjólkin er misþykk, þykkust fyrsta sólarhringinn eftir burð og þá er hún yfirleitt blönduð með nýmjólk til helminga eða meira, þynnri á öðrum degi og þá er hún minna blönduð og yfirleitt þarf ekki að blanda brodd sem mjólkaður er á þriðja degi eftir burð. Þegar broddurinn er hitaður, þá ystir hann og verður stífur. Vegna þess að ekki er hægt að hræra í honum, þá þarf að setja broddinn í skál eða kastarholu, sem aftur fer ofan í stærri pott með vatni í, sem svo er settur á hellu (eða hlóðir). Þannig brenna ábrystirnar ekki við (nú á tímum er einfaldast að sleppa vatnsbaðinu og sjóða ábrystirnar í örbylgjuofni). Þær eru látnar sjóða við vægan hita þar til þær eru orðnar stífar; það getur tekið um 20 mínútur en tíminn fer þó eftir þykkt broddmjólkurinnar. Ef ábrystirnar eru soðnar of mikið springa þær gjarna (bresta) og af því er nafnið ef til vill dregið. Ábrystir eru ýmist borðaðar heitar, volgar eða kaldar. Vinsælt er að setja kanilsykur út á, en annað útákast þekkist einnig. Stundum er líka höfð saft eða sæt sósa með ábrystunum.

Íslendingar eru ekki einir um að nota brodd í matargerð; færeyskur ketilostur er til dæmis mjög áþekkur og svipaðir réttir eru gerðir um öll Norðurlönd, í Skotlandi og reyndar mun víðar. Sunnar á Bretlandseyjum þekkjast ýmsir hefðbundnir réttir úr broddmjólk, sem þar kallast beestings.